Fjöruverðlaunin 2014: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, árið 2014 voru afhent í Iðnó við hátíðlega athöfn í hádeginu í dag.

Verðlaunin hlutu:

Flokkur barna- og unglingabóka:
Lani Yamamoto fyrir bókina Stínu stórusæng. Útgefandi: Crymogea.

Flokkur fagurbókmennta:
Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir fyrir Stúlka með maga – skáldættarsaga. Útgefandi: JPV

Flokkur fræðibóka og rita almenns eðlis:
Guðný Hallgrímsdóttir fyrir Söguna af Guðrúnu Ketilsdóttur. Útgefandi: Háskólaútgáfan

Hér fyrir neðan má lesa umsagnir dómnefnda.

Stína stórasæng eftir Lani Yamamoto

Myndabækur eru sú gerð bóka sem við tengjum oftast yngstu börnunum, fyrstu bókaupplifuninni. Auðvitað eru samt til myndabækur fyrir ólíka aldurshópa, þótt okkur hér í ríki orðsins hætti oft til að telja myndina óþarfa viðbót þegar fram í sækir. Í góðri myndabók tengjast orð og myndir órjúfanlegum böndum, hvorugt getur án hins verið. Myndabókin er annað og meira en summa tveggja tjáningarforma, því þegar þau vinna vel saman bætist eitthvað nýtt við. Í því samspili getur leynst mikill galdur.

Þegar best lætur hefur góð myndabók fyrir börn líka heilmikið að segja okkur sem eldri erum. Þannig er um þá bók sem við höfum valið í ár sem bestu barnabók ársins 2013. Stína stórasæng er dæmi um frábærlega heppnaðan samruna orða og mynda, innihalds og formgerðar. Litaskali, teiknistíll og vísanir í „blueprint“, eða vinnuteikningar, segja söguna ekki síður en orðin og auðga frásögnina um hana Stínu, gefa henni dýpt og vídd.  Stína er svo hrædd við kuldann að hún notar alla sína orku og ímyndunarafl til að loka sig frá umheiminum í undrasniðugu fangelsi þæginda og einveru. En forvitnin og þráin eftir félagsskap verður óttanum yfirsterkari og Stína nær að nota sköpunarkraftinn til að opna dyrnar, verða þátttakandi í lífinu en ekki bara áhorfandi.

Dómnefnd í flokki barna- og unglingabóka skipuðu:

Líf Magneudóttir B.ed. og meistaranemi í íslensku
Helga Birgisdóttir doktorsnemi í barnabókmenntum
Ragnheiður Gestsdóttir rithöfundur og myndlistarmaður

Stúlka með maga – skáldættarsaga eftir Þórunni Erlu- og Valdimarsdóttur

Í þessari skáldættarsögu leiðir Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir lesendur aftur í tímann og segir af ættingjum sínum og fólki sem þeim tengist. Hún skrifar í orðastað móður sinnar, sem sér lengra en nef hennar nær, bæði fram í tímann og aftur í aldir. Rödd sögukonu er sterk og frumleg, eins og sagan sjálf, hæðin þegar það á við, en líka elsku- og huggunarrík.

Stúlka með maga er nýstárleg bók, þar sem höfundur miðlar bæði sagnfræði og skáldskap á afar persónulegan máta. Um leið og við lesum sögur af lífsbaráttu ættingja Þórunnar, ástum þeirra og örlögum, þá fáum við einnig  góða innsýn í sögu þjóðarinnar.

Það er mikill stráksskapur í textanum og stíllinn er töfrum slunginn. Höfundurinn fjallar um ætt sína af skilningi og ást þess sem veit að hjörtum mannanna svipar saman. Enginn fer í gegnum lífið án þess að upplifa sitthvað fallegt og gott – og, eins og segir í Stúlku með maga: „Enginn sleppur við angist og sviða“. Þórunn sýnir að þótt hverri manneskju sé ef til vill afmörkuð stund, þá  geta pappírar úr járnskápum afkomendanna reynst afar notadrjúgir okkur hinum.“

Dómnefnd í flokki fagurbókmennta skipuðu:

Sigríður Stefánsdóttir þjóðfélagsfræðingur og verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir bókmenntafræðingur og rithöfundur
Guðrún Birna Eiríksdóttir bókmenntafræðingur og kennari

 

Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur. Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu eftir Guðnýju Hallgrímsdóttur

 Bókin er ítarleg útlegging á texta frá 19. öld sem er jafnvel er talinn  elsta varðveitta sjálfsævisaga íslenskrar alþýðukonu.  Textabrotið sjálft er aðeins fjórar blaðsíður í litlu broti og virðist við fyrstu sýn ákaflega sundurlaust. Með þrautseigju hefur Guðný Hallgrímsdóttir safnað saman úr mörgum áttum heimildum um fólk og staði sem koma við sögu. Henni  tekst það sem í byrjun gæti virst ómögulegt: að draga upp nokkuð samfellda mynd af ævi Guðrúnar, umhverfi og samferðamönnum, úr þeim sérkennilega efnivið sem sjálfsævisagan er. Sjálfsævisagan umbreytist úr illskiljanlegu rausi í átakasögu og veitir sjaldgæfa innsýn í líf alþýðukonu á 18.  öld og fyrri hluta þeirrar nítjándu.

Með vinnslu Guðnýjar á ólíkum heimildum tengdum textabrotinu birtist lesandanum frásögn af  skrykkjóttri lífsgöngu í skugga móðuharðinda þar sem Guðrún Ketilsdóttir glímir m.a. við fátækt, ágenga karlmenn og erfiða húsbændur.  Hún upplifir einnig hamingjustundir á flakki sínu í vinnumennsku, m.a. á grasafjalli í Mývatnssveit, og tekst að ávinna sér virðingu fólks með dugnaði og heiðarleika.  Gæfan er hins vegar fallvölt og við heyrum jafnframt hvernig Guðrún missir flest allt frá sér og er sem gömul kona aðeins „skrattans kerlingin hún Guðrún Ketilsdóttir”.

Þáttur kvenna, ekki síst alþýðukvenna, í íslenskri söguritun hefur jafnan verið rýr. Guðný sýnir hvernig hægt er að gera áhugaverða sögu úr heimild sem virðist harla brotakennd og hafði af mörgum fyrri fræðimönnum verið talin lítils virði.

Dómnefnd í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis skipuðu:

Dr. Kristín Loftsdóttir prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands
Dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Birna Lárusdóttir fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands