Fjöruverðlaunin 2016: Tilnefningar

Mikil gleði ríkti í Kvosinni í dag þegar 9 bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningu að þessu sinni:

Fagurbókmenntir

 • Humátt eftir Guðrúnu Hannesdóttur
 • Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen
 • Mörk eftir Þóru Karítas Árnadóttur

Fræðibækur og rit almenns eðlis

 • Rof – Frásagnir kvenna af fóstureyðingum eftir Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunni Rögnvaldsdóttur
 • Ástin, drekinn og dauðinn eftir Vilborgu Davíðsdóttur
 • Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld eftir Þórunni Sigurðardóttur

Barna- og unglingabókmenntir

 • Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur
 • Koparborgin eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur
 • Randalín, Mundi og afturgöngurnar eftir Þórdísi Gísladóttur og Þórarin M. Baldursson

Rökstuðningur dómnefnda

Fagurbókmenntir

Humátt
eftir Guðrúnu Hannesdóttur
Útgefandi: Textasmiðjan

Humátt er eftirminnileg, innihaldsrík og vönduð ljóðabók sem einkennist af skörpu innsæi, aðdáunarverðum stílbrögðum og óbilandi tilfinningu fyrir möguleikum ljóðsins. Bókin er uppfull af þeim nákvæmu en jafnframt kraftmiklu, óvæntu myndum sem eru eitt höfundareinkenna Guðrúnar Hannesdóttur.

Í þeim 42 ljóðum sem er að finna í fimmtu ljóðabók Guðrúnar mætir lesandanum firnasterkt myndmál og óumdeilanleg hugmyndaauðgi. Skáldið beitir ísmeygilegum húmor og meitluðu tungumáli til að draga upp myndir sem stundum vara aðeins augnablik en teygja sig þó til allra átta í tíma og rúmi. Tilfinningin fyrir fortíðinni, íslenskum alþýðuvísindum, náttúru og þjóðlegum stefjum blandast samtíma okkar í tímalausri rödd ljóðmælandans. Náttúran er síkvik og nálæg en klisjur eru víðsfjarri; Guðrún teymir lesandann stöðugt eftir óvæntum stígum.

Á stundum er rödd ljóðmælandans jafnvel óvægin, tungumálinu beitt á nístandi hátt, en undirtónninn er ávallt sannur og heill. Örugg tökin á ljóðforminu verða til þess að djúpum tilfinningum og brýnum spurningum er miðlað á hátt sem hreyfir við lesandanum og birtir honum áður óþekkta sýn. Úr listlegu samspili viðfangsefna og forms verður afar sterkt verk.

Tvöfalt gler
eftir Halldóru K. Thoroddsen
Útgefandi: HKT/1005 Tímaritaröð

Tvöfalt gler er stutt skáldsaga, svokölluð nóvella, og í henni er skrifað um manneskju sem ekki oft fær rödd í íslenskum skáldskap; konu á áttræðisaldri sem hefur nýlega misst eiginmann sinn. Konu sem að einhverju leyti er „úr leik“ og „tíminn hefur nagað“ eins og segir í sögunni. Þegar hún lendir í ástarsambandi stendur hún frammi fyrir spurningum um réttmæti þess að verða ástfangin á efri árum, auk þess sem hún tekst á við álit fólksins í kringum sig. „Ástir gamalmenna eru ekki heilbrigðar hjónabandsástir sem miða að uppfyllingu jarðarinnar“ segir í Tvöföldu gleri, sem jafnframt sýnir fram á kosti slíkra ásta á einstakan máta.

Sagan lætur lítið yfir sér, eins og sagt er, en er þétt, fallega skrifuð og „stór“ þótt hún sé stutt. Lesendur verða nokkurs vísari um líf þeirra sem með skrauthvörfum eru kallaðir eldri borgarar en hétu hér áður fyrr gamalt fólk. Halldóra skrifar um hversdagslegar athafnir konunnar, hugsanir hennar um fortíð og framtíð og dregur upp eftirminnilega mynd af lífsþorsta og ástarþrá manneskju sem dafnar og vex þegar dauðinn er allt í kringum hana.

Halldóru Thoroddsen tekst sérlega vel að lýsa miklum tilfinningum í fáum en dýrmætum orðum. Sagan Tvöfalt gler er lágstemmd og fögur og stíllinn tær, ljóðrænn og sindrandi.

