Fjöruverðlaunin 2025: Tilnefningar

Mikið var um dýrðir á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur 3. desember 2024 þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna og kvára.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

  • Fíasól í logandi vandræðum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur
  • Tjörnin eftir Rán Flygenring
  • Sigrún í safninu eftir Sigrúnu Eldjárn

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

  • Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur
  • Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi eftir Ingunni Ásdísardóttur
  • Duna. Saga kvikmyndagerðarkonu eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur og Guðrúnu Elsu Bragadóttur

Í flokki fagurbókmennta:

  • Rifsberjadalurinn eftir Ásdísi Óladóttur
  • Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur
  • Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttur

Rökstuðningur dómnefnda

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

Fíasól í logandi vandræðum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur (Bjartur)

„Að vera barnalegur er að vera klár, sniðugur, hugrakkur og duglegur!“ Fíasól í logandi vandræðum er áttunda bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur um stelpuskottið hana Fíusól. Hún er ákaflega upptekinn sveitarforingi í hjálparsveitinni sinni, hana langar að stofna dýrabjörgunardeild og Skólóvision er í fullum gangi. Í Vindavík leikur allt á reiðiskjálfi og Alla Malla kemur í skjálftafrí í bílskúrinn hjá Ingólfi Gauki. Bókin er skemmtilega myndskreytt og aðgengileg fyrir bókaorma á öllum aldri.

Tjörnin eftir Rán Flygering (Angústúra)

Tjörnin eftir Rán Flygenring fjallar meðal annars um leikgleði, vináttu og málamiðlanir. Garður einn er uppáhaldsleiksvæði tveggja vina og dag einn taka þau eftir dæld í grasinu og þá hefst ævintýrið. Myndirnar kallast vel á við textann en líka íslenskan nútíma og á afslappaðan hátt er ýmsum áhugaverðum orðum bætt við orðaforða ungra lesenda, til dæmis krapagildra og krokketbogi. Tjörnin er fallegt og fyndið listaverk en líka skemmtileg og fræðandi saga.

Sigrún í safninu eftir Sigrúnu Eldjárn (Mál og menning)

Í bókinni Sigrún í safninu fáum við innsýn í heim lítillar stúlku sem elst upp á Þjóðminjasafninu fyrir rúmlega hálfri öld. Sigrún Eldjárn segir hér frá fjölskyldu sinni, safnhúsinu, ýmsum safngripum og skemmtilegum atvikum sem allt birtist ljóslifandi í léttleikandi texta, myndum úr fjölskyldualbúminu og frábærum teikningum. Hlýleiki og húmor eru í fyrirrúmi en allskonar fróðleikur fær að fljóta með. Sannkallaður konfektmoli fyrir unga sem aldna fyrir heimsókn á Þjóðminjasafnið.

 

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur (Bjartur)

Í Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871 dregur Erla Hulda Halldórsdóttir upp lifandi mynd af íslensku samfélagi með greiningu og túlkun á sendibréfum nítjándu aldar. Í þessu vandaða verki fá lesendur að kynnast orðfæri kvenna, samfélagsgreiningum þeirra og aðferðum til að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi. Jafnframt miðlar Erla Hulda aðferðum sínum á upplýsandi hátt, setur rannsóknarspurningar í alþjóðlegt fræðasamhengi og hvetur þannig lesendur til að rannsaka bréfasöfn fyrri kynslóða og kynnast þeim „venjulegu“ röddum sem þar má finna.

Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi eftir Ingunni Ásdísardóttur (Hið íslenska bókmenntafélag)

Í bók sinni Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi dregur Ingunn Ásdísardóttir upp áhugaverða mynd af jötnum og mögulega ólíku hlutverki þeirra en mótast hefur hingað til í vitund fólks. Með því að rannsaka sjálfstætt hlutverk jötna í öðrum heimildum en Eddu Snorra Sturlusonar virðist sem jötnar hafi gengt mikilvægara hlutverki; verið aldnir og fróðir (hundvísir) en ekki ófreskjur. Bókin dregur fram hve lifandi vísindi þjóðararfurinn er og færir bæði fróðleiksfúsum aðgengilegt efni og leggur til málanna í rannsóknarheimi norrænnar goðafræði.

