Gleði ríkti á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur 3. desember 2019 þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna.
Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:
Fagurbókmenntir
- Svanafólkið eftir Kristínu Ómarsdóttur
- Okfruman eftir Brynju Hjálmsdóttur
- Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur
Dómnefnd skipuðu Elín Björk Jóhannsdóttir, Jóna Guðbjörg Torfadóttir og Kristín Ástgeirsdóttir.
Fræðibækur og rit almenns eðlis
- Öræfahjörðin: Saga hreindýra á Íslandi eftir Unni Birnu Karlsdóttur
- Jakobína: Saga skálds og konu eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur
- Listin að vefa eftir Ragnheiði Björk Þórsdóttur
Dómnefnd skipuðu Dalrún J. Eygerðardóttir, Sóley Björk Guðmundsdóttir og Þórunn Blöndal
Barna- og unglingabókmenntir
- Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir eftir Margréti Tryggvadóttur
- Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur
- Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur
Dómnefnd skipuðu Guðrún Jóhannsdóttir, Hildur Ýr Ísberg og Sigrún Birna Björnsdóttir.
Rökstuðningur dómnefnda
Fagurbókmenntir
Svanafólkið eftir Kristínu Ómarsdóttur (Partus)
Svanafólkið eftir Kristínu Ómarsdóttur er margslungin skáldsaga sem grípur lesandann strax heljartökum og situr lengi í honum á eftir. Sagan er í senn hrollvekjandi og grátbrosleg í lýsingum sínum á samskiptum embættismanns sem býr í eftirlitsríki við hálfmennskar verur sem lifa utangarðs. Þannig rennur kaldranalegur veruleikinn saman við furður sem ættaðar eru úr heimi ævintýra og goðsagna. Sagan vekur mjög til umhugsunar um mennskuna og þau landamörk sem manneskjan setur til að greina sig frá öðrum og loka sig af. Þá geymir áhrifamikill textinn gnótt myndmáls og ljóðrænu sem fangar vel frumlegt viðfangsefnið. Kristín gerir þetta listavel.Okfruman eftir Brynju Hjálmsdóttur (Una útgáfuhús)
Okfruman verður til við samruna en margfaldast svo endalaust eins og orðin sem streyma. Hún er tákn um líf en hvað verður um þetta líf? Í ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur fylgjumst við með stúlku frá fæðingu og fram á óræðan aldur. Barnið er að uppgötva lífið en upplifir líka dauða nákominna, þar á meðal barna. Það eru víða ógnir; stúlkan sér það sem aðrir sjá ekki, eins og slönguna sem hringar sig um flugvöllinn og minnir því um margt á völvu. Ljóðaheimur Brynju er mjög myndrænn, ljóðmálið margrætt og þrungið kvenlegri reynslu. Hér er vel að verki staðið í spennandi ljóðabók.
Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur (Benedikt bókaútgáfa)
Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur er ljómandi vel skrifuð og margþætt skáldsaga. Þar fléttast saman sögur ólíkra persóna; eldri manns sem elst upp við Breiðafjörð, húsmóður í Kópavogi og ungs innflytjanda frá Kína. Öll eiga þau það sameiginlegt að vera jaðarsett og einangruð, hvert á sinn hátt. Heimurinn sem Bergþóra dregur upp er grimmur en persónur hennar eru heilsteyptar og þótt lýsingar séu oft gróteskar eru þær skapaðar af stakri næmni fyrir breyskleika mannfólksins. Bergþóra dregur fram áhrifaríkar myndir sem sitja lengi í lesandanum og vald hennar á tungumálinu er slíkt að unun er að lesa Svínshöfuð.
Fræðibækur og rit almenns eðlis
Öræfahjörðin: Saga hreindýra á Íslandi eftir Unni Birnu Karlsdóttur (Sögufélag)
Bókin Öræfahjörðin: Saga hreindýra á Íslandi, eftir Unni Birnu Karlsdóttur, er ítarleg umhverfissagnfræðileg rannsókn á sögu sambýlis Íslendinga og tignarlegra hreindýra runnum frá Finnmörku; huldudýrum hálendisins. Lífshættir íslenskra hreindýra hafa verið sveipaðir ákveðinni dulúð, enda megin búsvæði þeirra fjarri mannabyggðum. Bókin gerir lesandanum fært að fylgja hreindýrunum frá komu þeirra til landsins og áfram í gegnum aldirnar, fram á okkar tíma. Á þeirri söguslóð er farið yfir hreindýraveiðar, lífshætti og útbreiðslu hreindýra, sem og rannsóknir og vöktun á hreindýrum. Höfundur gerir lesandanum kleift að upplifa sögu hreindýranna, með lýsandi texta og ljósmyndum, sem í senn dýpka frásögnina og færa okkur nær heimi hreindýranna.
