Fjöruverðlaunin 2016: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru veitt við hátíðlega athöfn í Höfða 21. janúar 2016. Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:
Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen

Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld eftir Þórunni Sigurðardóttur

Þetta í tíunda skipti sem verðlaunin eru veitt og í annað sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna og afhenti verðlaunahöfum blóm. Venju samkvæmt fengu verðlaunahafar keramik-egg eftir listakonuna Koggu og frú Vigdís Finnbogadóttir steig á svið og afhenti verðlaunahöfum gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði.

Rökstuðningur dómnefnda

Frá dómnefnd í flokki fagurbókmennta

Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen
Útgefandi: 1005 Tímaritaröð / Bókaútgáfan Sæmundur

Í Tvöföldu gleri er skrifað um konu á áttræðisaldri sem hefur nýlega misst eiginmann sinn. Þegar hún lendir óvænt í ástarsambandi stendur hún frammi fyrir spurningum um réttmæti þess að verða ástfangin á efri árum, en jafnframt sýnir saga hennar á einstakan máta fram á fegurð slíkra ásta.

Tvöfalt gler er þétt, skrifuð af einstöku næmi og hún er „stór“ þótt hún sé stutt. Höfundur dregur upp eftirminnilega mynd af lífsþorsta og ástarþrá manneskju sem dafnar og vex þegar dauðinn er allt í kringum hana. Halldóru Thoroddsen tekst sérlega vel að lýsa miklum tilfinningum í fáum en dýrmætum orðum. Verðlaunasagan Tvöfalt gler er lágstemmd og fögur – og stíllinn tær, ljóðrænn og sindrandi.

Frá dómnefnd í flokki barna- og unglingabókmennta

Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur
Útgefandi: Forlagið

Vetrarfrí er spennandi unglingabók með sterka samsvörun til nútímans og heimsmálanna. Bókin færir þær hörmungar sem fylgja lífi flóttamannsins nær unglingum og lesendum. En þó að sagan lýsi óhugnaði og blóðugu ofbeldi er mikill húmor í henni og því um leið líka stórskemmtileg.

Í sögunni er áhrifamikill stígandi þar sem tilveran tekur miklum stakkaskiptum; frá hversdagslegri  tilveru unglinga og barna yfir í ofsafengin átök. Þrátt fyrir umbyltingu á tilverunni heldur lífið þó áfram og jafnvel í stríði heldur manneskjan áfram að vera manneskja með sína drauma og væntingar. Og í stríði halda unglingar líka áfram að vera ástfangnir.

Frá dómnefnd í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis

Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld eftir Þórunni Sigurðardóttur

Útgefandi: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Bókin hefur að geyma frumrannsókn Þórunnar Sigurðardóttur á lítt rannsökuðu efni. Í henni  rýnir höfundur í íslensk tækifæriskvæði frá árnýöld, sem ort voru í minningu látinna, og sýnir fram á að þau heyri undir mismunandi kvæðagreinar. Þau 17 kvæði sem birt eru í bókinni hafa hingað til verið varðveitt í handritum og sjást nú flest í fyrsta sinn á prenti, en þar á meðal eru tvö kvæði eftir íslenskar konur.

Auk fræðilegrar dýptar hefur bókin mikla breidd í efnistökum. Þórunn fer ótroðnar slóðir í rannsókn sinni og greiningu, skoðar félagslegt og sálrænt hlutverk kvæðanna út frá samfélagsviðmiðum á ritunartíma þeirra og ber saman við hugmyndir nútímans. Jafnframt skoðar hún tengsl kvæðanna við heiður hins látna og einnig hvernig skáld gátu nýtt sér ritun erfiljóða til að auka eigin metorð.

Einnig voru tilnefndar:

Fagurbókmenntir:

  • Humátt eftir Guðrúnu Hannesdóttur
  • Mörk eftir Þóru Karítas Árnadóttur

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Koparborgin eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur
  • Randalín, Mundi og afturgöngurnar eftir Þórdísi Gísladóttur og Þórarin M. Baldursson

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Rof – Frásagnir kvenna af fóstureyðingum eftir Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunni Rögnvaldsdóttur
  • Ástin, drekinn og dauðinn eftir Vilborgu Davíðsdóttur

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2016 skipa:

Fagurbókmenntir:

  • Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir, íslenskukennari og málfarsráðgjafi hjá RÚV
  • Salka Guðmundsdóttir, leikskáld og þýðandi
  • Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, bókmenntafræðingur og rithöfundur

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Júlía Margrét Alexandersdóttir, blaðamaður
  • Þorbjörg Karlsdóttir, bókasafnsfræðingur
  • Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir, teiknari og hreyfimyndagerðamaður

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Erla Elíasdóttir Völudóttir, þýðandi
  • Erna Magnúsdóttir, líffræðingur
  • Sigurrós Erlingsdóttir, íslenskukennari