Mikil gleði ríkti í Kvosinni í dag þegar 9 bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna.
Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningu að þessu sinni:
Fagurbókmenntir
- Humátt eftir Guðrúnu Hannesdóttur
- Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen
- Mörk eftir Þóru Karítas Árnadóttur
Fræðibækur og rit almenns eðlis
- Rof – Frásagnir kvenna af fóstureyðingum eftir Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunni Rögnvaldsdóttur
- Ástin, drekinn og dauðinn eftir Vilborgu Davíðsdóttur
- Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld eftir Þórunni Sigurðardóttur
Barna- og unglingabókmenntir
- Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur
- Koparborgin eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur
- Randalín, Mundi og afturgöngurnar eftir Þórdísi Gísladóttur og Þórarin M. Baldursson
Rökstuðningur dómnefnda
Fagurbókmenntir
Humátt
eftir Guðrúnu Hannesdóttur
Útgefandi: Textasmiðjan
Humátt er eftirminnileg, innihaldsrík og vönduð ljóðabók sem einkennist af skörpu innsæi, aðdáunarverðum stílbrögðum og óbilandi tilfinningu fyrir möguleikum ljóðsins. Bókin er uppfull af þeim nákvæmu en jafnframt kraftmiklu, óvæntu myndum sem eru eitt höfundareinkenna Guðrúnar Hannesdóttur.
Í þeim 42 ljóðum sem er að finna í fimmtu ljóðabók Guðrúnar mætir lesandanum firnasterkt myndmál og óumdeilanleg hugmyndaauðgi. Skáldið beitir ísmeygilegum húmor og meitluðu tungumáli til að draga upp myndir sem stundum vara aðeins augnablik en teygja sig þó til allra átta í tíma og rúmi. Tilfinningin fyrir fortíðinni, íslenskum alþýðuvísindum, náttúru og þjóðlegum stefjum blandast samtíma okkar í tímalausri rödd ljóðmælandans. Náttúran er síkvik og nálæg en klisjur eru víðsfjarri; Guðrún teymir lesandann stöðugt eftir óvæntum stígum.
Á stundum er rödd ljóðmælandans jafnvel óvægin, tungumálinu beitt á nístandi hátt, en undirtónninn er ávallt sannur og heill. Örugg tökin á ljóðforminu verða til þess að djúpum tilfinningum og brýnum spurningum er miðlað á hátt sem hreyfir við lesandanum og birtir honum áður óþekkta sýn. Úr listlegu samspili viðfangsefna og forms verður afar sterkt verk.
Tvöfalt gler
eftir Halldóru K. Thoroddsen
Útgefandi: HKT/1005 Tímaritaröð
Tvöfalt gler er stutt skáldsaga, svokölluð nóvella, og í henni er skrifað um manneskju sem ekki oft fær rödd í íslenskum skáldskap; konu á áttræðisaldri sem hefur nýlega misst eiginmann sinn. Konu sem að einhverju leyti er „úr leik“ og „tíminn hefur nagað“ eins og segir í sögunni. Þegar hún lendir í ástarsambandi stendur hún frammi fyrir spurningum um réttmæti þess að verða ástfangin á efri árum, auk þess sem hún tekst á við álit fólksins í kringum sig. „Ástir gamalmenna eru ekki heilbrigðar hjónabandsástir sem miða að uppfyllingu jarðarinnar“ segir í Tvöföldu gleri, sem jafnframt sýnir fram á kosti slíkra ásta á einstakan máta.
Sagan lætur lítið yfir sér, eins og sagt er, en er þétt, fallega skrifuð og „stór“ þótt hún sé stutt. Lesendur verða nokkurs vísari um líf þeirra sem með skrauthvörfum eru kallaðir eldri borgarar en hétu hér áður fyrr gamalt fólk. Halldóra skrifar um hversdagslegar athafnir konunnar, hugsanir hennar um fortíð og framtíð og dregur upp eftirminnilega mynd af lífsþorsta og ástarþrá manneskju sem dafnar og vex þegar dauðinn er allt í kringum hana.
Halldóru Thoroddsen tekst sérlega vel að lýsa miklum tilfinningum í fáum en dýrmætum orðum. Sagan Tvöfalt gler er lágstemmd og fögur og stíllinn tær, ljóðrænn og sindrandi.
Mörk
eftir Þóru Karítas Árnadóttur
Útgefandi: Forlagið
Í Mörk skrifar Þóra Karítas Árnadóttir sögu móður sinnar, Guðbjargar Þórisdóttur. Sagan er skráð í fyrstu persónu Guðbjargar sem ólst upp í stórri og ástríkri fjölskyldu í húsinu Mörk í Reykjavík. En yfir hlýjunni og ástúðinni hvílir skuggi afans sem beitir Guðbjörgu kynferðislegu ofbeldi frá unga aldri.