Mörk
eftir Þóru Karítas Árnadóttur
Útgefandi: Forlagið

Í Mörk skrifar Þóra Karítas Árnadóttir sögu móður sinnar, Guðbjargar Þórisdóttur. Sagan er skráð í fyrstu persónu Guðbjargar sem ólst upp í stórri og ástríkri fjölskyldu í húsinu Mörk í Reykjavík. En yfir hlýjunni og ástúðinni hvílir skuggi afans sem beitir Guðbjörgu kynferðislegu ofbeldi frá unga aldri.

Mörk er skrifuð af mikilli hlýju og einlægni. Hún er látlaus og dvelur ekki við ofbeldislýsingar, án þess að vera með tepruskap. Bókin nær að vera klisjulaus og þetta er nýr vinkill á sögu þolanda. Þetta er ekki saga um ónýtt líf heldur um manneskju sem nær að vinna úr hryllingnum og stendur uppi sem sigurvegari, þótt ekkert sé dregið úr alvarleikanum.

Til marks um úrvinnslu tilfinninga og þroska, sem Guðbjörg hefur náð, er klausa á blaðsíðu 112. Hún kallast á við nafnið á húsinu Mörk, sem var í senn heimili hennar og vettvangur ofbeldisins, og gefur titli bókarinnar þar með tvöfalda merkingu: „Nú veit ég hversu heimskulegt það var af sjálfri mér að ætlast til að ég sem barn gæti varið sjálfa mig og sett fullorðnum manni mörk.“

Fræðibækur og rit almenns eðlis

Rof – Frásagnir kvenna af fóstureyðingum
eftir Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunni Rögnvaldsdóttur
Útgefandi: Háskólaútgáfan

Rof er tímabær bók um þýðingarmikinn hluta af reynsluheimi kvenna sem legið hefur að mestu í þagnargildi til þessa.

Í bókinni eru frásagnir 76 kvenna af fóstureyðingum sem höfundar hafa greint af kostgæfni og skipt í flokka. Greining höfunda setur frásagnirnar í samfélagslegt og fræðilegt samhengi og dýpkar þannig upplifun lesandans.

Lesandinn kemst ekki hjá því að horfast í augu við að á Íslandi er ákvörðun um fóstureyðingu ekki að fullu í höndum kvenna, heldur eru þær framkvæmdar í krafti kerfis sem vill svo til að er hliðhollt konum og þeirra ákvörðunarrétti. Þannig gæti kerfið á sama hátt dregið til baka þessi réttindi, sem konum eru í raun ekki tryggð með núgildandi lögum.

Útgangspunktur bókarinnar er að konur eigi rétt á að taka ákvörðun um fóstureyðingu á eigin forsendum og er því mikilvægt framlag til áframhaldandi réttindabaráttu kvenna og til þess að afnema þá bannhelgi sem legið hefur á umræðu um fóstureyðingar.

Ástin, drekinn og dauðinn
eftir Vilborgu Davíðsdóttur
Útgefandi: Forlagið

Vilborg Davíðsdóttir fjallar hér á hispurslausan hátt um þá tilveru sem blasti við henni og eiginmanni hennar eftir að hann greindist með krabbamein.

Höfundur tekst á við áleitnar spurningar um lífið og dauðann og horfist í augu við hvort tveggja af hugrekki og æðruleysi. Bókin er skrifuð af mýkt og einlægni, Vilborg nálgast dauðann sem hluta af lífinu og vekur máls á kimum mannlífsins sem fólk veigrar sér við að ræða.

Um leið og dauðinn er til umræðu er lífinu tekið opnum örmum. Þegar meinið greindist höfðu hjónin þegar tileinkað sér lífsstíl þar sem árvekni var í fyrirrúmi, og einkenna slíkar hugleiðingar bókina.

Vilborg notar myndmál ævintýranna um baráttu sína og síns heittelskaða við krabbameinið. Meinið er kallað „drekinn“, baráttu prinsins við það lýkur á ári drekans samkvæmt kínversku tímatali og við tekur ár snáksins, eða ár endurnýjunar. Þannig fær lesandinn einnig að fylgjast með Vilborgu fóta sig þegar allt er yfirstaðið og takast á við sorgina.

Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld
eftir Þórunni Sigurðardóttur
Útgefandi: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Bókin hefur að geyma frumrannsókn Þórunnar Sigurðardóttur á lítt rannsökuðu efni, en í henni  rýnir höfundur í íslensk tækifæriskvæði frá árnýöld, sem ort voru í minningu látinna, og sýnir fram á að þau heyri undir mismunandi kvæðagreinar.

Auk fræðilegrar dýptar hefur bókin mikla breidd í efnistökum. Þórunn skoðar félagslegt og sálrænt hlutverk kvæðanna út frá samfélagsviðmiðum við ritunartíma og ber saman við hugmyndir nútímans. Jafnframt skoðar hún tengsl kvæðanna við heiður hins látna og einnig hvernig skáld gátu nýtt sér ritun erfiljóða til að auka eigin metorð.

Þau 17 kvæði sem birt eru í bókinni hafa hingað til verið varðveitt í handritum og sjást nú í fyrsta sinn á prenti, en þar á meðal eru tvö kvæði eftir íslenskar konur. Upprunalegur ritháttur textans er birtur samhliða nútímarithætti, sem gerir hann aðgengilegri fyrir lesendur.

Barna- og unglingabókmenntir

Vetrarfrí
eftir Hildi Knútsdóttur
Útgefandi: Forlagið

Vetrarfrí er lipurlega skrifuð og ákaflega spennandi unglingabók með mikilvægan boðskap og sterka ádeilu. Sagan hefur sterka samsvörun til nútímans og heimsmálanna og færir þær hörmungar sem fylgja lífi flóttamannsins nær unglingum og lesendum.

Textinn rennur vel og er áreynslulaus og persónusköpun er einkar skýr, sérstaklega á aðalsöguhetjum. Í sögunni er flottur og áhrifamikill stígandi þar sem tilveran tekur miklum stakkaskiptum; frá því að vera eðlileg tilvera unglinga og barna með þeim hversdagslegu vandamálum sem þar fylgja yfir í ofsafengin átök. Þrátt fyrir umbyltingu á tilverunni heldur lífið þó áfram og sama hvar fólk er statt og líka í stríði; heldur manneskjan áfram að vera manneskja með sínar smærri og stærri þrár, drauma og væntingar. Og í stríði halda unglingar líka áfram að vera ástfangnir.

Þrátt fyrir að sagan lýsi óhugnaði og blóðugu ofbeldi er mikill húmor í henni sem gerir það að verkum að það fjarstæðukennda verður öllu bærilegra aflestrar og er því þessi hörmungasaga því um leið líka stórskemmtileg.

Koparborgin
eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur
Útgefandi: Bókabeitan

Í Koparborginni birtist einstakur söguheimur, margslunginn og vel hugsaður í framandi og leyndardómsfullri fantasíu. Sagan er spennandi frá fyrstu blaðsíðu, falleg og hrikaleg í senn, og heldur bæði þaulvönum fantasíuaðdáendum sem og þeim sem eru nýgræðingar á þeim lestri og er það kostur hve aðgengileg hún er þrátt fyrir að bregða upp tilveru sem er víðsfjarri lesandanum.

Viðfangsefni Koparborgarinnar eru erfiðleikar sem börn þurfa að glíma við í heimi þar sem plága hefur geisað og snýst tilveran um að þrauka dag frá degi og er tilvera barnanna grimm, ekki síður en í heimi fullorðinna þar sem þau þurfa að gera allt til að halda lífi, jafnvel þótt það kosti líf annarra og vekur sagan upp ýmsar siðferðilegar spurningar og þá kemur hún inn á vináttu, að treysta á sjálfan sig og að tilveran er ekki alltaf öll sem hún sýnist.

Aðalsöguhetjan er sérlega vel skrifuð persóna, torræð og breysk og í heild er verkið fagurlega skapað þar sem galdrar, framandleiki og dulúð gefa sögunni heillandi blæ.

Randalín, Mundi og afturgöngurnar
eftir Þórdísi Gísladóttur og Þórarin M. Baldursson
Útgefandi: Bjartur

Randalín, Mundi og afturgöngur segir skemmtilega sögu sem börn tengja við og skilja þar sem sagan hefur raunverulega tengingu við líf þeirra og þeirra dagsdaglegu vandamál og verkefni.

