Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru veitt við hátíðlega athöfn í Höfða 21. janúar 2015. Verðlaunin hlutu:
Í flokki fagurbókmennta:
Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett eftir Elísabetu Jökulsdóttur
Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur
Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Ofbeldi á heimili – Með augum barna. Ritstjóri Guðrún Kristinsdóttir
Þetta í níunda skipti sem verðlaunin eru veitt en í fyrsta sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna. Venju samkvæmt fengu verðlaunahafar keramik-egg eftir listakonuna Koggu en að þessu sinni steig frú Vigdís Finnbogadóttir á svið og afhenti verðlaunahöfum gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði.
Rökstuðningur dómnefnda
Frá dómnefnd í flokki fagurbókmennta
Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett eftir Elísabetu Jökulsdóttur
Útgefandi: Elísabet Jökulsdóttir
Lífið er enginn dans á rósum í ljóðabók Elísabetar Kristínar Jökulsóttur, Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett. Ljóðin lýsa á óvenju opinskáan og einlægan hátt ástarsambandi ljóðmælanda við ofbeldismann og hvernig hún festist í þráhyggju og ástarfíkn.
Þetta er ljóðabálkur í þremur hlutum sem byrjar í tilhugalífinu og endar með skilnaði. Átakanleg en jafnframt fyndin saga sem afhjúpar veikleika beggja aðila í þessu sjúka ástarsambandi. Teikningar höfundar gefa verkinu kynferðislegan undirtón þar sem píkan er miðlæg uppspretta girndar og kvalar konunnar. Ljóðmælandi þráir ástina og er haldin ástarfíkn og fær stöðugt viðvörunarmerki um að maðurinn sem hún hefur ákveðið að fá með sína „sambúð hvað sem það kostaði“, sé ofbeldismaður. Hún ber kennsl á viðvörunarmerkin en hunsar þau og tapar sér í ástarfíkn.
Ljóðmælandi skoðar ferlið úr fjarlægð með írónískum augum, hissa á þvi að hafa ekki losað sig úr þessum ástarfjötrum fyrr og spyr „kannski vissi ég ekki hvar dyrnar voru?“
Frá dómnefnd í flokki barna- og unglingabókmennta
Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur
Útgefandi: Vaka-Helgafell
Bókin er vel skrifuð og skemmtileg, söguþráður frumlegur og listilega fléttaður. Frásagnarstíllinn er ærslafullur og myndrænn og lestrarupplifunin á stundum eins og horft sé á kvikmynd.Frásögnin er margradda og þær segja grípandi sögu sem vekur sterka samlíðan með persónunum.
Helsti styrkur sögunnar er hvernig hún fjallar samskipti kynslóða og dregur upp flóknar sögupersónur af eldri kynslóðinni, persónur sem eru margbrotið og áhugavert fólk. Heimur eldri borgara er gerður merkingarbær og spennandi fyrir ungt fólk og veitt er óvenjuleg innsýn í líf þeirra.
Viðfangsefni sögunnar eru viðkvæm málefni eins og einelti, kvíðaröskun unglinga, ástin og ástarsorgin og er fjallað raunsæislega um þau án þess að bjóða einfaldar lausnir. Átakafletirnir eru ekki settir upp eins og vandamál sem þurfi að sigrast á, heldur sem áskoranir til að lifa með. Enginn stendur uppi sem sigurvegari. Sagan fjallar um það að taka ábyrgð á eigin lífi og sínum nánustu og horfast í augu við sjálfan sig.
Dómnefnd telur að Hafnfirðingabrandarinn hafi alla burði til að verða sígild unglingabók.
Frá dómnefnd í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis
Ofbeldi á heimili – Með augum barna. Ritstjóri Guðrún Kristinsdóttir
Útgefandi: Háskólaútgáfan
Bókin Ofbeldi á heimili með augum barna, er yfirgripsmikil rannsókn á upplifun barna á heimilisofbeldi. Höfundar nálgast efnið frá mörgum sjónarhornum og sýna fræðilegan metnað með því að byggja rannsóknina á breiðum grunni megindlegrar og eigindlegrar aðferðafræði.
Bókin samþættir niðurstöður víðtækrar könnunar á þekkingu barna á heimilisofbeldi, viðtöl við börn og mæður þeirra sem búið hafa við ofbeldi á heimilum, ásamt greiningu á orðræðu fjölmiðla um heimilisofbeldi.
Þetta er frumkvöðlarannsókn sem á sér fáar hliðstæður erlendis og er einstök í íslensku samfélagi, þar sem ofbeldi á heimilum hefur ekki áður verið rannsakað út frá sjónarhóli barna. Áhersla er lögð á börn sem áhrifavalda í eigin lífi, frekar en óvirka þolendur og upplifanir þeirra settar í brennidepil. Þannig er rofin sú þögn sem hefur ríkt um tilfinningar barna sem verða fórnarlömb ofbeldis á heimilum.
Þetta sjónarhorn gerir verkið einstakt og til þess fallið að vera ómetanlegt innlegg í umræðu um heimilisofbeldi og fyrir áframhaldandi rannsóknir og vinnu á þessu sviði, þar sem velferð barna er höfð að leiðarljósi.
Einnig voru tilnefndar:
Fagurbókmenntir:
Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur
Lóaboratoríum eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur
Barna- og unglingabókmenntir:
Á puttanum með pabba eftir Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur og Völu Þórsdóttur
Vinur minn vindurinn eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur
Fræðibækur og rit almenns eðlis:
Saga þeirra, sagan mín eftir Helgu Guðrúnu Johnson
Kjaftað um kynlíf eftir Siggu Dögg
Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2015 skipa:
Fagurbókmenntir:
Hildur Knútsdóttir, bókmenntafræðingur
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, bókmenntafræðingur og rithöfundur
Guðrún Birna Eiríksdóttir, bókmenntafræðingur og kennari
Barna- og unglingabókmenntir:
Halla Sverrisdóttir, þýðandi
Júlía Margrét Alexandersdóttir, BA í íslensku og blaðamaður
Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir, myndskreytir og kvikari
Fræðibækur og rit almenns eðlis:
Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur
Erna Magnúsdóttir, líffræðingur
Gréta Sörensen, kennari