Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna var haldinn að Hallveigarstöðum í Reykjavík í vikunni, 12. september 2019.
Á fundinum voru samþykktar breytingar á lögum félagsins, fækkað var í stjórn frá fimm niður í fjóra stjórnarfulltrúa og kjörtímabil þeirra stytt úr þremur árum í tvö. Lesið ný lög félagsins hér.
Á fundinum var einnig samþykkt að taka upp félagsgjöld, 2.000 kr. á ári. Var þessi ákvörðun tekin í kjölfar skoðanakönnunar sem send var út á alla félaga fyrr á árinu, þar sem í ljós kom að yfirgnæfandi meirihluti svarenda var reiðubúinn til að styrkja Fjöruverðlaunin með því að greiða félagsgjöld. Er það von stjórnar félagsins að félagsgjöldin eigi eftir að gera Fjöruverðlaunin sjálfbær og tryggja framgang verðlaunanna í framtíðinni.
Á fundinum var kosið til nýrrar stjórnar. Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir var endurkjörin formaður, nú til tveggja ára. Einnig voru kosnar í aðalstjórn Erla E. Völudóttir og Helga Birgisdóttir. Tekur Erla við hlutverki gjaldkera og Helga við hlutverki ritara nýrrar stjórnar. Var fráfarandi gjaldkeri Ásbjörg Una Björnsdóttir kosin í varastjórn félagsins. Óskum við nýrri stjórn velfarnaðar í starfi.
Úr stjórn véku Guðrún Birna Eiríksdóttir og Valgerður Þórsdóttir og þökkum við þeim gott starf í þágu verðlaunanna.