1. grein
Félagið heitir Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi.
2. grein
Heimili félagsins og varnarþing er í húsakynnum Rithöfundasambands Íslands, að Dyngjuvegi 8, 104 Reykjavík.
3. grein
Tilgangur félagsins er að halda utan um skipulagningu og framkvæmd Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna og kvára á Íslandi, sem veitt skulu fyrir marslok á hverju ári.
4. grein
Rétt á inngöngu í félagið hafa öll sem vilja stuðla að viðgangi verðlaunanna. Umsókn um inngöngu í félagið skal senda stjórn Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna á Íslandi.
5. grein
Starfstímabil félagsins er 1. apríl til 31. mars. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Allir félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.
6. grein
Aðalfund skal halda eigi síðar en 30. september ár hvert og skal boða til hans með sannanlegum hætti með minnst tveggja vikna fyrirvara, skv. netfangaskrá félagsins og á heimasíðu félagsins. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Skýrsla stjórnar lögð fram
- Reikningar lagðir fram til samþykktar
- Lagabreytingar. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
- Ákvörðun félagsgjalds næsta árs
- Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá.
- Kosning skoðunarmanna reikninga
- Önnur mál
7. grein
Stjórn félagsins skal skipuð 4 félagsmönnum, formanni, 2 meðstjórnendum í aðalstjórn og 1 meðstjórnanda í varastjórn, kjörnum á aðalfundi til tveggja ára í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn starfar samkvæmt starfsreglum sem hún setur sjálfri sér. Stjórn fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.
8. grein
Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til áframhaldandi starfsemi félagsins.
9. grein
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til Rithöfundasambands Íslands.
10. grein
Verðmæt skjöl og sögulegar heimildir um félagið varðveitist í Kvennasögusafni Íslands.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna á Íslandi þann 19. október 2023.
Lesið eldri lög félagsins hér : 2014, 2015, 2016, 2019 og 2020.