Styrktaraðilar
Fjöruverðlaunin hafa aldrei haft fastan styrktaraðila og hafa því ekki verið peningaverðlaun en vinningshafar fá verðlaunagrip hannaðan af listakonunni Koggu. Allt starf undirbúningshóps og dómnefnda Fjöruverðlaunanna hefur þar að auki verið launalaust frá upphafi. Engu að síður hafa verðlaunin notið gjafmildi ýmissa sjóða og fyrirtækja og vill félag um Fjöruverðlaunin koma bestu þökkum á framfæri til þeirra.
Borgarstjóri Reykjavíkur – Bókmenntaborgar UNESCO hefur verið sérlegur verndari Fjöruverðlaunanna frá árinu 2015 og skipulagt í samstarfi við félagið verðlaunaafhendingahátíðir í Höfða.
Listakonan Kogga styrkir verðlaunin árlega með því að gefa vinnu sína og efniskostnað við gerð verðlaunagripa. Kogga hefur starfað sem leirlistamaður síðan um miðbik 8. áratugsins og er í dag einn fremsti listamaður þjóðarinnar.
Erla Gerður Viðarsdóttir hjá Pipar\TBWA er hönnuður merkis og verðlaunaskjaldar Fjöruverðlaunanna. Öll vinna við hönnun og gerð merkisins var gjöf Pipar\TBWA til Fjöruverðlaunanna.
Rithöfundasamband Íslands hefur veitt frá upphafi veitt faglega aðstoð og afnot af húsnæði sambandsins, Félag íslenskra bókaútgefenda hefur aðstoðað við móttöku og afhendingu tilnefndra bóka og Borgarbókasafnið hefur verið dyggur stuðningsaðili og hýst hátíðir að tilefni verðlaunanna.
Þeir sem styrkt hafa Fjöruverðlaunin á undanförnum árum með fjárstyrkjum eru einkum Menningarsjóður Hlaðvarpans, sem veitti verðlaununum lið frá árinu 2008 til ársins 2014, og Samfélagssjóður Landsbankans sem styrkti verðlaunin 2017. Einnig hafa verðlaunin hlotið styrki frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, Landsvirkjun og Íslandsstofu.
Aðrir samstarfsaðilar sem eiga þakkir skildar eru Hannesarholt, Kolkuós í Skagafirði og Iðnó.