Mörk er skrifuð af mikilli hlýju og einlægni. Hún er látlaus og dvelur ekki við ofbeldislýsingar, án þess að vera með tepruskap. Bókin nær að vera klisjulaus og þetta er nýr vinkill á sögu þolanda. Þetta er ekki saga um ónýtt líf heldur um manneskju sem nær að vinna úr hryllingnum og stendur uppi sem sigurvegari, þótt ekkert sé dregið úr alvarleikanum.
Til marks um úrvinnslu tilfinninga og þroska, sem Guðbjörg hefur náð, er klausa á blaðsíðu 112. Hún kallast á við nafnið á húsinu Mörk, sem var í senn heimili hennar og vettvangur ofbeldisins, og gefur titli bókarinnar þar með tvöfalda merkingu: „Nú veit ég hversu heimskulegt það var af sjálfri mér að ætlast til að ég sem barn gæti varið sjálfa mig og sett fullorðnum manni mörk.“
Fræðibækur og rit almenns eðlis
Rof – Frásagnir kvenna af fóstureyðingum
eftir Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunni Rögnvaldsdóttur
Útgefandi: Háskólaútgáfan
Rof er tímabær bók um þýðingarmikinn hluta af reynsluheimi kvenna sem legið hefur að mestu í þagnargildi til þessa.
Í bókinni eru frásagnir 76 kvenna af fóstureyðingum sem höfundar hafa greint af kostgæfni og skipt í flokka. Greining höfunda setur frásagnirnar í samfélagslegt og fræðilegt samhengi og dýpkar þannig upplifun lesandans.
Lesandinn kemst ekki hjá því að horfast í augu við að á Íslandi er ákvörðun um fóstureyðingu ekki að fullu í höndum kvenna, heldur eru þær framkvæmdar í krafti kerfis sem vill svo til að er hliðhollt konum og þeirra ákvörðunarrétti. Þannig gæti kerfið á sama hátt dregið til baka þessi réttindi, sem konum eru í raun ekki tryggð með núgildandi lögum.
Útgangspunktur bókarinnar er að konur eigi rétt á að taka ákvörðun um fóstureyðingu á eigin forsendum og er því mikilvægt framlag til áframhaldandi réttindabaráttu kvenna og til þess að afnema þá bannhelgi sem legið hefur á umræðu um fóstureyðingar.
Ástin, drekinn og dauðinn
eftir Vilborgu Davíðsdóttur
Útgefandi: Forlagið
Vilborg Davíðsdóttir fjallar hér á hispurslausan hátt um þá tilveru sem blasti við henni og eiginmanni hennar eftir að hann greindist með krabbamein.
Höfundur tekst á við áleitnar spurningar um lífið og dauðann og horfist í augu við hvort tveggja af hugrekki og æðruleysi. Bókin er skrifuð af mýkt og einlægni, Vilborg nálgast dauðann sem hluta af lífinu og vekur máls á kimum mannlífsins sem fólk veigrar sér við að ræða.
Um leið og dauðinn er til umræðu er lífinu tekið opnum örmum. Þegar meinið greindist höfðu hjónin þegar tileinkað sér lífsstíl þar sem árvekni var í fyrirrúmi, og einkenna slíkar hugleiðingar bókina.
Vilborg notar myndmál ævintýranna um baráttu sína og síns heittelskaða við krabbameinið. Meinið er kallað „drekinn“, baráttu prinsins við það lýkur á ári drekans samkvæmt kínversku tímatali og við tekur ár snáksins, eða ár endurnýjunar. Þannig fær lesandinn einnig að fylgjast með Vilborgu fóta sig þegar allt er yfirstaðið og takast á við sorgina.
Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld
eftir Þórunni Sigurðardóttur
Útgefandi: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Bókin hefur að geyma frumrannsókn Þórunnar Sigurðardóttur á lítt rannsökuðu efni, en í henni rýnir höfundur í íslensk tækifæriskvæði frá árnýöld, sem ort voru í minningu látinna, og sýnir fram á að þau heyri undir mismunandi kvæðagreinar.
Auk fræðilegrar dýptar hefur bókin mikla breidd í efnistökum. Þórunn skoðar félagslegt og sálrænt hlutverk kvæðanna út frá samfélagsviðmiðum við ritunartíma og ber saman við hugmyndir nútímans. Jafnframt skoðar hún tengsl kvæðanna við heiður hins látna og einnig hvernig skáld gátu nýtt sér ritun erfiljóða til að auka eigin metorð.
Þau 17 kvæði sem birt eru í bókinni hafa hingað til verið varðveitt í handritum og sjást nú í fyrsta sinn á prenti, en þar á meðal eru tvö kvæði eftir íslenskar konur. Upprunalegur ritháttur textans er birtur samhliða nútímarithætti, sem gerir hann aðgengilegri fyrir lesendur.