Sögusviðið er fullkomlega barnanna og þótt fullorðnir séu síður en svo víðsfjarri í sögunni eru þeir í algjöru aukahlutverki og sá fullorðinsheimur er fullkomlega séð út frá augum barnanna og þeirra málstað; oft á skondinn hátt þar sem til dæmis flökkusögur um kattakjöt á pítsum eru settar í nýtt og skemmtilegt samhengi.

Teikningarnar eru frábærar, setja léttan blæ á söguna og auka á gæði hennar. Uppsetning og letur framkallar eilítið gamaldags stemmingu og kaflafyrirsagnirnar eru afar góð viðbót og vekja eftirvæntingu.
Yfir sögunni er skondinn og léttur tónn og höfundur hefur næmt auga fyrir því eilítið skrýtna og skemmtilega í dagsdaglegu lífi og dregur fram stemningu þar sem lesendur skynja borgarumhverfið með öllum sínum krókum, kimum, ilmi og braki í jólasnjó.

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2016 skipa:

Fagurbókmenntir:

 • Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir, íslenskukennari og málfarsráðgjafi hjá RÚV
 • Salka Guðmundsdóttir, leikskáld og þýðandi
 • Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, bókmenntafræðingur og rithöfundur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

 • Erla Elíasdóttir Völudóttir, þýðandi
 • Erna Magnúsdóttir, líffræðingur
 • Sigurrós Erlingsdóttir, íslenskukennari

Barna- og unglingabókmenntir:

 • Júlía Margrét Alexandersdóttir, blaðamaður
 • Þorbjörg Karlsdóttir, bókasafnsfræðingur
 • Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir, teiknari og hreyfimyndagerðamaður

Tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna 2016, miðvikudaginn 2. desember kl. 17

Velkomin á tilnefningahátíð Fjöruverðlauna – bókmenntaverðlauna kvenna miðvikudaginn 2. desember kl. 17. Hátíðin verður haldin í Borgarbókasafninu í Tryggvagötu.

Dómnefndir tilnefna bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis.

Léttar veitingar í boði.


Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan.  Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna.

Fjöruverðlaunin 2016: Auglýst eftir bókum

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, tilnefna bækur eftir konur til verðlauna í þremur flokkum:

 • fagurbókmenntir
 • fræðibækur og rit almenns eðlis
 • barna og unglingabækur

Skorað er á útgefendur að leggja fram útgáfubækur ársins 2015 í þessa flokka. Þrjú eintök af framlagðri bók þurfa að berast til Benedikts Kristjánssonar á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda sem fyrst.

Hvaða bækur koma til greina?

Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:

 • vera skrifaðar af konu/konum
 • vera skrifaðar á íslensku
 • gefnar út af forlagi á Íslandi
 • koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
 • innihaldi texta af einhverju tagi
 • að kona/konur eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur séu helmingur höfunda (ef margir)

Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.

Hvernig er bók skráð til þátttöku?

Á hverju hausti auglýsa Fjöruverðlaunin eftir skráningum í verðlaunapottinn. Auglýst er á heimasíðu Fjöruverðlaunanna og Fésbókarsíðu þeirra, og hvatning er send til útgefenda á póstlista Félags íslenskra bókaútgefenda.

Útgefendur skrá bækur til þátttöku og ákveða í hvaða flokki þær taka þátt. Það er útgefendum að kostnaðarlausu að setja bækur sínar í pottinn en útgefendur þurfa að gera eftirfarandi:

a) Senda lista yfir allar bækur útgefanda eftir konur, flokk og áætlaðan útgáfutíma þeirra til stjórnar Fjöruverðlaunanna fyrir 1. nóvember.

b) Afhenda þrjú eintök af hverri bók Félagi íslenskra bókaútgefenda sem sér um að dreifa bókunum til dómnefnda.

Aðalfundur samtaka um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna 2015

Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi boða til aðalfundar að Hallveigarstöðum miðvikudaginn 23. september kl. 17. 

