Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna auglýsa eftir tilnefningum í ár.

Þátttökukostnaður: Ókeypis en þremur eintökum þarf að skila inn fyrir dómnefnd

Þátttaka tilkynnist á bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com í síðasta lagi, 15.10.2018. Gott er ef bókum sé skilað á skrifstofu FÍBÚT fyrir þann dag.

Hægt er að tilnefna bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, fræðirit & bækur almenns eðlis og barna- og unglingabókmenntir

Dómnefndarbókum skal komið á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda í allra síðasta lagi 1.11.2018

Þrjár bækur tilnefndar í hverjum flokki, tilnefningar verða kynntar 3.12.2018

Verðlaunin verða veitt í janúar 2019.

Hvaða bækur koma til greina?

Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:

  • vera skrifaðar af konu/konum
  • frumútgáfa sé á íslensku
  • gefnar út af forlagi á Íslandi
  • koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
  • innihaldi texta af einhverju tagi
  • að kona/konur eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur séu helmingur höfunda (ef margir)

Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 19. september

Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi er haldinn miðvikudaginn 19. september kl. 17:00. Fundurinn er haldinn að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Dagskrá fundar eru hefðbundin aðalfundarstörf:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 13. september) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá.
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Fjöruverðlaunin 2018: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða 15. janúar 2018.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:

Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk eftir Unni Jökulsdóttur

Þetta í tólfta sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í fjórða sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna og afhenti verðlaunahöfum blóm. Verðlaunahafar fá verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu og gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði.

Rökstuðningur dómnefnda

Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur (Forlagið, 2017)

Í skáldsögunni Elín, ýmislegt fléttar höfundur saman sögu tveggja kvenna sem eru dregnar sterkum og trúverðugum dráttum. Leikmunahönnuðurinn Elín og leikskáldið unga Ellen standa sitt hvoru megin við fullorðinsárin en á margslunginn hátt kallast tilvera þeirra á. Í bókinni er tekist á við höggbylgjurnar sem ríða yfir eftir áföll og halda áfram sínu nötrandi ferðalagi um lífið á djúpstæðri tíðni. Á einkar næman og áhrifaríkan hátt er hér fjallað um skynjun manneskjunnar á veruleikanum, flóttaleiðir hugans, einsemd, hið gleymda og falda. Frásagnartæknin er í senn úthugsuð og áreynslulaus. Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur er gríðarlega vel skrifuð skáldsaga sem lifir áfram með lesandanum.

Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk. Unnur Jökulsdóttir (Mál og menning, 2017)
„Í geislum miðnætursólar sem hangir lágt á norðvesturhimni er vatnið glóandi eins og bráðið gull.“ Með þessum upphafsorðum er tónninn sleginn í bók Unnar Jökulsdóttur Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk. Í bókinni skynjar lesandinn töfra og fegurð Mývatns. Unnur ber djúpa virðingu fyrir náttúrunni og lýsir henni af ástríðu og hrifningu. Látlausar vatnslitamyndir eftir Árna Einarsson og Margaret Davies prýða bókina. Unnur kveikir fjölmargar hugrenningar um samhengi manns og náttúru og gerir lontuna, húsöndina og slæðumýið ódauðlegt. Unnur sýnir hvernig skeytingarleysi tortímdi kúluskítnum og lýsir áhyggjum af framtíð vatnsins ef við gætum þess ekki vel. Bókin Undur Mývatns er dýrmæt perla rétt eins og vatnið sjálft.

Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels. Kristín Helga Gunnarsdóttir (Mál og menning, 2017)

Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur segir frá Ishmael, 15 ára dreng á flótta frá Sýrlandi, og Salí, sýrlenskri stúlku sem býr í Kópavogi. Sjónarhornið flakkar milli þeirra tveggja og skapast þannig spenna sem heldur lesandanum föngnum. Sagan fjallar öðrum þræði um hörmungar en fyrst og fremst um mennsku og mannhelgi og er það undirstrikað með tilvitnunum úr Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna í upphafi hvers kafla. Bókin er einstaklega vel byggð, persónusköpun trúverðug og afar raunsæ og fjallar um málefni sem brennur á okkur öllum.

***

Einnig voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna 2018: Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Slitförin eftir Fríðu Ísberg í flokki fagurbókmennta; Íslenska lopapeysan: Uppruni saga og hönnun eftir Ásdísi Jóelsdóttur og Leitin að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis; Lang-elstur í bekknum eftir Bergrúnu Íris Sævarsdóttur og Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir eftir Brynhildi Þórarinsdóttur í flokki barna- og unglingabókmennta.

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2018 skipa: Bergþóra Skarphéðinsdóttir íslenskufræðingur, Guðrún Lára Pétursdóttir ritstjóri og Salka Guðmundsdóttir leikskáld og þýðandi í flokki fagurbókmennta; Helga Haraldsdóttir sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Sigurrós Erlingsdóttir íslenskukennari og Þórunn Blöndal dósent í íslenskri málfræði í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis; Arnþrúður Einarsdóttir kennari, Sigrún Birna Björnsdóttir framhaldsskólakennari og Þorbjörg Karlsdóttir bókasafnsfræðingur og flokki barna- og unglingabókmennta.

Fjöruverðlaunin 2018: Tilnefningar

Gleði ríkti á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur 5. desember 2017þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Fagurbókmenntir

  • Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur
  • Slitförin eftir Fríðu Ísberg
  • Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur

Dómnefnd skipuðu Bergþóra Skarphéðinsdóttir, Guðrún Lára Pétursdóttir og Salka Guðmundsdóttir.

Fræðibækur og rit almenns eðlis

  • Íslenska lopapeysan: Uppruni, saga og hönnun eftir Ásdísi Jóelsdóttur
  • Leitin að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur
  • Undur Mývatns: Um fugla, flugur, fiska og fólk eftir Unni Jökulsdóttur

Dómnefnd skipuðu Helga Haraldsdóttir, Sigurrós Erlingsdóttir og Þórunn Blöndal.

Barna- og unglingabókmenntir

  • Lang-elstur í bekknum eftir Bergrúnu Íris Sævarsdóttur
  • Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir eftir Brynhildi Þórarinsdóttur
  • Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur

Dómnefnd skipuðu Arnþrúður Einarsdóttir, Sigrún Birna Björnsdóttir og Þorbjörg Karlsdóttir.

Rökstuðningur dómnefnda

Fagurbókmenntir

Elín, ýmislegt. Kristín Eiríksdóttir (Forlagið, 2017)

Í skáldsögunni Elín, ýmislegt fléttar höfundur saman sögu tveggja kvenna sem eru dregnar sterkum og trúverðugum dráttum. Leikmunahönnuðurinn Elín og leikskáldið unga Ellen standa sitt hvoru megin við fullorðinsárin en á margslunginn og djúpstæðan hátt kallast tilvera þeirra þó á. Í bókinni er tekist á við höggbylgjurnar sem ríða yfir eftir alvarleg áföll og halda áfram sínu nötrandi ferðalagi um lífið á djúpstæðri tíðni. Á einkar næman og áhrifaríkan hátt er hér fjallað um skynjun manneskjunnar á veruleikanum, um flóttaleiðir hugans, einsemd, hið gleymda og falda. Frásagnartæknin er í senn úthugsuð og áreynslulaus og endurspeglar persónur jafnt sem umfjöllunarefni. Í takt við leiðarstef bókarinnar skapar höfundur myndir sem höfða til allra skynfæra og nýtir meðal annars sterk tákn sem þó eru aldrei augljós eða yfirborðskennd frekar en bókin sjálf. Elín, ýmislegt er gríðarlega vel skrifuð skáldsaga sem lifir áfram með lesandanum.

Flórída. Bergþóra Snæbjörnsdóttir (Benedikt, 2017)

Rétt eins og hinar kenjóttu persónur bókarinnar er Flórída verk sem víkur sér undan einföldum skilgreiningum. Í knöppum prósa höfundar er engu ofaukið. Form verksins hæfir heimi þess og umfjöllunarefni fullkomlega; bókin samanstendur af stuttum brotum sem mynda þó heildstæðan boga og lýsa mætti sem prósaljóðverki. Höfundur skapar gróteska og nánast yfirþyrmandi veröld þar sem öll lögmál smám saman skekkjast, sífellt þrengir að og hnignun aðalpersónunnar verður óhjákvæmileg. Afstaðan í textanum einkennist þó af írónískri fjarlægð sem gerir það að verkum að nístandi ástand og átakanlegt niðurbrot verður hvorki melódramatískt né klisjukennt þótt lesandinn dragist dýpra og lengra inn í veruleika persónanna með hverri blaðsíðunni. Hér koma saman vel valið form, magnað innihald og firnasterk stílbrögð og útkoman er ákaflega gott skáldverk.

Slitförin. Fríða Ísberg (Partus, 2017)

Slitförin er afar vönduð ljóðabók þar sem í tæplega fjörutíu ljóðum eru dregnar upp fjölmargar litlar myndir af augnablikum úr tilverunni, mannlegum samskiptum, brestum og tilfinningalegu ástandi. Skáldið segir þó um leið mun stærri sögu af samböndum og arfleifð kynslóðanna, vítahringjunum sem verða til upp úr erfiðu fjölskyldumynstri og hinni vandrötuðu leið sem unglingsstúlka þarf að feta til að öðlast sjálfstæða vitund ungrar konu. Eftirtektarvert er hve örugg tök höfundurinn hefur á fjölbreyttu myndmáli og hvernig hún nær með nálgun sinni að forðast tilgerð og koma hverri hugsun til skila á beinskeyttan hátt. Þrískipting bókarinnar og kaflaheitin Skurður, Slitförin og Saumar endurspegla þroskaferli ljóðmælandans og verkið er gjöful lesning í heild sinni en þó stendur hvert ljóð einnig sem sjálfstætt listaverk. Slitförin er vel uppbyggð og áhrifarík bók sem ber hæfileikum ljóðskáldsins gott vitni.

Fræðibækur og rit almenns eðlis

Íslenska lopapeysan. Uppruni, saga og hönnun. Ásdís Jóelsdóttir (Háskólaútgáfan, 2017)

Hún er falleg og hlý bókin Íslenska lopapeysan. Uppruni, saga og hönnun eftir Ásdísi Jóelsdóttur og geymir feikimikinn fróðleik um prjón og lopapeysur. Í bókinni rannsakar Ásdís sögu og þróun íslensku lopapeysunnar og rannsóknin leiðir í ljós athyglisverð tengsl samfélagsbreytinga og iðnþróunar. Unnin ull var lengi helsta útflutningsvara Íslendinga en á 19. öld dró úr ullarvinnslunni. Í bókinni rekur Ásdís hvernig ullarvinnsla öðlast vinsældir á ný á 20. öld með lopapeysunni og hvernig hönnuðir, og aðrir skapandi einstaklingar, nýta þennan efnivið. Heimildir Ásdísar eru af margvíslegum toga svo sem prjónabæklingar, uppskriftablöð og auglýsingar auk þess sem Ásdís tekur fjölmörg viðtöl við fólk. Frásagnir prjónakvennanna eru sérlega áhugaverðar og viðtöl Ásdísar eru mikilvæg heimild um störf kvenna inni á heimilum. Það er mikill fengur að bókinni og nú þurfa prjónakonur og – karlar að leggja frá sér prjónana um stund og lesa þessa bók.

Leitin að klaustrunum. Klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Steinunn Kristjánsdóttir (Sögufélagið og Þjóðminjasafn Íslands, 2017)

Leitin að klaustrunum. Klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur er voldugt rit og skemmtilega skrifað. Lesandinn fær ekki einungis góða innsýn í klausturhald á Íslandi í kaþólskum sið heldur einnig í vinnubrögð fornleifafræðinga og annarra sérfræðinga. Textinn er lipurlega skrifaður og höfundur bregður upp áhugaverðum myndum úr vinnunni við uppgröftinn, bæði í orðum og ljósmyndum sem sumar segja meira en mörg orð. Þetta veldur því að lesanda finnst hann vera þátttakandi í öllu amstrinu. Saga klaustranna er heillandi viðfangsefni sem Steinunn nær að gera góð skil. Hún leitar víða fanga og styðst við örnefni, gömul skjöl og munnmælasögur sem stundum vísa veginn en eiga það líka til að afvegaleiða fornleifafræðinga. Lesturinn vekur áhuga á því að heimsækja klausturstaðina með bókina í farteskinu. Sums staðar má sjá ummerki um klausturhald, annars staðar hafa öll spor máðst út en sagan lifir.

Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk. Unnur Jökulsdóttir (Mál og menning, 2017)

Í bókinni Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk lýsir Unnur Jökulsdóttir samlífi ólíkra lífvera á einkar næmlegan hátt og fléttar saman fræðilegar staðreyndir, munnmælasögur og örsögur úr eigin lífi í þessari stórbrotnu náttúru. Lesandi sér og skynjar töfra staðarins gegnum augu höfundar en hún er fróðleiksfús fastagestur sem vill vita allt stórt og smátt um náttúruna og lífið við vatnið. Unnur hefur greiðan aðgang að fræðafólki sem starfar við rannsóknir á lífríkinu við Mývatn og það svalar forvitni hennar þegar spurningar vakna. Bókin er þannig byggð á fræðilegum grunni en miðlað af leikmanni með næmt fegurðarskyn og djúpa virðingu fyrir náttúrunni. Niðurstaðan verður læsileg bók, skrifuð af ástríðu og hrifningu, þar sem rétt er farið með staðreyndir en þannig um þær búið að allir geta haft af þeim gagn og gaman. Látlausar og fallegar vatnslitamyndir eftir Árna Einarsson og Margaret Davies prýða bókina.

Barna- og unglingabókmenntir

Allar eiga þessar bækur það sameiginlegt að vera skrifaðar á blæbrigðaríku og fallegu máli en um leið fá þær lesendur til að efla málvitund og auka lesskilning sinn. Fjölbreytni þeirra gefur fögur fyrirheit um aukið úrval lesefnis fyrir aldurshópinn sem tilheyrir barna- og ungmennabókum.

Lang-elstur í bekknum. Bergrún Íris Sævarsdóttir (Bókabeitan, 2017)

Eyja er sex ára feimin skólastúlka. Hún er nýflutt, þekkir því engan í skólanum og finnst erfitt að eignast vini. Sessunautur hennar er hins vegar 96 ára og fer sínar eigin leiðir bæði í nestis- og námsvali. Rögnvaldur og Eyja hjálpast að við það sem þeim finnst erfiðast og uppskera bæði. Eyja kennir Rögnvaldi stafina en þar sem hann er tregur til þarf hún að leysa ýmsar þrautir sem hann leggur fyrir hana. Skólalífið verður þeim þannig léttara og skemmtilegra en um leið lærdómsríkt og uppbyggilegt. Sagan kennir okkur að samvinna og það að þora aðeins út fyrir þægindarammann skiptir oft máli til að auka lífsgæði okkar.

Frásögnin af skólasystkinunum er einkar skemmtileg og fyndin og ekki skemma myndir höfundarins fyrir sem glæða söguna lífi. Bókin er léttlestrarbók með þægilegu letri, stuttum köflum og hentar byrjendum og öllum þeim sem þurfa að æfa sig í lestri.

Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir. Brynhildur Þórarinsdóttir (Mál og menning, 2017)

Gunnar og Gyða fara með mömmu sinni í eyðiþorp og verja sumrinu án nútímatækja eins og snjallsíma og nets. Hvað gera börn þá? Þau þurfa að finna sjálf upp á einhverju til að skemmta sér og komast að því að það er hægt að komast af án allra skjáa og sælgætis. Við sögu kemur dýr sem mjoffar og börnin koma sér ekki saman um hvort er hundur eða köttur. Skepnan reynist hjálpsöm og vinur í raun.

