Systurverðlaun á erlendri grundu

WOMEN‘S PRIZE FOR FICTION

The Women’s Prize for Fiction eru rótgróin og virt bókmenntaverðlaun sem veitt hafa verið í Bretlandi frá árinu 1996. Ekki koma þó aðeins breskir höfundar til greina við valið, heldur má tilnefna allar bækur eftir konur sem skrifaðar eru á ensku. Fyrst nefndust verðlaunin The Orange Prize, vegna þess að styrktaraðili þeirra var fjarskiptafyrirtækið Orange, og í þrjú ár voru verðlaunin kennd við annan styrktaraðila, Baileys.

Það var rithöfundurinn og leikskáldið, Kate Mosse, sem var aðalhvatamanneskja þess að verðlaununum var ýtt úr vör en mikil óánægja hafði kraumað meðal kvenna í menningarlífinu í Bretlandi vegna kynjahalla. Þótt 60% útgefinna bóka væru eftir konur hlutu karlar meirihluta bókmenntaverðlauna. T.d. voru aðeins 10% tilnefndra Booker-verðlaunabóka eftir konur árið 1992 þegar hugmyndin að kvennaverðlaunum tók að gerjast.

Vefur kvennaverðlaunanna er sérlega fræðandi og skemmtilegur. Þar eru ekki aðeins upplýsingar um verðlaunahöfunda liðinna ára og bækur þeirra, heldur alls kyns efni sem tengist bókmenntum og rithöfundum.

THE STELLA PRIZE

The Stella Prize, bókmenntaverðlaun kvenna í Ástralíu, voru fyrst veitt árið 2013 en heiti verðlaunanna vísar til áhrifamikils, ástralsks rithöfundar, Stellu Maríu Söru „Miles“ Franklin. Bæði má tilnefna fagurbókmenntir og fræðibækur en höfundur verðlaunabókarinnar fær peningaverðlaun, sem nema 50.000 áströlskum dollurum svo hún geti einbeitt sér að frekari skrifum.

Tilgangurinn með stofnun Stellu-verðlaunanna var að beina kastljósi að vönduðum bókum eftir konur, m.a. í von um að kynda undir áhuga og sölu. Átta konur sitja í stjórn verðlaunanna og tveir launaðir starfsmenn annast skipulagningu alls kyns menningarviðburða á vegum félagsins, t.d. upplestra í bókaverslunum, bókmenntahátíða og heimsókna rithöfunda í háskóla. Einnig birtir félagið um Stelluverðlaunin árlega yfirlit yfir fjölda ritdóma um bækur kvenna og karla í áströlskum dagblöðum og bókmenntatímaritum.

Árið 2014 ýtti félagið úr vör The Stella Schools Program sem felst í því að heimsækja skóla og hvetja börn til aukins bóklestrar og til að láta drauma sína rætast.

AMALIE SKRAM PRISEN

Bókmenntaverðlaun kvenna, kennd við rithöfundinn Amalie Skram, hafa verið veitt í Noregi frá árinu 1994. Tilkynnt er um vinningshafann, konu sem skrifar bækur og/eða leikrit í anda Amalie, á afmælisdegi hennar þann 22. ágúst ár hvert.

Á vef félagsins, sem veitir Amalie Skram verðlaunin, er m.a. að finna upplýsingar um þær skáldkonur sem fengið hafa þessa viðurkenningu.

 Lífshlaup Amalie Skram var um margt óvenjulegt, oft erfitt en einnig ævintýralegt á köflum. Hún fæddist í Bergen 1846 og þótt foreldrar hennar væru ekki efnaðir fékk hún að stunda nám í besta kvennaskóla bæjarins. Skömmu eftir að Amalie fermdist varð faðir hennar gjaldþrota og fluttist vestur um haf. Ári síðar, 1864, giftist hún skipstjóra, Bernt Müller, en þá varð hún aðeins 18 ára. Hún fór með honum í siglingu til Vestur Indía og Mexíkó en eftir heimkomuna fæddust þeim hjónum tveir synir.

Rúmlega tvítug skellti Amalie sér aftur í siglingu með eiginmanninum og tók synina ungu með. Mörgum árum síðar varð þessi ferð henni svo efniviður í skáldsögur. Eftir heimkomuna 1871 tók Amalie virkan þátt í menningarlífinu í Bergen og lék m.a. á sviði. Hún las líka mikið og byrjaði sjálf að skrifa, bæði leikrit og annan texta.

En nú var eiginmaðurinn kominn í land, búinn að kaupa millu og hjónabandið gekk illa. Að endingu fékk Amalie taugaáfall og skömmu fyrir jól 1877 var hún lögð inn á sjúkrahús. Eftir veikindin flutti hún til bróður síns, skildi við eiginmanninn en fékk forræði yfir litlu drengjunum tveimur. Um tíma vann hún fyrir sér með ritstörfum og skrifaði t.d. bókmenntagagnrýni um verk eftir þekkta höfunda á borð við Ibsen og Björnstjerne Björnson.

Amalie og synirnir fluttu með bróður hennar til Osló 1881 en þar var litið niður á fráskildar konur. Ekki bætti það úr skák að fyrsta bókin hennar, sem út kom 1882, skyldi fjalla um fólk í neðstu lögum samfélagsins. Það þótti alls ekki viðeigandi umfjöllunarefni.

Danskur rithöfundur, Erik Skram, hreifst þó bæði af skrifunum og Amalie. Þau gengu í hjónaband og fluttust til Kaupmannahafnar og þar vann Amalie Skram af gífurlegum krafti frá 1885 til 1893. Hún sendi frá sér bækur og leikrit, firnavel skrifuð verk en svo uppfull af þjóðfélagsgagnrýni að ekki gekk alltaf snurðulaust fyrir sig að koma þeim út eða á svið. Meðal þess sem Amalie fjallaði um voru hjónabandserfiðleikar, fráskildar konur og óhamingjusamar vændiskonur en steininn þótti taka úr þegar hún skrifaði bók um lögfræðing sem kvæntist ástkonu sinni sem vann í fjölleikahúsi. Talið er að þessi saga hafi orðið til þess að vonir Amalie um að fá listamannalaun urðu að engu.

Amalie Skram hélt þó ótrauð áfram að skrifa þar til hún eignaðist dóttur árið 1889 og fór með hana til Bergen. Dvölina í fæðingarbæ sínum ætlaði skáldkonan að nota til þess að öðlast innblástur til nýrra verka en hún var orðin útkeyrð eftir mikla vinnu.

Þar sem sjúkrahúsdvölin eftir taugaáfallið hafði gert henni gott bað Amalie nú um innlögn á spítala í Kaupmannahöfn. En í þetta sinn reyndist legan algjör martröð og síðustu árin fyrir aldamótin voru henni afar þungbær.

Seinna hjónabandi hennar lauk 1899. Og ekki nóg með það. Heilsa Amalie var slæm á þessum árum, fjárhagurinn skelfilegur og hún missti bæði bróður sinn og vini, auk þess sem synirnir sneru við henni bakinu.

Amalie Skram lést 15. mars 1905.