Dagskrá fundar eru hefðbundin aðalfundarstörf: 

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Skýrsla stjórnar lögð fram
 3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
 4. Lagabreytingar. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna. 
 5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
 6. Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá.
 7. Kosning skoðunarmanna reikninga 
 8. Önnur mál

Fjöruverðlaunin 2015: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru veitt við hátíðlega athöfn í Höfða 21. janúar 2015. Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:
Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett eftir Elísabetu Jökulsdóttur

Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Ofbeldi á heimili – Með augum barna. Ritstjóri Guðrún Kristinsdóttir

Þetta í níunda skipti sem verðlaunin eru veitt en í fyrsta sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna. Venju samkvæmt fengu verðlaunahafar keramik-egg eftir listakonuna Koggu en að þessu sinni steig frú Vigdís Finnbogadóttir á svið og afhenti verðlaunahöfum gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði.

Rökstuðningur dómnefnda

Frá dómnefnd í flokki fagurbókmennta

Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett eftir Elísabetu Jökulsdóttur
Útgefandi: Elísabet Jökulsdóttir

Lífið er enginn dans á rósum í ljóðabók Elísabetar Kristínar Jökulsóttur, Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett.  Ljóðin lýsa á óvenju opinskáan og einlægan hátt ástarsambandi ljóðmælanda við ofbeldismann og hvernig hún festist í þráhyggju og ástarfíkn.

Þetta er ljóðabálkur í þremur hlutum sem byrjar í tilhugalífinu og endar með skilnaði. Átakanleg en jafnframt fyndin saga sem afhjúpar veikleika beggja aðila í þessu sjúka ástarsambandi. Teikningar höfundar gefa verkinu  kynferðislegan undirtón þar sem píkan er miðlæg uppspretta girndar og kvalar konunnar.  Ljóðmælandi þráir ástina og er haldin ástarfíkn og fær stöðugt viðvörunarmerki um að maðurinn sem hún hefur ákveðið að fá með sína „sambúð hvað sem það kostaði“,  sé ofbeldismaður. Hún ber kennsl á viðvörunarmerkin en hunsar þau og tapar sér í ástarfíkn.

Ljóðmælandi skoðar ferlið úr fjarlægð með írónískum augum, hissa á þvi að hafa ekki losað sig úr þessum ástarfjötrum fyrr og spyr „kannski vissi ég ekki hvar dyrnar voru?“

Frá dómnefnd í flokki barna- og unglingabókmennta

Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur
Útgefandi: Vaka-Helgafell

Bókin er vel skrifuð og skemmtileg, söguþráður frumlegur og listilega fléttaður. Frásagnarstíllinn er ærslafullur og myndrænn og lestrarupplifunin á stundum eins og horft sé á kvikmynd.Frásögnin er margradda og þær segja grípandi sögu sem vekur sterka samlíðan með persónunum.

Helsti styrkur sögunnar er hvernig hún fjallar samskipti kynslóða og dregur upp flóknar sögupersónur af eldri kynslóðinni, persónur sem eru margbrotið og áhugavert fólk. Heimur eldri borgara er gerður merkingarbær og spennandi fyrir ungt fólk og veitt er óvenjuleg innsýn í líf þeirra.

Viðfangsefni sögunnar eru viðkvæm málefni eins og einelti, kvíðaröskun unglinga, ástin og ástarsorgin og er fjallað raunsæislega um þau án þess að bjóða einfaldar lausnir. Átakafletirnir eru ekki settir upp eins og vandamál sem þurfi að sigrast á, heldur sem áskoranir til að lifa með. Enginn stendur uppi sem sigurvegari. Sagan fjallar um það að taka ábyrgð á eigin lífi og sínum nánustu og horfast í augu við sjálfan sig.

Dómnefnd telur að Hafnfirðingabrandarinn hafi alla burði til að verða sígild unglingabók.

Frá dómnefnd í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis

Ofbeldi á heimili – Með augum barna. Ritstjóri Guðrún Kristinsdóttir
Útgefandi: Háskólaútgáfan

Bókin Ofbeldi á heimili með augum barna, er yfirgripsmikil rannsókn á upplifun barna á heimilisofbeldi. Höfundar nálgast efnið frá mörgum sjónarhornum og sýna fræðilegan metnað með því að byggja rannsóknina á breiðum grunni megindlegrar og eigindlegrar aðferðafræði.

Bókin samþættir niðurstöður víðtækrar könnunar á þekkingu barna á heimilisofbeldi, viðtöl við börn og mæður þeirra sem búið hafa við ofbeldi á heimilum, ásamt greiningu á orðræðu fjölmiðla um heimilisofbeldi.

Þetta er frumkvöðlarannsókn sem á sér fáar hliðstæður erlendis og er einstök í íslensku samfélagi, þar sem ofbeldi á heimilum hefur ekki áður verið rannsakað út frá sjónarhóli barna. Áhersla er lögð á börn sem áhrifavalda í eigin lífi, frekar en óvirka þolendur og upplifanir þeirra settar í brennidepil.  Þannig er rofin sú þögn sem hefur ríkt um tilfinningar barna sem verða fórnarlömb ofbeldis á heimilum.

Þetta sjónarhorn gerir verkið einstakt og til þess fallið að vera ómetanlegt innlegg í umræðu um heimilisofbeldi og fyrir áframhaldandi rannsóknir og vinnu á þessu sviði, þar sem velferð barna er höfð að leiðarljósi.

Einnig voru tilnefndar:

Fagurbókmenntir:

Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur
Lóaboratoríum eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur

Barna- og unglingabókmenntir:

Á puttanum með pabba eftir Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur og Völu Þórsdóttur
Vinur minn vindurinn eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

Saga þeirra, sagan mín eftir Helgu Guðrúnu Johnson
Kjaftað um kynlíf eftir Siggu Dögg

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2015 skipa:

Fagurbókmenntir:

Hildur Knútsdóttir, bókmenntafræðingur
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, bókmenntafræðingur og rithöfundur
Guðrún Birna Eiríksdóttir, bókmenntafræðingur og kennari

Barna- og unglingabókmenntir:

Halla Sverrisdóttir, þýðandi
Júlía Margrét Alexandersdóttir, BA í íslensku og blaðamaður
Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir, myndskreytir og kvikari

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur
Erna Magnúsdóttir, líffræðingur
Gréta Sörensen, kennari

Fjöruverðlaunin 2015: Tilnefningar

Mikið fjör var á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur þegar dómnefndir Fjöruverðlaunanna kynntu niðurstöður sínar. Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningu til Fjöruverðlaunanna 2015:

Fagurbókmenntir

Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur Lóaboratoríum, eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett, eftir Elísabetu Jökulsdóttur

Fræðibækur og rit almenns eðlis

Saga þeirra, sagan mín eftir Helgu Guðrúnu Johnson Kjaftað um kynlíf eftir Siggu Dögg Ofbeldi á heimili – Með augum barna. Ritstjóri Guðrún Kristinsdóttir

Barna- og unglingabókmenntir

Á puttanum með pabba eftir Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur og Völu Þórsdóttur Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur Vinur minn vindurinn eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2015 skipa:

Fagurbókmenntir:

Hildur Knútsdóttir, bókmenntafræðingur Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, bókmenntafræðingur og rithöfundur Guðrún Birna Eiríksdóttir, bókmenntafræðingur og kennari

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur Erna Magnúsdóttir, líffræðingur Gréta Sörensen, kennari

Barna- og unglingabækur:

Halla Sverrisdóttir, þýðandi Júlía Margrét Alexandersdóttir, BA í íslensku og blaðamaður Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir, myndskreytir og kvikari

Tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna 2015 – fimmtudaginn 4. desember kl. 17

Velkomin á tilnefningahátíð Fjöruverðlauna – bókmenntaverðlauna kvenna fimmtudaginn 4. desember kl. 17. Hátíðin verður haldin í Borgarbókasafninu í Tryggvagötu.

Dómnefndir tilnefna bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis.

Léttar veitingar í boði.


Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan.  Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna.

Tímamót í starfi Fjöruverðlaunanna

Tímamót áttu sér stað í starfi Fjöruverðlaunanna þegar formlegt félag var stofnað um starfsemina, Fjöruverðlaunin – félag um bókmenntaverðlaun kvenna. Vel var mætt á stofnfundinn sem haldinn var á Hallveigarstöðum fimmtudaginn 23. október en Fjöruverðlaunin hafa verið starfrækt í átta ár af óformlegum grasrótarhópi.