Jakobína: Saga skálds og konu eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur (Mál og menning)
Jakobína, saga skálds og konu, segir frá lífi og starfi Jakobínu Sigurðardóttur rithöfundar. Jakobína er án efa með merkilegri skáldum síns tíma á Íslandi, en ferlið var oft flókið. Bókin segir frá löngun í menntun, togstreitu gagnvart hjónabandi og síðar húsmóðurhlutverkinu, og skáldastarfinu sem hún brann fyrir alla ævi. Bókin er skrifuð af dóttur Jakobínu, Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur, sem tvinnar einstaklega vel saman sögu þessarar áhugaverðu konu, bréfaskrif milli Jakobínu og hennar nánustu, og ljóð eftir hana og aðra. Útkoman er forvitnileg saga sem gefur ómetanlega innsýn inn í líf og hugarheim þessa áhrifamikla skálds.
Listin að vefa eftir Ragnheiði Björk Þórsdóttur (Vaka Helgafell)
Bók Ragnheiðar Bjarkar Þórsdóttur, Listin að vefa, er metnaðarfullt verk um veflistina, eitt elsta listrænt handverk sem enn er stundað í veröldinni. Vaðmál og röggvarfeldir voru mikilvæg útflutningsvara á þjóðveldisöld og vefnaður skipti því verulegu máli fyrir afkomu Íslendinga fyrr á öldum. Í bók Ragnheiðar kynnast lesendur ýmsu því sem getur vakið og viðhaldið áhuga á þessari ævagömlu handmennt. Textinn er einkar skýr og læsilegur og ljósmyndir og teikningar styðja vel við textann og sýna það sem erfitt er að lýsa með orðum. Listin að vefa er metnaðarfullt verk og stuðlar að samfellu í verk- og listmenningu á Íslandi og mun vafalaust verða uppspretta hugmynda og aðferða íslenskra vefara um ókomin ár.
Barna- og unglingabókmenntir
Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir eftir Margréti Tryggvadóttur (Iðunn)
Kjarval, málarinn sem fór sínar eigin leiðir eftir Margréti Tryggvadóttur er bók handa börnum um okkar ástsælasta myndlistamann, Jóhannes Kjarval. Hér er um að ræða einstaklega vandaða bók, fallegan grip sem unun er að skoða og lesa. Í bókinni er ævi Kjarvals og listamannsferill rakinn í máli og myndum. Texti bókarinnar segir áhugaverða þroskasögu sveitadrengs sem vex upp og verður stórkostlegur listamaður og mikill persónuleiki. Frásögnin er uppfull af skemmtilegum smáatriðum úr ævi Kjarvals. Þetta er bók sem ung börn geta notið með fullorðnum og fyrir eldri börn er hún fengur hvort sem er til yndislestrar eða sem heimildarit í listasögu. Það er til mikillar fyrirmyndar að vanda bókagerð fyrir börn á þann hátt sem hér hefur verið gert. Okkur er því sönn ánægja að veita Margréti Tryggvadóttur tilnefningu til Fjöruverðlaunanna 2020.
Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur (Bókabeitan)
Bergrún Íris Sævarsdóttir er fjölkunnug mjög enda bæði afbragðs listakona og rithöfundur. Bók hennar, Kennarinn sem hvarf er fimlega byggð spennusaga sem heldur lesendum á aldrinum 9-12 ára föngnum til enda. Spennusagnaformið keyrir söguna áfram en sagan er allt í senn, hröð og skemmtileg og byggð samkvæmt lögmálum hefðbundinnar frásagnar. Söguna segir 12 ára gömul stúlka sem ásamt bekkjarfélögum sínum leita horfins kennara og leysa um leið flóknar þrautir. Persónurnar virðast við fyrstu sýn fremur einfaldar og staðlaðar en þegar á reynir eru þær ekki byggðar upp af staðalímyndum heldur verða þær lifandi og margræðar þegar á frásögnina líður rétt eins og frásögnin sjálf. Bygging bókarinnar ásamt persónusköpun fleytir þessari heildstæðu sögu hátt og færir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur tilnefningu til Fjöruverðlaunanna 2020.
Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur (Björt)
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir sló í gegn með frumraun sinni, Koparborginni. Villueyjar gerist í sama heimi og Koparborgin, en hefur aðrar persónur í aðalhlutverki. Bókin er lengri en frumraunin og fléttan flóknari, en höfundur heldur þó þétt í alla tauma og byggingin er listavel gerð. Ragnhildur skrifar gott og vandað mál og býr til sannfærandi fantasíuheim sem inniheldur vísanir og skírskotanir til samtíma og raunheima. Persónusköpun er sannfærandi og lesendur fá einlæga samúð með örlögum sögupersónanna. Villueyjar er sannarlega gott innlegg í sístækkandi fantasíuhefð íslenskra ungmenna. Þetta er hörkuspennandi verk og á sannarlega skilið tilnefningu til Fjöruverðlauna 2020.

Smásagnasafnið Ástin, Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur geymir fimm smásögur sem láta ekki mikið yfir sér; þær eru lágstemmdar á yfirborðinu en undir niðri krauma miklar tilfinningar. Sögurnar hvefast allar um ástina og fjalla bæði um nánd og skortinn á henni. Þetta er fádæma vel gert; mannlýsingar eru trúverðugar og vekja samkennd með persónum og samskiptum þeirra er lýst af slíkri dýpt og næmi að þau láta lesandann vart ósnortinn. Þrátt fyrir erfitt viðfangsefni er stíllinn léttur, lipur og myndrænn og jafnan er stutt í húmorinn. Það er unun að lesa sagnasveiginn Ástin, Texas.
Bókin Þjáningarfrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur, er mikilvægt og tímabært framlag til íslenskra bókmennta. Í okkar fámenna landi sem annarstaðar í veröldinni er tjáningarfrelsi einn af helstu mælikvörðunum á frjálsræði borgaranna – þar sem við sögu koma afskipti stjórnmálaafla og eignarhald á fjölmiðlum með tilheyrandi hagsmunaárekstrum.
Ærslabelgurinn Fíasól er flestum kunn enda er hér um að ræða sjöttu bókina í bókaflokkinum um þessa úrræðagóðu stelpu. Söguþráðurinn fléttast um hugmyndaauðgi Fíusólar sem vekur lesandann til umhugsunar og samræðna um ýmis alvarleg málefni sem tengjast réttindum barna. Umræða um siðferðileg álitamál er sett fram af barnslegri einlægni en um leið alvöru sem dýpkar undirtón sögunnar. Persónur bókarinnar eru ekki byggðar upp af staðalímyndum heldur eru þær lifandi og margræðar rétt eins og heimur Fíusólar.
Skáldsagan Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur gerist á sjöunda áratug síðust aldar og lýsir ferð ungrar skáldkonu frá heimahögum til Reykjavíkur þar sem draumar hennar eiga að rætast. Höfundur lýsir annars vegar heimi kaffihúsaskálda og athafnamanna þar sem konur eru aðeins viðfang sem má káfa á og klípa í. Hins vegar er bókin saga um vináttu og sköpunarþrá ungs fólks sem sker sig úr í veröld þröngsýni og íhaldssemi. Stíllinn er fullur af lúmskum húmor og háði en jafnframt þungum undirtóni kúgunar og karlrembu. Persónur eru dregnar skýrum dráttum og víða er tákn að finna, t.d. í nöfnum sögupersónanna sem vísa til stöðu þeirra og væntinga. Ungfrú Ísland kallast á við ýmis verk bókmenntasögunnar sem fjallað hafa um rithöfundadrauma ungra manna og dregur þannig á athyglisverðan hátt fram þann þrönga stakk sem konum hefur verið sniðinn, bæði innan skáldskaparins og utan. Ungfrú Ísland er frábær skáldsaga um frelsi og fjötra.
Smásagnasafnið Kláði eftir Fríðu Ísberg geymir 14 sögur sem allar eiga það sameiginlegt að fjalla um einstaklinga sem á einhvern hátt klæjar undan aðstæðum sínum. Hið knappa form smásögunnar er hér nýtt til hins ítrasta og með fáum dráttum tekst höfundi að draga upp ljóslifandi persónur og kunnuglegar kringumstæður. Frásögnin er uppfull af leiftrandi húmor og óvæntum sjónarhornum, stíllinn er léttur og áreynslulaus. Þótt sögurnar standi fyllilega undir sér sem sjálfstæð verk magnast kraftur þeirra þegar þær eru lesnar í samhengi hver við aðra. Umfjöllun um mannleg tengsl og tengslaleysi liggur eins og rauður þráður í gegnum bókina auk þess sem hún endurspeglar á næman hátt þær kröfur sem nútímasamfélag gerir til fólks en ekki síður þær sem við gerum sjálf, meðvitað eða ómeðvitað, til annarra. Kláði er spriklandi ferskt skáldverk, dregið beint upp úr samtímanum.
Bókin Krullað og klippt: Aldarsaga háriðna á Íslandi, eftir fræðikonurnar Báru Baldursdóttur og Þorgerði Þorvaldsdóttur – er fyrsta sagnfræðilega rannsóknin hérlendis, sem gerir íslenskri háriðn ítarlega skil. Bókin er merkt framlag til iðnsögu Íslands en jafnframt einstakt tillegg til rannsókna á sviði kvenna- og kynjasögu á Íslandi. Í verkinu fáum við innsýn í kynjaða menningu háriðnaðarins, er gleggst birtist í hárgreiðslu- og rakarastofum – tvískiptum starfsvettvangi fagsins. Fróðleg er umfjöllunin um það hvernig konur og karlar tjáðu sig með hári sínu – og hvað sú tjáning getur sagt okkur um stöðu kynjanna á hverjum tíma. Höfundarnir rýna í sagnahefð lokkanna og miðla hársögu Íslands í liprum texta og mögnuðum myndum bókar, sem er í senn fagur óður til hárklippara og rakara Íslands. Bókin vitnar um söguna sem fólk ber á höfði sér. Sögu sem hver tíð hefur áhrif á og hver maður getur breytt eftir því hvernig vindar blása.
Bókin Skiptidagar – Nesti handa nýrri kynslóð segir frá ferðalagi fræðikonunnar Guðrúnar Nordal um menningararf og sögu okkar þjóðar. Guðrún Nordal er miðaldafræðingur en notar margvíslegt og fjölbreytt hráefni til að útbúa nesti handa nýjum kynslóðum, eins og hún útskýrir framtak sitt svo fallega. Þannig notar hún fræði sín, þekkingu og visku, en líka sögur af formæðrum og -feðrum til að sýna hver við erum og hvaðan við komum á tímum hraðra og stórstíga breytinga. Hún styðst einnig við túlkun samtímaskálda á goðsögnum og fornsögum og varpar fram kvenlægri sýn á söguna og menningararfinn, grefur upp hina huldu og þögguðu sögu kvenna. Um leið minnir hún á mikilvægi þess að hreykja sér ekki of hátt, og muna hversu hörð lífsbaráttan var hér gegnum aldirnar. Bókin Skiptidagar er virðingarvert framtak, frumlegt og einlægt verk á fallegu og aðgengilegu máli. Þessi bók er lítill gimsteinn fyrir okkur samtímafólk Guðrúnar og eflaust komandi kynslóðir.
Bækurnar um vinina Rögnvald 97 ára sem er alls staðar langelstur og Eyju 7 ára eru afar glettnar og skemmtilegar. Í fyrri bókinni kenndi Eyja Rögnvaldi að lesa enda ekki seinna vænna en nú þarf að kenna honum á klukku ásamt því að vinna að háleynilegum aðgerðum á elliheimilinu Ellivöllum sem er nýtt heimili Rögnvalds. Eyja er snjöll stelpa, uppfinningasöm og úrræðagóð og heldur sérstaka orðabók yfir skrýtin orð sem hún heyrir. Sagan er viðburðarík og umfjöllunarefnið vekur vangaveltur hjá lesendum og tækifæri til útskýringa og samtals um tilfinningar og líðan, samhyggð og íslenskt mál. Myndskreytingar eru fallegar og styðja vel við textann. Bókin er vel byggð og spennandi með líflegar persónur og einfaldan stíl. Hún hentar bæði sem léttlestrarbók og til upplestrar fyrir yngri börn. Bergrún Íris Sævarsdóttir er tilnefnd fyrir bókina Langelstur í leynifélaginu til Fjöruverðlaunanna 2019.
Sjúklega súr saga fjallar um stóratburði Íslandssögunnar allt frá öndvegissúlum til Internetsins á frumlegan og skemmtilegan hátt. Bókinni er ætlað að vekja áhuga ungs fólks á sögunni og sýna fram á að í gamla daga hafi lífið hvorki verið betra né einfaldara. Uppsetning bókarinnar er til þess fallin að grípa í sem kennsluefni en einnig til eigin athugunar og upprifjunar enda er textinn bæði lipur og læsilegur og höfðar vel til barna og ungmenna frá um 10 ára aldri. Húmorinn er allsráðandi og setja myndskreytingar mikinn svip á bókina. Hér er á ferðinni metnaðarfullt verk þar sem Íslandssaga er sett fram á lipran, fyndinn og myndrænan máta fyrir ungmenni samtímans. Sif Sigmarsdóttir er tilnefnd fyrir bókina Sjúklega súr saga til Fjöruverðlaunanna 2019.
Nýtt merki Fjöruverðlaunanna sem hannað var af Erlu Gerði Viðarsdóttur var kynnt fundargestum og sagt frá veglegri gjöf listakonunnar Koggu sem hefur ákveðið að styrkja verðlaunin árlega með því að gefa vinnu sína og efniskostnað við gerð verðlaunagripa.