Fríða Ísberg tekur á móti Fjöruverðlaununum 2022

Fríða Ísberg hlaut Fjöruverðlaunin 2022 fyrir skáldsögu sína Merkingu. Við verðlaunaafhendinguna hélt hún eftirfarandi ræðu:

Kæri borgarstjóri, dómnefnd og góðir gestir,

þann 24. febrúar síðastliðinn, fyrir ellefu dögum, fæddi ég litla konu. Ég var í þrjá sólarhringa að komast upp í tíu í útvíkkun, þar af einn sólarhring uppi á spítala, þegar ég var komin upp í tíu bað ég um mænudeyfingu, sogklukku, tangir, mig langar í bjöllukeisara sagði ég, nei, það langar þig ekki, sagði ljósmóðirin, ég er búin að gefast upp, sagði ég, það er bannað að segja þetta, sagði ljósmóðirin, ég sofnaði milli hríða, dreymdi að ég væri í ikea, allt var rólegt og friðsælt í ikea, svo vaknaði ég á fæðingarstofunni, ekki meira glaðloft fyrir þig, sagði ljósmóðirin, sem hét Jóhanna, og hún kenndi mér að rembast og korter í eitt eftir miðnætti 24. febrúar fæddist litla konan.

Rúmlega tveimur klukkustundum síðar réðust Rússar inn í Úkraínu. Ég og maðurinn minn lágum í rúminu í sængurlegudeildinni, örmagna, ósofin, en átökin voru afstaðin, litla konan var lifandi við hliðina á okkur, annars staðar andaði þessi innrás ofan í hálsmál annarra nýbakaðra mæðra – þær voru líka uppgefnar, ósofnar, klofin á þeim líka klofin, blóðug og bólgin, á stærð við strigaskó, en átökin og óvissan og óöryggið voru rétt að byrja. Stríð og fæðing. Þessi tvö gríðarstóru hreyfiöfl, líf og dauði, uppbygging og eyðilegging, einstaklingar og þjóðir, hið smáa og hið stóra, hið eilífa og hið endanlega. Litla konan fór að kúgast og blánaði, hún gat ekki andað, ég ýtti á hnapp eftir aðstoð, hún gat ekki andað, ég hristi hana til, barnalæknirinn kom, hún gat ekki andað, og loksins, eftir heila eilífð tók hún andköf, loksins, eftir heila eilífð, hún hefur gleypt legvatn, sagði barnalæknirinn, ég skipti á henni í fyrsta skipti, klæddi hana í samfellu í fyrsta skipti, við fórum upp á vökudeild, ég sofnaði í lazy boy stól eftir að hún var komin í eftirlit, þremur klukkustundum síðar fékk ég tölvupóstinn, RE tvípunktur, Merking hlýtur Fjöruverðlaunin í ár. Í átökunum hafði ég gleymt því að ég skrifaði bókmenntir, í miðjum átökum skipta bókmenntir engu máli, ljósmæðrum er sama um bókmenntir, barninu er sama um bókmenntir, hermönnum og sprengjum og skriðdrekum er sama um bókmenntir. Þær verða til síðar. Þær skipta máli síðar, þegar það er andrými til að hugsa, tala um, skilja, setja í samhengi, setja í nýtt samhengi, vinna úr, greiða úr, og skapa úr.

Fyrir mér er Merking fyrst og fremst verk um upplýsingar: hvernig upplýsingar hafa áhrif á afstöðu okkar gagnvart bæði öðru fólki og samfélagslegum málefnum. Hvernig við flokkum, ályktum og fordæmum út frá stereótýpum, hvernig sami hluturinn hefur ólíka merkingu fyrir mismunandi manneskjum eftir því hvaða upplýsingum manneskjan hefur aðgengi að. Og hversu brothættar skoðanir okkar eru. Oft þarf bara eina manneskju með ný rök til þess að okkur snúist hugur, bara einn svip til þess að við hættum að hræðast manneskju og höfum samkennd með henni í staðinn. Síðustu dagar hafa sýnt okkur að til þess að hefja stríð þarf bara einn lítinn karl og bara einn lítinn karl til þess að enda stríð. Daginn eftir, 25. febrúar, fórum við heim með litlu konuna af spítalanum, og seinna um daginn birtist þessi klausa í fréttunum: Nýbakaðar mæður og nýfædd börn á vökudeild leita skjóls í bráðabirgða sprengjubyrgi í kjallara sjúkrahússins í Dnipro, suðausturhluta Úkraínu.