Barna- og unglingabókmenntir
Vetrarfrí
eftir Hildi Knútsdóttur
Útgefandi: Forlagið
Vetrarfrí er lipurlega skrifuð og ákaflega spennandi unglingabók með mikilvægan boðskap og sterka ádeilu. Sagan hefur sterka samsvörun til nútímans og heimsmálanna og færir þær hörmungar sem fylgja lífi flóttamannsins nær unglingum og lesendum.
Textinn rennur vel og er áreynslulaus og persónusköpun er einkar skýr, sérstaklega á aðalsöguhetjum. Í sögunni er flottur og áhrifamikill stígandi þar sem tilveran tekur miklum stakkaskiptum; frá því að vera eðlileg tilvera unglinga og barna með þeim hversdagslegu vandamálum sem þar fylgja yfir í ofsafengin átök. Þrátt fyrir umbyltingu á tilverunni heldur lífið þó áfram og sama hvar fólk er statt og líka í stríði; heldur manneskjan áfram að vera manneskja með sínar smærri og stærri þrár, drauma og væntingar. Og í stríði halda unglingar líka áfram að vera ástfangnir.
Þrátt fyrir að sagan lýsi óhugnaði og blóðugu ofbeldi er mikill húmor í henni sem gerir það að verkum að það fjarstæðukennda verður öllu bærilegra aflestrar og er því þessi hörmungasaga því um leið líka stórskemmtileg.
Koparborgin
eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur
Útgefandi: Bókabeitan
Í Koparborginni birtist einstakur söguheimur, margslunginn og vel hugsaður í framandi og leyndardómsfullri fantasíu. Sagan er spennandi frá fyrstu blaðsíðu, falleg og hrikaleg í senn, og heldur bæði þaulvönum fantasíuaðdáendum sem og þeim sem eru nýgræðingar á þeim lestri og er það kostur hve aðgengileg hún er þrátt fyrir að bregða upp tilveru sem er víðsfjarri lesandanum.
Viðfangsefni Koparborgarinnar eru erfiðleikar sem börn þurfa að glíma við í heimi þar sem plága hefur geisað og snýst tilveran um að þrauka dag frá degi og er tilvera barnanna grimm, ekki síður en í heimi fullorðinna þar sem þau þurfa að gera allt til að halda lífi, jafnvel þótt það kosti líf annarra og vekur sagan upp ýmsar siðferðilegar spurningar og þá kemur hún inn á vináttu, að treysta á sjálfan sig og að tilveran er ekki alltaf öll sem hún sýnist.
Aðalsöguhetjan er sérlega vel skrifuð persóna, torræð og breysk og í heild er verkið fagurlega skapað þar sem galdrar, framandleiki og dulúð gefa sögunni heillandi blæ.
Randalín, Mundi og afturgöngurnar
eftir Þórdísi Gísladóttur og Þórarin M. Baldursson
Útgefandi: Bjartur
Randalín, Mundi og afturgöngur segir skemmtilega sögu sem börn tengja við og skilja þar sem sagan hefur raunverulega tengingu við líf þeirra og þeirra dagsdaglegu vandamál og verkefni.
Sögusviðið er fullkomlega barnanna og þótt fullorðnir séu síður en svo víðsfjarri í sögunni eru þeir í algjöru aukahlutverki og sá fullorðinsheimur er fullkomlega séð út frá augum barnanna og þeirra málstað; oft á skondinn hátt þar sem til dæmis flökkusögur um kattakjöt á pítsum eru settar í nýtt og skemmtilegt samhengi.
Teikningarnar eru frábærar, setja léttan blæ á söguna og auka á gæði hennar. Uppsetning og letur framkallar eilítið gamaldags stemmingu og kaflafyrirsagnirnar eru afar góð viðbót og vekja eftirvæntingu.
Yfir sögunni er skondinn og léttur tónn og höfundur hefur næmt auga fyrir því eilítið skrýtna og skemmtilega í dagsdaglegu lífi og dregur fram stemningu þar sem lesendur skynja borgarumhverfið með öllum sínum krókum, kimum, ilmi og braki í jólasnjó.
Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2016 skipa:
Fagurbókmenntir:
- Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir, íslenskukennari og málfarsráðgjafi hjá RÚV
- Salka Guðmundsdóttir, leikskáld og þýðandi
- Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, bókmenntafræðingur og rithöfundur
Fræðibækur og rit almenns eðlis:
- Erla Elíasdóttir Völudóttir, þýðandi
- Erna Magnúsdóttir, líffræðingur
- Sigurrós Erlingsdóttir, íslenskukennari
Barna- og unglingabókmenntir:
- Júlía Margrét Alexandersdóttir, blaðamaður
- Þorbjörg Karlsdóttir, bókasafnsfræðingur
- Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir, teiknari og hreyfimyndagerðamaður