Við stofnun félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna voru tvær helstu upphafskonur og stofnendur verðlaunanna gerðar að heiðursfélögum, það eru þær Ingibjörg Hjartardóttir rithöfundur og Jónína Leósdóttir rithöfundur.

Félagið hefur sömu markmið og hlutverk og fyrirrennarinn, að halda utan um skipulagningu Fjöruverðlaunanna og skipa dómnefndir sem tilnefna til verðlauna í jólabókaflóðinu bækur eftir konur í þremur flokkum, það er að segja fyrir barna- og unglingabækur, fræðibækur og rit almenns eðlis, og fagurbókmenntir.

Einni bók úr hverjum flokki eru veitt verðlaun þegar komin er jólabókafjara  – á Konudaginn við upphaf Góu. Verðlaunaafhendingin er uppskeruhátíð og hefð fyrir því að Fjöruverðlaunin fagni með því að fá til sín erlenda eða innlenda fyrirlesara. Hefur þessi hátíð verið fjölsótt og verið gerður mjög góður rómur að þessu.

Á fundinum var kosin stjórn Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna: Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir bókmenntafræðingur, Erla Hlynsdóttir blaðamaður, Halldóra Sigurdórsdóttir íslenskufræðingur, Unnur Jökulsdóttir rithöfundur og Védís Skarphéðinsdóttir ritstjórnarfulltrúi sem er formaður stjórnar.

Stofnfundur félags um bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi

Verið velkomin á stofnfund Fjöruverðlaunanna – félag um bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi.

Hlutverk félagsins er að halda utan um skipulagningu Fjöruverðlaunanna og stuðla að framgangi þeirra um ókomin ár.

Fundurinn verður haldinn á Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum, Túngötu 14, fimmtudaginn 23. október kl. 17.

Á fundinum mun Jónína Leósdóttir segja frá sögu verðlaunanna, kosið verður um lög félagsins, og kosið verður í stjórn félagsins sem mun sjá um skipulagningu verðlaunanna á næsta ári.

Verið öll velkomin! Kaffi og kökur í boði.

Fjöruverðlaunin 2014: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, árið 2014 voru afhent í Iðnó við hátíðlega athöfn í hádeginu í dag.

Verðlaunin hlutu:

Flokkur barna- og unglingabóka:
Lani Yamamoto fyrir bókina Stínu stórusæng. Útgefandi: Crymogea.

Flokkur fagurbókmennta:
Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir fyrir Stúlka með maga – skáldættarsaga. Útgefandi: JPV

Flokkur fræðibóka og rita almenns eðlis:
Guðný Hallgrímsdóttir fyrir Söguna af Guðrúnu Ketilsdóttur. Útgefandi: Háskólaútgáfan

Hér fyrir neðan má lesa umsagnir dómnefnda.

Stína stórasæng eftir Lani Yamamoto

Myndabækur eru sú gerð bóka sem við tengjum oftast yngstu börnunum, fyrstu bókaupplifuninni. Auðvitað eru samt til myndabækur fyrir ólíka aldurshópa, þótt okkur hér í ríki orðsins hætti oft til að telja myndina óþarfa viðbót þegar fram í sækir. Í góðri myndabók tengjast orð og myndir órjúfanlegum böndum, hvorugt getur án hins verið. Myndabókin er annað og meira en summa tveggja tjáningarforma, því þegar þau vinna vel saman bætist eitthvað nýtt við. Í því samspili getur leynst mikill galdur.

Þegar best lætur hefur góð myndabók fyrir börn líka heilmikið að segja okkur sem eldri erum. Þannig er um þá bók sem við höfum valið í ár sem bestu barnabók ársins 2013. Stína stórasæng er dæmi um frábærlega heppnaðan samruna orða og mynda, innihalds og formgerðar. Litaskali, teiknistíll og vísanir í „blueprint“, eða vinnuteikningar, segja söguna ekki síður en orðin og auðga frásögnina um hana Stínu, gefa henni dýpt og vídd.  Stína er svo hrædd við kuldann að hún notar alla sína orku og ímyndunarafl til að loka sig frá umheiminum í undrasniðugu fangelsi þæginda og einveru. En forvitnin og þráin eftir félagsskap verður óttanum yfirsterkari og Stína nær að nota sköpunarkraftinn til að opna dyrnar, verða þátttakandi í lífinu en ekki bara áhorfandi.

Dómnefnd í flokki barna- og unglingabóka skipuðu:

Líf Magneudóttir B.ed. og meistaranemi í íslensku
Helga Birgisdóttir doktorsnemi í barnabókmenntum
Ragnheiður Gestsdóttir rithöfundur og myndlistarmaður

Stúlka með maga – skáldættarsaga eftir Þórunni Erlu- og Valdimarsdóttur

Í þessari skáldættarsögu leiðir Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir lesendur aftur í tímann og segir af ættingjum sínum og fólki sem þeim tengist. Hún skrifar í orðastað móður sinnar, sem sér lengra en nef hennar nær, bæði fram í tímann og aftur í aldir. Rödd sögukonu er sterk og frumleg, eins og sagan sjálf, hæðin þegar það á við, en líka elsku- og huggunarrík.

Stúlka með maga er nýstárleg bók, þar sem höfundur miðlar bæði sagnfræði og skáldskap á afar persónulegan máta. Um leið og við lesum sögur af lífsbaráttu ættingja Þórunnar, ástum þeirra og örlögum, þá fáum við einnig  góða innsýn í sögu þjóðarinnar.

Það er mikill stráksskapur í textanum og stíllinn er töfrum slunginn. Höfundurinn fjallar um ætt sína af skilningi og ást þess sem veit að hjörtum mannanna svipar saman. Enginn fer í gegnum lífið án þess að upplifa sitthvað fallegt og gott – og, eins og segir í Stúlku með maga: „Enginn sleppur við angist og sviða“. Þórunn sýnir að þótt hverri manneskju sé ef til vill afmörkuð stund, þá  geta pappírar úr járnskápum afkomendanna reynst afar notadrjúgir okkur hinum.“

Dómnefnd í flokki fagurbókmennta skipuðu:

Sigríður Stefánsdóttir þjóðfélagsfræðingur og verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir bókmenntafræðingur og rithöfundur
Guðrún Birna Eiríksdóttir bókmenntafræðingur og kennari

 

Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur. Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu eftir Guðnýju Hallgrímsdóttur

 Bókin er ítarleg útlegging á texta frá 19. öld sem er jafnvel er talinn  elsta varðveitta sjálfsævisaga íslenskrar alþýðukonu.  Textabrotið sjálft er aðeins fjórar blaðsíður í litlu broti og virðist við fyrstu sýn ákaflega sundurlaust. Með þrautseigju hefur Guðný Hallgrímsdóttir safnað saman úr mörgum áttum heimildum um fólk og staði sem koma við sögu. Henni  tekst það sem í byrjun gæti virst ómögulegt: að draga upp nokkuð samfellda mynd af ævi Guðrúnar, umhverfi og samferðamönnum, úr þeim sérkennilega efnivið sem sjálfsævisagan er. Sjálfsævisagan umbreytist úr illskiljanlegu rausi í átakasögu og veitir sjaldgæfa innsýn í líf alþýðukonu á 18.  öld og fyrri hluta þeirrar nítjándu.

Með vinnslu Guðnýjar á ólíkum heimildum tengdum textabrotinu birtist lesandanum frásögn af  skrykkjóttri lífsgöngu í skugga móðuharðinda þar sem Guðrún Ketilsdóttir glímir m.a. við fátækt, ágenga karlmenn og erfiða húsbændur.  Hún upplifir einnig hamingjustundir á flakki sínu í vinnumennsku, m.a. á grasafjalli í Mývatnssveit, og tekst að ávinna sér virðingu fólks með dugnaði og heiðarleika.  Gæfan er hins vegar fallvölt og við heyrum jafnframt hvernig Guðrún missir flest allt frá sér og er sem gömul kona aðeins „skrattans kerlingin hún Guðrún Ketilsdóttir”.

Þáttur kvenna, ekki síst alþýðukvenna, í íslenskri söguritun hefur jafnan verið rýr. Guðný sýnir hvernig hægt er að gera áhugaverða sögu úr heimild sem virðist harla brotakennd og hafði af mörgum fyrri fræðimönnum verið talin lítils virði.

Dómnefnd í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis skipuðu:

Dr. Kristín Loftsdóttir prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands
Dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Birna Lárusdóttir fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands