Tímamót í starfi Fjöruverðlaunanna

Tímamót áttu sér stað í starfi Fjöruverðlaunanna þegar formlegt félag var stofnað um starfsemina, Fjöruverðlaunin – félag um bókmenntaverðlaun kvenna. Vel var mætt á stofnfundinn sem haldinn var á Hallveigarstöðum fimmtudaginn 23. október en Fjöruverðlaunin hafa verið starfrækt í átta ár af óformlegum grasrótarhópi.

Við stofnun félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna voru tvær helstu upphafskonur og stofnendur verðlaunanna gerðar að heiðursfélögum, það eru þær Ingibjörg Hjartardóttir rithöfundur og Jónína Leósdóttir rithöfundur.

Félagið hefur sömu markmið og hlutverk og fyrirrennarinn, að halda utan um skipulagningu Fjöruverðlaunanna og skipa dómnefndir sem tilnefna til verðlauna í jólabókaflóðinu bækur eftir konur í þremur flokkum, það er að segja fyrir barna- og unglingabækur, fræðibækur og rit almenns eðlis, og fagurbókmenntir.

Einni bók úr hverjum flokki eru veitt verðlaun þegar komin er jólabókafjara  – á Konudaginn við upphaf Góu. Verðlaunaafhendingin er uppskeruhátíð og hefð fyrir því að Fjöruverðlaunin fagni með því að fá til sín erlenda eða innlenda fyrirlesara. Hefur þessi hátíð verið fjölsótt og verið gerður mjög góður rómur að þessu.

Á fundinum var kosin stjórn Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna: Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir bókmenntafræðingur, Erla Hlynsdóttir blaðamaður, Halldóra Sigurdórsdóttir íslenskufræðingur, Unnur Jökulsdóttir rithöfundur og Védís Skarphéðinsdóttir ritstjórnarfulltrúi sem er formaður stjórnar.