Duna. Saga kvikmyndagerðakonu eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur og Guðrúnu Elsu Bragadóttur (Mál og menning)

„Þetta var nú andskotans barningur allt saman,“ segir Duna, Guðný Halldórsdóttir, um baráttu sína við að koma íslenskri kvikmyndagerð á skrið. Saga Guðnýjar og viðburðaríkur ferill hennar í kvikmyndagerð er efni bókar Kristínar Svövu Tómasdóttur og Guðrúnar Elsu Bragadóttur sem nefna rit sitt Duna. Saga kvikmyndagerðarkonu. Efni bókarinnar er unnið af alúð og vandvirkni og víða glittir í óborganlegan húmor Guðnýjar þegar hún lýsir baráttu sinni við kerfið og aðstöðuleysi þeirra sem vildu veg íslenskrar kvikmyndagerðar sem mestan.

 

Í flokki fagurbókmennta:

Rifsberjadalurinn eftir Ásdísi Óladóttur (Veröld)

Ljóð Ásdísar Óladóttur í bókinni Rifsberjadalurinn láta lítið yfir sér en geyma ólgandi tilfinningar, nautnir og nístandi sársauka. Veitt er opinská og einlæg innsýn í heim geðveikinnar sem ljóðmælandi leitast við að sefa með lyfinu Risperdal, sem titill bókar vísar til. Í seinni hluta bókar bíður nýr veruleiki þar sem hvunndagurinn er sveipaður ljóðrænu og ástin er hvikul. Ljóðin eru meitluð, nærgöngul og einstaklega áhrifarík.

 

Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur (Drápa)

Listir, náttúra og ólgandi tilfinningar takast á í bókinni Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur. Hrynjandi ljóðræns textans knýr framvindu áfram þar sem meginstef eru ást, missir og innri leit. Form texta og litanotkun ljær frásögninni dýpt og er lesanda gefið rými til að skynja og túlka atburðarás sem lýkst upp eftir því sem líður á og rís hæst í sólódansi aðalpersónunnar. Birgitta Björg slær hér nýjan og forvitnilegan bókmenntatón.

 

Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttur (Benedikt)

Leit að ást og öryggi eru leiðarstef í bók Evu Rúnar Snorradóttur Eldri konur. Að baki býr þrá eftir umhyggju en undir yfirborðinu krauma erfiðar æskuminningar, tengslarof og rótleysi. Bygging frásagnar og form endurspegla innra líf aðalpersónu og dýpka frásögnina en fíkn og þráhyggja keyra framvindu sögunnar áfram um leið og aðstæður skýrast. Eva Rún skapar hér nýstárlegan sagnaheim um mikilvægt umfjöllunarefni af mikilli leikni.

 

 

Eftirfarandi konur sitja í dómnefnd Fjöruverðlaunanna 2025:

Barna- og unglingabókmenntir:
Guðlaug Richter, íslenskufræðingur
Helga Birgisdóttir, lektor í íslensku
Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:
Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisfræðingur
Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor í bókmenntafræði

Fagurbókmenntir:
Jóna Guðbjörg Torfadóttir, framhaldsskólakennari
Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur
Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 2022

Aðalfundur félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi er haldinn miðvikudaginn 5. október kl. 19:00. Fundurinn er haldinn á rafrænum vettvangi, í gegnum Zoom fjarfundarbúnaðinn.

Til þess að taka þátt í rafrænum aðalfundi er nauðsynlegt að skrá netfang sitt. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku, hér.  

Í vikunni barst félagsfólki krafa í heimabanka fyrir félagsgjöldum Fjöruverðlaunanna, 2.000 kr. Við hvetjum félagsfólk allt til að greiða árgjöldin og leggja þar með sitt af mörkum til að tryggja framgang Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi!

Dagskrá fundar

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 21. september) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. (Liður fellur niður þar sem kjörtímabil núverandi stjórnar stendur enn yfir)
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna 3. desember kl. 17:00

Velkomin á tilnefningahátíð Fjöruverðlauna – bókmenntaverðlauna kvenna þriðjudaginn 3. desember kl. 17. Hátíðin verður haldin í Borgarbókasafninu í Grófinni við Tryggvagötu.

Dómnefndir tilnefna bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis.

Léttar veitingar í boði.

Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna.

Ný stjórn Fjöruverðlaunanna

Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna var haldinn að Hallveigarstöðum í Reykjavík í vikunni, 12. september 2019.

Á fundinum voru samþykktar breytingar á lögum félagsins, fækkað var í stjórn frá fimm niður í fjóra stjórnarfulltrúa og kjörtímabil þeirra stytt úr þremur árum í tvö. Lesið ný lög félagsins hér.

Á fundinum var einnig samþykkt að taka upp félagsgjöld, 2.000 kr. á ári. Var þessi ákvörðun tekin í kjölfar skoðanakönnunar sem send var út á alla félaga fyrr á árinu, þar sem í ljós kom að yfirgnæfandi meirihluti svarenda var reiðubúinn til að styrkja Fjöruverðlaunin með því að greiða félagsgjöld. Er það von stjórnar félagsins að félagsgjöldin eigi eftir að gera Fjöruverðlaunin sjálfbær og tryggja framgang verðlaunanna í framtíðinni.

Á fundinum var kosið til nýrrar stjórnar. Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir var endurkjörin formaður, nú til tveggja ára. Einnig voru kosnar í aðalstjórn Erla E. Völudóttir og Helga Birgisdóttir. Tekur Erla við hlutverki gjaldkera og Helga við hlutverki ritara nýrrar stjórnar. Var fráfarandi gjaldkeri Ásbjörg Una Björnsdóttir kosin í varastjórn félagsins. Óskum við nýrri stjórn velfarnaðar í starfi.

Úr stjórn véku Guðrún Birna Eiríksdóttir og Valgerður Þórsdóttir og þökkum við þeim gott starf í þágu verðlaunanna.

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 12. september 2019

Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi er haldinn fimmtudaginn 12. september kl. 17:00. Fundurinn er haldinn að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Á fundinum verða lagðar fram breytingartillögur stjórnar á 7. grein laga Félags um Fjöruverðlaunin sem leggur til breytingar á uppsetningu og starfsemi stjórnar (sjá fyrir neðan), sem og kosið um formann og nýja fulltrúa í stjórn.

Vinsamlegast sendið framboð til formanns eða stjórnar á netfangið bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir 5. september næstkomandi.

Dagskrá fundar

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar (sjá tillögu stjórnar fyrir neðan). Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 13. september) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá.
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Lagabreytingatillaga stjórnar

7. grein
Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum, formanni og 4 meðstjórnendum, kjörnum á aðalfundi til þriggja ára í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn starfar samkvæmt starfsreglum sem hún setur sjálfri sér. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

VERÐI:

7. grein
Stjórn félagsins skal skipuð 4 félagsmönnum, formanni, 2 meðstjórnendum í aðalstjórn og 1 meðstjórnanda í varastjórn, kjörnum á aðalfundi til tveggja ára í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn starfar samkvæmt starfsreglum sem hún setur sjálfri sér. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

Fjöruverðlaunin 2019: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða 16. janúar 2019.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:
Ástin, Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Þjáningarfrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur

Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Fíasól gefst aldrei upp eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur

Þetta í þrettánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í fimmta sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna og afhenti verðlaunahöfum blóm. Verðlaunahafar fá verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.

Rökstuðningur dómnefnda

Ástin, Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur (Bjartur, 2018)

Smásagnasafnið Ástin, Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur geymir fimm smásögur sem láta ekki mikið yfir sér; þær eru lágstemmdar á yfirborðinu en undir niðri krauma miklar tilfinningar. Sögurnar hvefast allar um ástina og fjalla bæði um nánd og skortinn á henni. Þetta er fádæma vel gert; mannlýsingar eru trúverðugar og vekja samkennd með persónum og samskiptum þeirra er lýst af slíkri dýpt og næmi að þau láta lesandann vart ósnortinn. Þrátt fyrir erfitt viðfangsefni er stíllinn léttur, lipur og myndrænn og jafnan er stutt í húmorinn. Það er unun að lesa sagnasveiginn Ástin, Texas.

Þjáningarfrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur (Mál og menning, 2018)

Bókin Þjáningarfrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur, er mikilvægt og tímabært framlag til íslenskra bókmennta.  Í okkar fámenna landi sem annarstaðar í veröldinni er tjáningarfrelsi einn af helstu mælikvörðunum á frjálsræði borgaranna – þar sem við sögu koma afskipti stjórnmálaafla og eignarhald á fjölmiðlum með tilheyrandi  hagsmunaárekstrum.

Öllu máli skiptir að standa vörð um tjáningarfrelsið, og útgáfa bókarinnar Þjáningarfrelsið er liður í þeirri vöktun hérlendis. Í bókinni fáum við að kynnast heiminum að baki fréttaflutningum. Fjallað er um raunveruleg dæmi sem gefa innsýn í aðstæður sem blaðamenn geta átt við að etja í störfum sínum og áleitnar spurningar, hugmyndir og vangaveltur sem varða grunngildi fjölmiðlunar og stöðu fjölmiðla og tjáningarfrelsis á Íslandi í upphafi 21. aldarinnar.

Fíasól gefst aldrei upp eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur (Mál og menning, 2018)
Ærslabelgurinn Fíasól er flestum kunn enda er hér um að ræða sjöttu bókina í bókaflokkinum um þessa úrræðagóðu stelpu. Söguþráðurinn fléttast um hugmyndaauðgi Fíusólar sem vekur lesandann til umhugsunar og samræðna um ýmis alvarleg málefni sem tengjast réttindum barna. Umræða um siðferðileg álitamál er sett fram af barnslegri einlægni en um leið alvöru sem dýpkar undirtón sögunnar. Persónur bókarinnar eru ekki byggðar upp af staðalímyndum heldur eru þær lifandi og margræðar rétt eins og heimur Fíusólar.

Fíasól gefst aldrei upp er margslungin bók fyrir breiðan aldurshóp þar sem Kristín Helga Gunnarsdóttir dregur upp sannfærandi myndir af átökum og uppgötvunum í lífi Fíusólar, breyskleika hennar og styrk. Fíasól færir Kristínu Helgu Fjöruverðlaunin 2019.

***

Einnig voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna 2019 bækurnar Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur og Kláði eftir Fríðu Ísberg í flokki fagurbókmennta; Krullað og klippt: Aldarsaga háriðna á Íslandi eftir Báru Baldursdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur og Skiptidagar – Nesti handa nýrri kynslóð eftir Guðrúnu Nordal í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis; Lang-elstur í leynifélaginu eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og Sjúklega súr saga eftir Sif Sigmarsdóttur og Halldór Baldursson í flokki barna- og unglingabókmennta.

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2019 skipa Guðrún Lára Pétursdóttir, Jóna Guðbjörg Torfadóttir og Kristín Ástgeirsdóttir í flokki fagurbókmennta; Dalrún J. Eygerðardóttir, Sóley Björk Guðmundsdóttir og Unnur Jökulsdóttir í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis; og Arnþrúður Einarsdóttir, Guðrún Jóhannsdóttir og Sigrún Birna Björnsdóttir í flokki barna- og unglingabókmennta.

Tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna 2019, mánudaginn 3. desember kl. 17

Velkomin á tilnefningahátíð Fjöruverðlauna – bókmenntaverðlauna kvenna mánudaginn 3. desember kl. 17. Hátíðin verður haldin í Borgarbókasafninu í Tryggvagötu.

Dómnefndir tilnefna bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis.

Léttar veitingar í boði.

Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna.

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 2018

Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunanna var haldinn 19. september 2018.

Farið var yfir starfið framundan. Á árinu stendur til að afhenda öll gögn Fjöruverðlaunanna til Kvennasögusafns Íslands og vinna betur í vefsíðu félagsins, birta þar t.d. upplýsingar um allar bækur sem tilnefndar hafa verið til Fjöruverðlaunanna til að auka sýnileika rithöfundanna og gefa út sérstaka útgáfu vefsíðunnar á ensku.

Nýtt merki Fjöruverðlaunanna sem hannað var af Erlu Gerði Viðarsdóttur var kynnt fundargestum og sagt frá veglegri gjöf listakonunnar Koggu sem hefur ákveðið að styrkja verðlaunin árlega með því að gefa vinnu sína og efniskostnað við gerð verðlaunagripa.

Fákvennt en góðkvennt var á fundinum og spruttu upp fjörugar umræður um sýnileika verðlaunanna, nýja löggjöf um persónuvernd og hvað hún þýðir fyrir starfsemi félagsins, framtíðarfjármögnun og gildi verðlaunanna fyrir konur á Íslandi og íslenskar bókmenntir.

Einnig komu til umræðu nýstofnuð bókmenntaverðlaun kvenna í Ástralíu, Stella Prize, sem bætast við flóru bókmenntaverðlauna kvenna í heiminum, en svo best við vitum eru aðeins fyrir Fjöruverðlaunin á Íslandi og Women’s Prize for Fiction í Bretlandi.

