Fríða Ísberg hlaut Fjöruverðlaunin 2022 fyrir skáldsögu sína Merkingu. Við verðlaunaafhendinguna hélt hún eftirfarandi ræðu:
Kæri borgarstjóri, dómnefnd og góðir gestir,
þann 24. febrúar síðastliðinn, fyrir ellefu dögum, fæddi ég litla konu. Ég var í þrjá sólarhringa að komast upp í tíu í útvíkkun, þar af einn sólarhring uppi á spítala, þegar ég var komin upp í tíu bað ég um mænudeyfingu, sogklukku, tangir, mig langar í bjöllukeisara sagði ég, nei, það langar þig ekki, sagði ljósmóðirin, ég er búin að gefast upp, sagði ég, það er bannað að segja þetta, sagði ljósmóðirin, ég sofnaði milli hríða, dreymdi að ég væri í ikea, allt var rólegt og friðsælt í ikea, svo vaknaði ég á fæðingarstofunni, ekki meira glaðloft fyrir þig, sagði ljósmóðirin, sem hét Jóhanna, og hún kenndi mér að rembast og korter í eitt eftir miðnætti 24. febrúar fæddist litla konan.
Rúmlega tveimur klukkustundum síðar réðust Rússar inn í Úkraínu. Ég og maðurinn minn lágum í rúminu í sængurlegudeildinni, örmagna, ósofin, en átökin voru afstaðin, litla konan var lifandi við hliðina á okkur, annars staðar andaði þessi innrás ofan í hálsmál annarra nýbakaðra mæðra – þær voru líka uppgefnar, ósofnar, klofin á þeim líka klofin, blóðug og bólgin, á stærð við strigaskó, en átökin og óvissan og óöryggið voru rétt að byrja. Stríð og fæðing. Þessi tvö gríðarstóru hreyfiöfl, líf og dauði, uppbygging og eyðilegging, einstaklingar og þjóðir, hið smáa og hið stóra, hið eilífa og hið endanlega. Litla konan fór að kúgast og blánaði, hún gat ekki andað, ég ýtti á hnapp eftir aðstoð, hún gat ekki andað, ég hristi hana til, barnalæknirinn kom, hún gat ekki andað, og loksins, eftir heila eilífð tók hún andköf, loksins, eftir heila eilífð, hún hefur gleypt legvatn, sagði barnalæknirinn, ég skipti á henni í fyrsta skipti, klæddi hana í samfellu í fyrsta skipti, við fórum upp á vökudeild, ég sofnaði í lazy boy stól eftir að hún var komin í eftirlit, þremur klukkustundum síðar fékk ég tölvupóstinn, RE tvípunktur, Merking hlýtur Fjöruverðlaunin í ár. Í átökunum hafði ég gleymt því að ég skrifaði bókmenntir, í miðjum átökum skipta bókmenntir engu máli, ljósmæðrum er sama um bókmenntir, barninu er sama um bókmenntir, hermönnum og sprengjum og skriðdrekum er sama um bókmenntir. Þær verða til síðar. Þær skipta máli síðar, þegar það er andrými til að hugsa, tala um, skilja, setja í samhengi, setja í nýtt samhengi, vinna úr, greiða úr, og skapa úr.
Fyrir mér er Merking fyrst og fremst verk um upplýsingar: hvernig upplýsingar hafa áhrif á afstöðu okkar gagnvart bæði öðru fólki og samfélagslegum málefnum. Hvernig við flokkum, ályktum og fordæmum út frá stereótýpum, hvernig sami hluturinn hefur ólíka merkingu fyrir mismunandi manneskjum eftir því hvaða upplýsingum manneskjan hefur aðgengi að. Og hversu brothættar skoðanir okkar eru. Oft þarf bara eina manneskju með ný rök til þess að okkur snúist hugur, bara einn svip til þess að við hættum að hræðast manneskju og höfum samkennd með henni í staðinn. Síðustu dagar hafa sýnt okkur að til þess að hefja stríð þarf bara einn lítinn karl og bara einn lítinn karl til þess að enda stríð. Daginn eftir, 25. febrúar, fórum við heim með litlu konuna af spítalanum, og seinna um daginn birtist þessi klausa í fréttunum: Nýbakaðar mæður og nýfædd börn á vökudeild leita skjóls í bráðabirgða sprengjubyrgi í kjallara sjúkrahússins í Dnipro, suðausturhluta Úkraínu.
Í miðjum átökum skipta bókmenntir engu máli, í miðjum átökum eru það upplýsingarnar sem skipta máli, það eru þær sem ráða samkennd heimsbyggðarinnar, ráða viðskiptabönnum, mótmælum, afstöðu. En eftir á munu bókmenntirnar skipta máli – við verðum að trúa því – að við munum muna eftir því að bókmenntir séu til og þær gefi okkur ekki hrein og bein svör, heldur spyrji spurninga, fari inn á gráa svæðið, geri hlutina loðna, óræða, geri fólki erfiðara fyrir að mynda sér afstöðu með eða á móti, geri fólki erfiðara fyrir að afskrifa eitthvað sem áróður, fake news, wokeisma eða blindan rétttrúnað, núna þegar mismunandi samfélagshópar, fjölskyldumeðlimir og þjóðir fá mismunandi upplýsingar og leggja mismunandi merkingar í sömu hlutina.
Kærar þakkir fyrir verðlaunin, takk fyrir mig.
Hægt er að sjá upptöku af ræðunni á Vísi.is.