Í miðjum átökum skipta bókmenntir engu máli, í miðjum átökum eru það upplýsingarnar sem skipta máli, það eru þær sem ráða samkennd heimsbyggðarinnar, ráða viðskiptabönnum, mótmælum, afstöðu. En eftir á munu bókmenntirnar skipta máli – við verðum að trúa því – að við munum muna eftir því að bókmenntir séu til og þær gefi okkur ekki hrein og bein svör, heldur spyrji spurninga, fari inn á gráa svæðið, geri hlutina loðna, óræða, geri fólki erfiðara fyrir að mynda sér afstöðu með eða á móti, geri fólki erfiðara fyrir að afskrifa eitthvað sem áróður, fake news, wokeisma eða blindan rétttrúnað, núna þegar mismunandi samfélagshópar, fjölskyldumeðlimir og þjóðir fá mismunandi upplýsingar og leggja mismunandi merkingar í sömu hlutina.

Kærar þakkir fyrir verðlaunin, takk fyrir mig.

Hægt er að sjá upptöku af ræðunni á Vísi.is.

Fjöruverðlaunin 2022: Verðlaunahafar

Verðlaunahafar Fjöruverðlauna 2022. Ljósmyndari: Róbert Reynisson.

Fjöruverðlaunin,  bókmenntaverðlaun kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi, voru afhent við hátíðlega athöfn þann 7. mars 2022.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta: Merking eftir Fríðu Ísberg (Mál og menning)

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis: Sigurður Þórarinsson, mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur (Náttúruminjasafn Íslands)

Í flokki barna- og unglingabókmennta: Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur (Iðunn)

Þetta í sextánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í áttunda sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.

Rökstuðningur dómnefnda

Merking eftir Fríðu Ísberg

Merking eftir Fríðu Ísberg kallast skýrt á við íslenskan samtíma þó að sagan sé vísindaskáldsaga sem gerist í framtíðinni. Ólíkum persónum er fylgt eftir þar sem sögur þeirra fléttast saman í frásögn sem gefur ekkert eftir í heimspekilegri skoðun sinni á samfélagi okkar. Sagan er frumleg og stíllinn nýskapandi og notkun tungumálsins einkar úthugsuð og áhrifarík og styður við heildstæða persónusköpun verksins.

Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur

Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur fjallar um ævi og starf eins merkasta vísindamanns Íslands á 20. öld. Saga Sigurðar er samofin sögu jarðfræðirannsókna, jöklaferða og náttúruverndar á Íslandi. Höfundur fer með lesandann í heillandi ferðalag upp á jökla, í gegnum öskulög og inn í kvikuhólf í fylgd með vísindamanninum, söngvaskáldinu og náttúruverndarsinnanum Sigurði. Bókina prýðir aragrúi mynda sem glæða frásögnina lífi og dýpka skilning á efninu.

Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur

Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur fjallar um sögu Reykjavíkur frá því fyrir landnám til vorra daga. Bókin er ríkulega myndskreytt og er hver opna afmörkuð innsýn í sögu borgarinnar. Höfundar draga fram fjölbreyttan fróðleik og gera skil á skemmtilegan hátt í góðu jafnvægi texta og mynda. Texti Margrétar er hnitmiðaður í auðlesnum efnisgreinum og myndir Lindu eru litríkar og bæta ýmsu við. Bókin vekur löngun til að fræðast meira um höfuðborgina.

 

Í dómnefndum sátu:

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku
  • Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
  • Hildur Ýr Ísberg, íslensku- og bókmenntafræðingur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sagnfræðingur
  • Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
  • Sigrún Helga Lund, tölfræðingur

Fagurbókmenntir:

  • Dagný Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur
  • Elín Björk Jóhannsdóttir, bókmenntafræðingur
  • Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur

Fjöruverðlaunin 2022: Tilnefningar

Gleði ríkti á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur 2. desember 2021 þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Í flokki barna- og unglingabókmennta

  • Ótemjur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur
  • Reykjavík barnana eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur
  • Akam, ég og Annika eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis

  • Kristín Þorkelsdóttir eftir Bryndísi Björgvinsdóttur og Birnu Geirfinnsdóttur
  • Kvár, hvað er að vera kynsegin? eftir Elísabetu Rún
  • Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur

Í flokki fagurbókmennta:

  • Merking eftir Fríðu Ísberg
  • Dyngja eftir Sigrúnu Pálsdóttur
  • Tanntaka eftir Þórdísi Helgadóttur

Rökstuðningur dómnefnda:

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

Ótemjur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur

Í Ótemjum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur eru velferð barna og umgengni við náttúruna í brennidepli. Barn frá brotnu heimili þarf kærleiksríka og leiðandi hönd og náttúra í hættu þarfnast kjarkmikils baráttufólks. Glíman við ótemjurnar í sálarlífinu og í umhverfinu er upp á líf og dauða og því er ekki verra að njóta liðsinnis úr hulduheimum. Höfundur skapar úr þessu efni spennandi sögu með skemmtilegum persónum sem á brýnt erindi við lesendur.

Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur

Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur fjallar um sögu Reykjavíkur frá því fyrir landnám til vorra daga. Bókin er ríkulega myndskreytt og er hver opna afmörkuð innsýn í sögu borgarinnar. Höfundar draga fram fjölbreyttan fróðleik og gera skil á skemmtilegan hátt í góðu jafnvægi texta og mynda. Texti Margrétar er hnitmiðaður í auðlesnum efnisgreinum og myndir Lindu eru litríkar og bæta ýmsu við. Bókin vekur löngun til að fræðast meira um höfuðborgina.

Akam, ég og Annika eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur

Akam, ég og Annika eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur er ungmennabók sem tekur á fjölbreyttum málum sem eiga sinn stað í umræðu samtímans. Unglingsrödd sögumannsins er sannfærandi og augljóst að höfundur hefur unnið þrekvirki í því að setja sig í spor nútímaunglingsins. Frásögnin er margþætt og allir endar eru leiddir saman í lokin. Þetta er fyndin, krefjandi og spennandi saga sem á erindi við ungmenni.

 

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

Kristín Þorkelsdóttir eftir Bryndísi Björgvinsdóttur og Birnu Geirfinnsdóttur

Fáir hönnuðir hafa skipað jafn stóran sess í hversdagslífi Íslendinga og Kristín Þorkelsdóttir. Á yfir fimm áratuga ferli liggja eftir hana ótal rótgróin vörumerki, minnisstæðar umbúðir og bókakápur, að ógleymdum peningaseðlunum sjálfum. Hverjum þessara þátta eru gerð góð skil í bókinni Kristín Þorkelsdóttir eftir Bryndísi Björgvinsdóttur og Birnu Geirfinnsdóttur. Bókin er einstaklega fögur og vel hönnuð, allt frá uppsetningu mynda og texta til efnislegrar uppbyggingar. Hér er fjallað um lífshlaup og arfleifð eins okkar afkastamestu listamanna með miklum sóma.

Kvár, hvað er að vera kynsegin? eftir Elísabetu Rún

Í bókinni Kvár, hvað er að vera kynsegin? eftir Elísabetu Rún kynnumst við nokkrum persónum sem öll skilgreina sig utan kynjatvíhyggjunnar. Nýyrðið kvár er nafnorð í hvorugkyni og merkir ókyngreind manneskja. Bókinni, sem er sett upp í teiknimyndaform, tekst einstaklega vel að fræða lesendur um kvár og um leið um fjölbreytileikann sem býr undir regnboganum.

 

Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur

Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur fjallar um ævi og starf eins merkasta vísindamanns Íslands á 20. öld. Saga Sigurðar er samofin sögu jarðfræðirannsókna, jöklaferða og náttúruverndar á Íslandi. Höfundur fer með lesandann í heillandi ferðalag upp á jökla, í gegnum öskulög og inn í kvikuhólf í fylgd með vísindamanninum, söngvaskáldinu og náttúruverndarsinnanum Sigurði. Bókina prýðir aragrúi mynda sem glæða frásögnina lífi og dýpka skilning á efninu.

Í flokki fagurbókmennta:

Merking eftir Fríðu Ísberg

Merking eftir Fríðu Ísberg kallast skýrt á við íslenskan samtíma þó að sagan sé vísindaskáldsaga sem gerist í framtíðinni. Ólíkum persónum er fylgt eftir þar sem sögur þeirra fléttast saman í frásögn sem gefur ekkert eftir í heimspekilegri skoðun sinni á samfélagi okkar. Sagan er frumleg og stíllinn nýskapandi og notkun tungumálsins einkar úthugsuð og áhrifarík og styður við heildstæða persónusköpun verksins.

 

Dyngja eftir Sigrúnu Pálsdóttur

Dyngja eftir Sigrúnu Pálsdóttur segir sögu bóndadóttur sem fædd er um miðbik 20. aldar. Theodóra/Teddý er gædd óvenjulegri stærðfræðigáfu. Heimur tækni og vísinda er karlaheimur, þar og þá, og konur eru ekki velkomnar í hann. Greiningarhæfileiki Teddýjar gerir henni að lokum kleift að snúa vonlausri stöðu sér í hag og tefla til sigurs. Dyngja er lágmælt saga með magnaðan undirtexta sem höfðar sterkt til réttlætiskenndar lesenda.

 

Tanntaka eftir Þórdísi Helgadóttur

Tanntaka er fyrsta ljóðabók Þórdísar Helgadóttur. Ljóðmælandi leiðir lesanda gegnum foreldrahlutverk, einkum þátt móðurinnar og hins kvenlega. Ljóðin eru marglaga og djúp og slá á fínustu hjartastrengi lesenda. Börnin vaxa og kvíði fyrir framtíð þeirra og loftslagsváin er einnig sýnileg í ljóðunum. Þessi ljóðabók á erindi við samtímann af því að málefnin sem hún snertir hljóta að verða lesanda hugleikin. Þau ber að lesa oft því ný sýn fylgir hverjum lestri.

Í dómefndum sitja:

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku
  • Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
  • Hildur Ýr Ísberg, íslensku- og bókmenntafræðingur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sagnfræðingur
  • Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
  • Sigrún Helga Lund, tölfræðingur

Fagurbókmenntir:

  • Dagný Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur
  • Elín Björk Jóhannsdóttir, bókmenntafræðingur
  • Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur

Tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna 2. desember kl. 17:00

Velkomin á tilnefningahátíð Fjöruverðlauna – bókmenntaverðlauna kvenna fimmtudaginn 2. desember kl. 17. Hátíðin verður haldin í Borgarbókasafninu í Grófinni við Tryggvagötu.

Dómnefndir tilnefna bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis.

Athugið, grímuskylda er á hátíðinni.

Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna (sís og trans), trans fólks, kynsegin fólks og intersex fólks.

Ný stjórn Fjöruverðlaunanna

Ný stjórn Félags um Fjöruverðlaunin var kosin á aðalfundi í dag 28. september 2021.

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdótir var endurkjörin formaður, Erla E. Völudóttir gjaldkeri og Helga Birgisdóttir ritari endurkjörnar í stjórn. Hólmfríður Garðarsdóttir er nýkjörin varastjórnandi og bjóðum við hana velkomna til starfa.

Svo gaman var á aðalfundi félagsins, að konur gleymdu algjörlega að taka mynd af nýrri stjórn. Svo þessari frétt fylgir málverk af konum sem dansa frá árinu 1917 eftir Lucia K. Mathews (1870-1955) og Arthur F. Mathews (1860-1945).

Myndin er viðeigandi, því mikil gleði ríkir ávallt í Félagi um Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, kynsegin, trans og intersex 🙂

Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár

Fjöruverðlaunin auglýsa eftir tilnefningum í ár.

Hægt er að leggja fram bækur eftir konur (sís og trans), trans fólk, kynsegin fólk og intersex fólk.

Þátttökukostnaður er ókeypis, en þremur eintökum þarf að skila inn fyrir dómnefnd.

Hægt er að tilnefna bækur í þremur flokkum:

  • fagurbókmenntir
  • fræðirit og bækur almenns eðlis
  • barna- og unglingabókmenntir

Dómnefndarbókum skal komið á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda í allra síðasta lagi föstudaginn 29. október 2021. Ef ekki er unnt að koma prentuðum bókum til skila fyrir þann tíma, er nauðsynlegt að senda rafrænt eintak á  bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir þann dag, svo að bókin komi til greina. Þá þurfa útgefendur að koma þremur prentuðum eintökum af sömu bók á skrifstofu FÍBÚT fyrir föstudaginn 19. nóvember 2021.

Aðeins bækur/handrit sem hafa borist fyrir 29. október koma til greina.

Þrjár bækur eru tilnefndar í hverjum flokki og verða tilnefningar kynntar í desember 2021. Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi, verða svo veitt 8. mars 2022.

Hvaða bækur koma til greina?

Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:

  • skrifaðar af konu/konum, trans fólki, kynsegin fólki eða intersex fólki
  • frumútgáfa sé á íslensku
  • gefnar út af forlagi á Íslandi
  • koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
  • innihaldi texta af einhverju tagi
  • að kona/konur eða trans/kynsegin/intersex fólk eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur eða eða trans/kynsegin/intersex fólk séu helmingur höfunda (ef margir)

Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 2021

Aðalfundur félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi er haldinn þriðjudaginn 28. september kl. 20:00. Fundurinn er haldinn á rafrænum vettvangi, í gegnum Zoom fjarfundarbúnaðinn.

Til þess að taka þátt í rafrænum aðalfundi er nauðsynlegt að skrá netfang sitt. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku, hér. 

Á fundinum verður kosið um formann og þrjá fulltrúa í stjórn (tvo í aðalstjórn og einn í varastjórn). Kjörtímabil er til tveggja ára.

Vinsamlegast sendið framboð til formanns eða stjórnar á netfangið bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir 21. september næstkomandi.

Á næstu dögum mun félagsfólki berast krafa í heimabanka fyrir félagsgjöldum Fjöruverðlaunanna, 2.000 kr. Við hvetjum félagsfólk allt til að greiða árgjöldin og leggja þar með sitt af mörkum til að tryggja framgang Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi!

Dagskrá fundar

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 21. september) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá.
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Fjöruverðlaunin 2021: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin,  bókmenntaverðlaun kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi, voru afhent við hátíðlega athöfn þann 8. mars 2021, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Verðlaunin hlutu:

  • Í flokki fagurbókmennta:
    Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur (Benedikt bókaútgáfa)
  • Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
    Konur sem kjósa: Aldarsaga eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur (Sögufélag)
  • Í flokki barna- og unglingabókmennta:
    Iðunn & afi pönk eftir Gerði Kristnýju (Mál og menning)

Þetta í fimmtánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í sjöunda sinn frá því að borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bauð höfunda velkomna í Höfða og streymt var af viðburðinum á samfélagsmiðlum. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.

Rökstuðningur dómnefnda

Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur (Benedikt bókaútgáfa)

Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur er ljóðabálkur sem geymir afar frumlega endurvinnslu á ritinu Íslenskar ljósmæður sem kom út á sjöunda áratug síðustu aldar. Þær hundrað ljósmæður sem þar segir frá ganga í endurnýjun lífdaga í ljóðum Kristínar Svövu. Það er sem opnist gátt inn í horfinn tíma þaðan sem streyma lýsingar af hetjudáðum þessara ljósmæðra sem létu hvorki ófærð né veðurofsa hamla för sinni. Ennfremur er hin góða, fórnfúsa kona dregin mjög skýrum dráttum. Kristín Svava minnir okkur á hvaðan við komum og við hvað fólk mátti stríða í þessu landi, ekki síst konur. Hún sækir í orðfæri fyrrnefndrar bókar og finnur því nýstárlegan búning. Þessi meðferð á efninu er afar vel heppnuð og skilar sér í margslungnum og mögnuðum texta.

Konur sem kjósa: Aldarsaga eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur (Sögufélag)

Konur sem kjósa er aldarsaga íslenskra kvenna sem fullgildra borgara. Í gegnum ellefu sneiðmyndir af íslensku samfélagi, afmarkaðar við eitt kosningaár á hverjum áratug frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt, fær lesandinn djúpa og marglaga innsýn í veröld íslenskra kvenna.  Höfundar skyggnast bak við mýtuna um að íslenskar konur séu fegurstar og sjálfstæðastar allra kvenna og taka til umfjöllunar hvernig lagalegt og félagslegt jafnrétti kynjanna þróaðist á Íslandi. Fjallað er um hvernig konur sigruðust á þeim hindrunum sem blöstu við, til dæmis baráttuna um launajafnrétti, lífeyri eða aðgengi að salernisaðstöðu á vinnustöðum. Í þessari mikilvægu bók um sögu íslenskra kvenna stígur fram margradda kór sem er vissulega ekki sammála um allt, en er þó samstíga í baráttunni fyrir iðkun borgararéttinda.

Iðunn & afi pönk eftir Gerði Kristnýju (Mál og menning)

Iðunn & afi pönk lýsir veröld ellefu ára stelpu í Mosfellsbæ. Atburðarásin hverfist um afa hennar, dularfullt reiðhjólshvarf og grunsamlegar stelpur í hverfinu. Ekki er allt sem sýnist, ekki pönkið heldur. Trú afa á frelsi og umburðalyndi fólks gagnvart sjálfu sér og öðrum, eflir Iðunni og á erindi við lesendur. Gerður Kristný skrifar af leikandi húmor, með skáldlegri hrynjandi og smitandi ást á tungumálinu.

 

Fjöruverðlaunin 2021: Tilnefningar

Tilkynnt hefur verið hvaða bækur eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi. Dómnefndir hafa tilnefnt bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir sem og fræðibækur og rit almenns eðlis.

Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna. Í ljósi COVID-19 faraldursins og samkomutakmarka var horfið frá hefðundinni tilnefningahátíð en vonast er til að hægt verði að afhenda verðlaunin, samkvæmt venju, við hátíðlega athöfn í snemma árs 2021.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis

  • Íslenskir matþörungar – ofurfæða úr fjörunni eftir Eydísi Mary Jónsdóttur, Hinrik Carl Ellertsson, Karl Petersson og Silju Dögg Gunnarsdóttur
  • Konur sem kjósa: Aldarsaga eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur
  • Þættir úr sögu lyfjafræðinnar á Íslandi frá 1760 eftir Hilmu Gunnarsdóttur

Í flokki barna- og unglingabókmennta

  • Sjáðu eftir Áslaugu Jónsdóttur
  • Iðunn og afi pönk eftir Gerði Kristnýju
  • Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur

Í flokki fagurbókmennta:

  • Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur
  • Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur
  • Undir Yggdrasil eftir Vilborgu Davíðsdóttur

Rökstuðningur dómnefnda:

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

Íslenskir matþörungar, ofurfæða úr fjörunni eftir Eydísi Mary Jónsdóttur, Hinrik Carl Ellertsson, Karl Petersson og Silju Dögg Gunnarsdóttur

Íslenskir matþörungar, ofurfæða úr fjörunni, varpar ljósi á þann fjársjóð sem finnst við strendur Íslands. Bókin kynnir lesandann fyrir þeirri vannýttu matarkistu sem býr í fjörunni og kennir honum að þekkja matþörunga, safna þeim og matreiða. Efni bókarinnar er komið vel til skila, ekki bara með aðgengilegum texta heldur er hún einnig ríkulega skreytt fallegum myndum sem gera bæði uppskriftum og leiðbeiningum um tínslu góð skil. Bókin er góð og tímabær viðbót við þann bókaflokk sem fjallar um íslenska náttúru og nýtingu hennar og kynnir vannýtta auðlind einstaklega vel.

Konur sem kjósa: Aldarsaga eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur

Konur sem kjósa er aldarsaga íslenskra kvenna sem fullgildra borgara. Í gegnum ellefu sneiðmyndir af íslensku samfélagi, afmarkaðar við eitt kosningaár á hverjum áratug frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt, fær lesandinn djúpa og marglaga innsýn í veröld íslenskra kvenna.  Höfundar skyggnast bak við mýtuna um að íslenskar konur séu fegurstar og sjálfstæðastar allra kvenna og taka til umfjöllunar hvernig lagalegt og félagslegt jafnrétti kynjanna þróaðist á Íslandi. Fjallað er um hvernig konur sigruðust á þeim hindrunum sem blöstu við, til dæmis baráttuna um launajafnrétti, lífeyri eða aðgengi að salernisaðstöðu á vinnustöðum. Í þessari mikilvægu bók um sögu íslenskra kvenna stígur fram margradda kór sem er vissulega ekki sammála um allt, en er þó samstíga í baráttunni fyrir iðkun borgararéttinda.

Þættir úr sögu lyfjafræðinnar á Íslandi frá 1760 eftir Hilmu Gunnarsdóttur

Þættir úr sögu lyfjafræðinnar á Íslandi frá 1760 er vandað yfirlitsrit íslenskrar lyfjasölu og lyfjafræði allt frá því að fyrsta apótekið var stofnað í Nesi. Einnig er innlendum félagsmálum lyfjafræðinga og menntun þeirra gerð góð skil. Bókin er listilega skrifuð þar sem vönduð sagnfræðileg heimildavinna um þróun greinarinnar er sett í bráðskemmtilegt samhengi við ríkjandi tíðaranda svo lesandinn líður í gegnum frásögnina eins og spennandi reyfara sem erfitt er að leggja frá sér. Þetta rit má ekkert áhugafólk um íslenska heilbrigðis- og samfélagssögu láta framhjá sér fara.

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

Sjáðu eftir Áslaugu Jónsdóttur

Í Sjáðu! eftir Áslaugu Jónsdóttur fylgja lesendur tveimur kátum krökkum um ævintýraveröld þar sem sumt er kunnuglegt en annað framandi. Leiðsögnin er í bundnu máli, leikandi og létt. Skemmtileg orð kallast á við fjörlegar og litríkar myndir sem gefa ímyndunaraflinu undir fótinn. Framvinda frásagnarinnar er mest í myndunum og þar má sjá fleira en nefnt er í vísunum. Hér er boðið upp á gefandi samveru og samtöl foreldra og ungra barna, skemmtun og mikilvæga málörvun. Sjáðu! er kærkomin harðspjaldabók fyrir yngstu börnin sem þurfa að venjast við vandaðar bækur frá fyrstu tíð. Allur frágangur er til fyrirmyndar og bókin hæfir vel litlum höndum.

Iðunn og afi pönk – Gerður Kristný

Iðunn og afi pönk lýsir veröld ellefu ára stelpu í Mosfellsbæ. Atburðarásin hverfist um afa hennar, dularfullt reiðhjólshvarf og grunsamlegar stelpur í hverfinu. Ekki er allt sem sýnist, ekki pönkið heldur. Trú afa á frelsi og umburðalyndi fólks gagnvart sjálfu sér og öðrum, eflir Iðunni og á erindi við lesendur. Gerður Kristný skrifar af leikandi húmor, með skáldlegri hrynjandi og smitandi ást á tungumálinu.

 

 

Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur

Vampírur, vesen og annað tilfallandi er fyrsta barnabók Rutar Guðnadóttur. Í sögunni er fjallað um þrjár vinkonur sem allar kljást við erfiðleika, hver á sínu sviði. Sagan er að mestu leyti raunsæ frásögn um líf þriggja stúlkna og vandamál þeirra í skóla og einkalífi en færir sig svo aðeins inn á svið fantasíunnar í lokin, í vel heppnaðri blöndu. Bókin er vel skrifuð og persónusköpun er frumleg og sannfærandi. Rut tekst að koma alls kyns málefnum unglinga nútímans inn í þessa vel fléttuðu og húmorísku frásögn. Spennandi nýliðaverk frá höfundi sem á eftir að láta að sér kveða.

Í flokki fagurbókmennta:

Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur

Það er ekki heiglum hent að takast á við föðurmissi, ástina og geðhvörf þannig að lesandinn fylgist með spenntur og áhyggjufullur um leið og samúðin fyllir hjarta hans. Þetta geir Elísabet Jökulsdóttir afar vel í bók sinni Aprílsólarkulda. Þetta er sjálfsævisögulegt verk um glímu við fortíðina þar sem sambandsleysi, söknuður, bóhemalíf og óheftur sköpunarkraftur takast á og leiða til mikilla átaka innan sem utan líkamans. Hér er skáldskapur á ferð sem veitir innsýn í heim níunda áratugarins um leið og hann fjallar um leitina að sjálfsskilningi, ást og umhyggju.

Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur

Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur er ljóðabálkur sem geymir afar frumlega endurvinnslu á ritinu Íslenskar ljósmæður sem kom út á sjöunda áratugnum. Þær hundrað ljósmæður sem þar segir frá ganga í endurnýjun lífdaga í ljóðum Kristínar Svövu. Það er sem opnist gátt inn í horfinn tíma þaðan sem streyma lýsingar af hetjudáðum þessara ljósmæðra sem létu hvorki ófærð né veðurofsa hamla för sinni. Enn fremur er hin góða, fórnfúsa kona dregin mjög skýrum dráttum. Kristín Svava sækir í orðfæri fyrrnefndrar bókar og finnur því nýstárlegan búning. Þessi meðferð á efninu er vel heppnuð og skilar sér í margslungnum og mögnuðum texta.

Undir Yggdrasil eftir Vilborgu Davíðsdóttur

Í Undir Yggdrasil leiðir Vilborg Davíðsdóttir lesandann heima á milli, frá Íslandi og austur um haf og frá miðaldaheiminum sem hún hefur áður tekist á við yfir í handanheima norrænu goðafræðinnar. Efnistökin eru nútímaleg og úrvinnslan á sagnaarfinum vönduð svo úr verður söguleg skáldsaga sem á erindi við nútímalesendur. Bókin gefur innsýn í líf bæði kvenna og annarra aukapersóna Íslendingasagnanna. Þorgerður Þorsteinsdóttir er heillandi aðalpersóna og eins og aðrar persónur bókarinnar bæði heildsteyp og mannleg. Bókin heldur lesandanum fram á síðustu blaðsíðu enda er frásögnin meistaralega fléttuð.

Í dómefndum sitja:

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku
  • Guðrún Jóhannsdóttir, bókmenntafræðingur
  • Hildur Ýr Ísberg, íslensku- og bókmenntafræðingur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sagnfræðingur
  • Sigrún Helga Lund, tölfræðingur
  • Sóley Björk Guðmundsdóttir, þjóðfræðingur og blaðamaður

Fagurbókmenntir:

  • Elín Björk Jóhannsdóttir, bókmenntafræðingur
  • Jóna Guðbjörg Torfadóttir, framhaldsskólakennari
  • Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur

Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár

Fjöruverðlaunin auglýsa eftir tilnefningum í ár.

Hægt er að leggja fram bækur eftir konur (sís og trans), trans fólk, kynsegin fólk og intersex fólk.

Þátttökukostnaður er ókeypis, en þremur eintökum þarf að skila inn fyrir dómnefnd.

Hægt er að tilnefna bækur í þremur flokkum:

  • fagurbókmenntir
  • fræðirit og bækur almenns eðlis
  • barna- og unglingabókmenntir

Dómnefndarbókum skal komið á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda í allra síðasta lagi föstudaginn 30. október 2020. Ef ekki er unnt að koma prentuðum bókum til skila fyrir þann tíma, er nauðsynlegt að senda rafrænt eintak á  bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir þann dag, svo að bókin komi til greina. Þá þurfa útgefendur að koma þremur prentuðum eintökum af sömu bók á skrifstofu FÍBÚT fyrir föstudaginn 20. nóvember 2020.

Aðeins bækur/handrit sem hafa borist fyrir 30. október koma til greina.

Þrjár bækur eru tilnefndar í hverjum flokki og verða tilnefningar kynntar í desember 2020. Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi, verða svo veitt í janúar 2021.

Hvaða bækur koma til greina?

Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:

  • skrifaðar af konu/konum, trans fólki, kynsegin fólki eða intersex fólki
  • frumútgáfa sé á íslensku
  • gefnar út af forlagi á Íslandi
  • koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
  • innihaldi texta af einhverju tagi
  • að kona/konur eða trans/kynsegin/intersex fólk eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur eða eða trans/kynsegin/intersex fólk séu helmingur höfunda (ef margir)

Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.