Sjálfa var tekin af fundargestum, en hún hvarf í svarthol hins stafræna heims, þ.e. formaður strokaði hana óvart út! Svo í staðinn birtum við með þessari frétt glæsilegt málverk franska málarans Jean-Baptiste-Camille Corot af ungri stúlku að lesa frá árinu 1868. Konur redda sér 😉

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 19. september

Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi er haldinn miðvikudaginn 19. september kl. 17:00. Fundurinn er haldinn að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Dagskrá fundar eru hefðbundin aðalfundarstörf:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 13. september) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá.
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Fjöruverðlaunin 2018: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða 15. janúar 2018.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:

Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk eftir Unni Jökulsdóttur

Þetta í tólfta sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í fjórða sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna og afhenti verðlaunahöfum blóm. Verðlaunahafar fá verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu og gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði.

Rökstuðningur dómnefnda

Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur (Forlagið, 2017)

Í skáldsögunni Elín, ýmislegt fléttar höfundur saman sögu tveggja kvenna sem eru dregnar sterkum og trúverðugum dráttum. Leikmunahönnuðurinn Elín og leikskáldið unga Ellen standa sitt hvoru megin við fullorðinsárin en á margslunginn hátt kallast tilvera þeirra á. Í bókinni er tekist á við höggbylgjurnar sem ríða yfir eftir áföll og halda áfram sínu nötrandi ferðalagi um lífið á djúpstæðri tíðni. Á einkar næman og áhrifaríkan hátt er hér fjallað um skynjun manneskjunnar á veruleikanum, flóttaleiðir hugans, einsemd, hið gleymda og falda. Frásagnartæknin er í senn úthugsuð og áreynslulaus. Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur er gríðarlega vel skrifuð skáldsaga sem lifir áfram með lesandanum.

Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk. Unnur Jökulsdóttir (Mál og menning, 2017)
„Í geislum miðnætursólar sem hangir lágt á norðvesturhimni er vatnið glóandi eins og bráðið gull.“ Með þessum upphafsorðum er tónninn sleginn í bók Unnar Jökulsdóttur Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk. Í bókinni skynjar lesandinn töfra og fegurð Mývatns. Unnur ber djúpa virðingu fyrir náttúrunni og lýsir henni af ástríðu og hrifningu. Látlausar vatnslitamyndir eftir Árna Einarsson og Margaret Davies prýða bókina. Unnur kveikir fjölmargar hugrenningar um samhengi manns og náttúru og gerir lontuna, húsöndina og slæðumýið ódauðlegt. Unnur sýnir hvernig skeytingarleysi tortímdi kúluskítnum og lýsir áhyggjum af framtíð vatnsins ef við gætum þess ekki vel. Bókin Undur Mývatns er dýrmæt perla rétt eins og vatnið sjálft.

Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels. Kristín Helga Gunnarsdóttir (Mál og menning, 2017)

Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur segir frá Ishmael, 15 ára dreng á flótta frá Sýrlandi, og Salí, sýrlenskri stúlku sem býr í Kópavogi. Sjónarhornið flakkar milli þeirra tveggja og skapast þannig spenna sem heldur lesandanum föngnum. Sagan fjallar öðrum þræði um hörmungar en fyrst og fremst um mennsku og mannhelgi og er það undirstrikað með tilvitnunum úr Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna í upphafi hvers kafla. Bókin er einstaklega vel byggð, persónusköpun trúverðug og afar raunsæ og fjallar um málefni sem brennur á okkur öllum.

***

Einnig voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna 2018: Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Slitförin eftir Fríðu Ísberg í flokki fagurbókmennta; Íslenska lopapeysan: Uppruni saga og hönnun eftir Ásdísi Jóelsdóttur og Leitin að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis; Lang-elstur í bekknum eftir Bergrúnu Íris Sævarsdóttur og Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir eftir Brynhildi Þórarinsdóttur í flokki barna- og unglingabókmennta.

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2018 skipa: Bergþóra Skarphéðinsdóttir íslenskufræðingur, Guðrún Lára Pétursdóttir ritstjóri og Salka Guðmundsdóttir leikskáld og þýðandi í flokki fagurbókmennta; Helga Haraldsdóttir sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Sigurrós Erlingsdóttir íslenskukennari og Þórunn Blöndal dósent í íslenskri málfræði í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis; Arnþrúður Einarsdóttir kennari, Sigrún Birna Björnsdóttir framhaldsskólakennari og Þorbjörg Karlsdóttir bókasafnsfræðingur og flokki barna- og unglingabókmennta.