Frásögnin er lipur, myndræn og vel byggð, persónusköpun er lifandi og eru börnin dregin skýrum dráttum þar sem sumarfríið reynist þeim þroskandi og er lesandi ekki frá því að tognað hafi ærlega úr þeim eftir ævintýrin. Börnin tvö eru aðalpersónurnar og kastljósinu beint að þeirra hugðarefnum en fullorðnir aðeins til stuðnings framvindunnar, börn þurfa jú að nærast og hafa einhvern ramma en annars leika þau lausum hala.

Myndskreytingar Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur glæða söguna lífi en er stillt í hóf svo ímyndunaraflið fær að njóta sín.

Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels. Kristín Helga Gunnarsdóttir (Mál og menning, 2017)

Ishmael er sýrlenskur drengur frá Aleppo. Þegar heimili hans hrynur í sprengjuregni og mamma hans og systir deyja flýja hann og afi hans hörmungarnar enda möguleikar á eðlilegu lífi engir. Við fylgjum þeim á flóttanum og eru lýsingar atburða og umhverfis raunsæjar og myndrænar. Á sama tíma er sögð saga flóttafjölskyldu í Kópavogi sem er að reyna að fóta sig í nýju landi. Sagan segir ekki aðeins frá hörmungum heldur fjölskylduböndum, draumum, vináttu og von.

Frásögnin af flóttanum er hröð og spennandi en hún hægist þegar í Kópavoginn er komið enda mun öruggara umhverfi. Sagan er þroskasaga þar sem Ishmael upplifir æðimargt á skömmum tíma en hann lærir líka að þekkja tilfinningar sínar og treysta innsæinu. Persónur eru raunsæjar þannig að auðvelt er fyrir lesanda að finna til samhygðar.

Uppbygging bókarinnar er einstök þar sem hver kafli er afmarkaður af ljósmynd og klausu úr Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tengist umfjöllunarefninu og er óhætt að segja að það hafi talsverð áhrif á upplifun lesandans.

Tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna 2018, þriðjudaginn 5. desember kl. 17

Velkomin á tilnefningahátíð Fjöruverðlauna – bókmenntaverðlauna kvenna þriðjudaginn 5. desember kl. 17. Hátíðin verður haldin í Borgarbókasafninu í Tryggvagötu.

Dómnefndir tilnefna bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis.

Léttar veitingar í boði.

Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna.

Fjöruverðlaunin 2018: Auglýst eftir bókum

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, tilnefna bækur eftir konur til verðlauna í þremur flokkum:

  • fagurbókmenntir
  • fræðibækur og rit almenns eðlis
  • barna og unglingabækur

Skorað er á útgefendur að leggja fram útgáfubækur ársins 2017 í þessa flokka. Þrjú eintök af framlagðri bók þurfa að berast á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda sem fyrst.

Hvaða bækur koma til greina?

Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:

  • skrifaðar af konu/konum
  • frumútgáfa sé á íslensku
  • gefnar út af forlagi á Íslandi
  • koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
  • innihaldi texta af einhverju tagi
    að kona/konur eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur séu helmingur höfunda (ef margir)

Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.

Hvernig er bók skráð til þátttöku?

Á hverju hausti auglýsa Fjöruverðlaunin eftir skráningum í verðlaunapottinn. Auglýst er á heimasíðu Fjöruverðlaunanna og Fésbókarsíðu þeirra, og hvatning er send til útgefenda á póstlista Félags íslenskra bókaútgefenda.

Útgefendur skrá bækur til þátttöku og ákveða í hvaða flokki þær taka þátt. Það er útgefendum að kostnaðarlausu að setja bækur sínar í pottinn en útgefendur þurfa að gera eftirfarandi:

a) Senda lista yfir allar bækur útgefanda eftir konur, flokk og áætlaðan útgáfutíma þeirra til stjórnar Fjöruverðlaunanna fyrir 27. október 2017, á bokmenntaverdlaunkvenna[hjá]gmail.com.

b) Afhenda þrjú eintök af hverri bók Félagi íslenskra bókaútgefenda. Bækur þurfa að vera í síðasta lagi komnar 10. nóvember, og helst fyrr.

Ný stjórn Fjöruverðlaunanna

Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna var haldinn að Hallveigarstöðum í Reykjavík í dag, 20. september 2017.

Á fundinum var í kosið til nýrrar stjórnar. Úr stjórn véku Ingibjörg Valsdóttir og Lára Jónsdóttir. Þökkum við þeim vel unnin störf í þágu félagsins. Í stjórn voru kosnar Erla E. Völudóttir og Valgerður Þórsdóttir. Áfram sitja í stjórn formaður Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og meðstjórnendur Ásbjörg Una Björnsdóttir og Guðrún Birna Eiríksdóttir. Óskum við nýrri stjórn velfarnaðar í starfi.

Svo gaman var á aðalfundi félagsins, að konur gleymdu algjörlega að taka mynd af nýrri stjórn. Svo þessari frétt fylgir málverk af konum sem dansa frá árinu 1917 eftir Arthur F. Mathews (1860-1945) og Lucia K. Mathews (1870-1955). Myndin er viðeigandi, því mikil gleði ríkir ávallt í Félagi um Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi 🙂

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 20. september

Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi er haldinn miðvikudaginn 20. september kl. 17:00. Fundurinn er haldinn að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Tvær af fimm stjórnarkonum félagsins láta af störfum í ár, svo við auglýsum sérstaklega eftir framboðum til stjórnar. Stjórnarseta er 3 ár og er að sjálfsögðu stórskemmtileg!

Stjórn Fjöruverðlaunanna starfar samkvæmt siðareglum, og við vekjum sérstaka athygli að þær reglur segja til um að eigi stjórnarkona hlutdeild í bók sem lögð verður fram til Fjöruverðlaunanna ber henni að víkja úr stjórn á því starfsári. Hægt er að lesa siðareglurnar í heild sinni á vefsíðu félagsins: http://fjoruverdlaunin.is/fel…/starfs-og-sidareglur-stjornar.

Hafið samband við stjórn fyrir miðvikudaginn 13. september til að bjóða ykkur fram! Netfang: bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com.

Dagskrá fundar eru hefðbundin aðalfundarstörf:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 13. september) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá.
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Fjöruverðlaunin 2017: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru veitt við hátíðlega athöfn í Höfða 19. janúar 2017.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:
Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur

Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur

Þetta í ellefta sinn sem verðlaunin eru veitt og í þriðja sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna og afhenti verðlaunahöfum blóm. Venju samkvæmt fengu verðlaunahafar keramik-egg eftir listakonuna Koggu. Einnig fengu verðlaunahafar afhent gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði.

Rökstuðningur dómnefnda:

Frá dómnefnd í flokki fagurbókmennta

Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur
Útgefandi: JPV

Skáldverkið Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur geymir fjölradda sagnaheim um sérstakar en þó trúverðugar manneskjur sem reyna að mynda tengsl í oft einmanalegri tilveru. Hér skarast líf og farast á mis, fínlegir þræðir fléttast saman. Textinn er uppfullur af mennsku og ber vott um næmi fyrir margbreytileika sálarlífsins. Höfundur leikur sér með ólík sjónarhorn og hversdagsleikinn og fantasían mætast með óvæntum hætti. Með flæðandi, heillandi stíl fangar höfundurinn skáldskapinn í tilverunni. Frásagnirnar eru ýmist sorglegar, spaugilegar eða þrungnar undirliggjandi óhugnaði, en höfundur leikur áreynslulaust á alla þessa strengi. Verðlaunabókin er samspil radda úr fortíð, nútíð og framtíð sem snerta við lesandanum.

Frá dómnefnd í flokki barna- og unglingabókmennta

Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur
Útgefandi: Iðunn

Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur er falleg, vel skrifuð og fræðandi bók um Ísland þar sem fjallað er um birtuna, myrkrið, dýralíf, gróðurfar, mannlíf, íslenska tungu og ýmislegt fleira sem tengist lífi okkar og tilveru á þessari litlu eyju. Höfundar koma vel til skila mikilvægi þess að hugsa vel um landið og að Ísland sé land okkar allra. Uppsetning bókarinnar er afar aðgengileg og hægt að grípa niður í bókina hvar sem er, aftur og aftur, og finna eitthvað sem fangar athyglina. Ríkulegar myndskreytingar mynda heildstætt verk þar sem hver blaðsíðan af annarri er sannkallað listaverk.

Frá dómnefnd í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis

Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur
Útgefandi: Bjartur

Steinunn Sigurðardóttir skrifar í Heiðu, fjalldalabóndanum um unga konu sem er margslunginn persónuleiki, full af andstæðum og fer eigin leiðir í lífinu. Heiða er einyrki á afskekktu sauðfjárbúi sem hellir sér út í sveitarstjórnarstörf vegna andstöðu sinnar við hugmyndir um Búlandsvirkjun í Skaftárhreppi, enda ljóst að virkjun myndi gerbreyta náttúrufari héraðsins. Bókin sýnir bónda sem segist hafa tímabundin umráð yfir landinu og telur það skyldu sína að vernda það. Deilur um virkjunina valda úlfúð í samfélaginu en sagan dregur einnig upp mynd af tryggri fjölskyldu og góðum grönnum. Heiða er persóna sem vekur áhuga lesandans og Steinunn hefur gert meistaraleg skil.

Einnig voru tilnefndar:

Fagurbókmenntir:
Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur
Kompa eftir Sigrúnu Pálsdóttur

Barna- og unglingabókmenntir:
Doddi: Bók sannleikans! eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur; myndir og kápa Elín Elísabet Einarsdóttir.
Úlfur og Edda: Dýrgripurinn, höfundur texta og mynda er Kristín Ragna Gunnarsdóttir.

Fræðibækur og rit almenns eðlis:
Hugrekki – saga af kvíða eftir Hildi Eiri Bolladóttur
Barðastrandarhreppur – göngubók eftir Elvu Björgu Einarsdóttur

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2017 skipa:

Fagurbókmenntir:

  • Guðrún Lára Pétursdóttir, ritstjóri tímaritsins Börn og menning
  • Salka Guðmundsdóttir, leikskáld og þýðandi
  • Bergþóra Skarphéðinsdóttir, íslenskufræðingur

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Júlía Margrét Alexandersdóttir, blaðamaður
  • Þorbjörg Karlsdóttir, bókasafnsfræðingur
  • Arnþrúður Einarsdóttir, kennari

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Erla Elíasdóttir Völudóttir, þýðandi
  • Helga Haraldsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu
  • Sigurrós Erlingsdóttir, íslenskukennari

Bókahátíð Fjöruverðlaunanna – laugardaginn 10. desember kl. 13

Fjöruverðlaunin bjóða til Bókahátíðar laugardaginn 10. desember í Hannesarholti við Grundarstíg í Reykjavík klukkan 13.

Höfundar þeirra bóka sem tilnefndar eru til Fjöruverðlaunanna 2017 koma saman, kynna sig og lesa úr bókum sínum. Notaleg bókastemning og svigrúm fyrir spurningar og spjall. Öll velkomnin á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis.

Hægt er að panta jólaplatta á Hannesarholti í aðdraganda bókahátíðarinnar og eftir hana er tilvalið að setjast niður í veitingasal Hannesarholts og fá sér heitan kaffisopa og kökusneið. Við mælum sérstaklega með því að fólk fái sér göngutúr í miðbæ Reykjavíkur fyrir hátíðina sem skartar nú sínu fegursta í jólamánuðinum og er orðin fagurlega skreytt.

Níu bækur eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna, í þremur flokkum, og var tilkynnt um tilnefningar við hátíðlega athöfn í Borgarbókarsafninu í Kvosinni þann 6. desember.

Tilnefndar bækur eru:

Fagurbókmenntir

  • Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur
  • Kompa eftir Sigrúnu Pálsdóttur
  • Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur

Fræðibækur og rit almenns eðlis

  • Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur
  • Hugrekki – saga af kvíða eftir Hildi Eiri Bolladóttur
  • Barðastrandarhreppur – göngubók eftir Elvu Björgu Einarsdóttur

Barna- og unglingabókmenntir

  • Doddi: Bók sannleikans! eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur; myndir og kápa Elín Elísabet Einarsdóttir.
  • Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur
  • Úlfur og Edda: Dýrgripurinn eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur