Heiðursfélagar Fjöruverðlaunanna

Við stofnun félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna 2014 voru tvær helstu upphafskonur og stofnendur verðlaunanna gerðar að heiðursfélögum, þær Ingibjörg Hjartardóttir rithöfundur og Jónína Leósdóttir rithöfundur.

Ingibjörg Hjartardóttir

Ingibjörg Hjartardóttir rithöfundur og heiðursfélagi Fjöruverðlaunanna
Ingibjörg Hjartardóttir rithöfundur og heiðursfélagi Fjöruverðlaunanna

Ingibjörg Hjartardóttir er fædd á Tjörn í Svarfaðardal 1952, menntaður íþróttakennari og bókasafnsfræðingur. Frá árinu 1995 hefur Ingibjörg að mestu leyti fengist við ritstörf. Hún hefur skrifað leikrit bæði fyrir atvinnu- og áhugaleikhús, útvarpsleikrit, smásögur og ljóð, fjórar skáldsögur sem allar hafa komið út á þýsku hjá Salon Literatur Verlag í Munchen,  eina ævisögu og þýtt fimm skáldsögur.

Árið 1984 átti Ingibjörg hugmyndina og stofnaði ásamt öðrum leikfélagið Hugleik sem starfað hefur með miklum blóma í Reykjavík og sýnt eitt ef ekki fleiri frumsamin íslensk leikrit á hverju ári síðan þá. Er hún nú heiðursfélagi þar. Ingibjörg er einn af stofnendum Höfundasmiðjunnar sem starfrækt var í Borgarleikhúsinu. Ingibjörg stofnaði Ljóðasmiðjuna ásamt fleirum skáldum. Þegar hún flutti norður í Svarfaðardal 2001 stofnaði hún ljóðasmiðjuna Hulduhópinn sem kom saman um árabil í húsi skáldsins á Sigurhæðum á Akureyri. Hún er ein af upphafskonum og stofnendum Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna. Þar er hún nú heiðursfélagi.

Ingibjörg býr nokkra mánuði á ári hverju í Berlín en skiptir restinni á milli Reykjavíkur og Svarfaðardals.

Jónína Leósdóttir

Jónína Leósdóttir rithöfundur og heiðursfélagi Fjöruverðlaunanna
Jónína Leósdóttir rithöfundur og heiðursfélagi Fjöruverðlaunanna

Jónína er fædd í Reykjavík 16. maí 1954. Hún hefur skrifað æviminningabækur, skáldsögur, barna- og unglingabækur og fjölda smásagna. Leikrit eftir Jónínu hafa verið sýnd í Sjónvarpinu og verk eftir hana verið flutt í Útvarpsleikhúsinu. Auk þess var leikrit hennar, Leyndarmál, flutt í þremur framhaldsskólum og stuttir leikþættir eftir Jónínu hafa verið sýndir vítt og breitt um landið, síðast á Act Alone-einleikjahátíðinni á Ísafirði sumarið 2008.

Jónína stofnaði Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, ásamt nokkrum öðrum rithöfundum árið 2007. Hún er nú heiðursfélagi samtakanna sem standa að veitingu verðlaunanna.

Jónína Leósdóttir hefur starfað sem blaðamaður og ritstjóri um tveggja áratuga skeið og þýtt skáldsögur og bækur af öðrum toga. Frá 2006 hefur hún eingöngu unnið við bókaskrif og nýjustu skáldsögur hennar fjalla um orkumiklu eftirlaunakonuna Eddu sem leysir ýmsar ráðgátur, oft í óþökk lögreglunnar. Fyrsta bókin um Eddu, Konan í blokkinni, kom út 2016 og var tilnefnd til Blóðdropans, íslensku glæpasagnaverðlaunanna.