Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár

Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár.

Hægt er að leggja fram bækur eftir konur (sís og trans), trans fólk, kynsegin fólk og intersex fólk.

Þátttökukostnaður er ókeypis, en þremur eintökum þarf að skila inn fyrir dómnefnd.

Hægt er að tilnefna bækur í þremur flokkum:

  • fagurbókmenntir
  • fræðirit og bækur almenns eðlis
  • barna- og unglingabókmenntir

Dómnefndarbókum skal komið á skrifstofu Rithöfundasambands Íslands í allra síðasta lagi föstudaginn 27. október 2023. Ef ekki er unnt að koma prentuðum bókum til skila fyrir þann tíma, er nauðsynlegt að senda rafrænt eintak á  bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir þann dag, svo að bókin komi til greina. Þá þurfa útgefendur að koma þremur prentuðum eintökum af sömu bók á skrifstofu RSÍ fyrir föstudaginn 17. nóvember 2023.

Þrjár bækur eru tilnefndar í hverjum flokki og verða tilnefningar kynntar í desember 2023. Fjöruverðlaunin verða svo veitt 8. mars 2024.

Þremur eintökum af bókum skal skilað til:

Rithöfundasambands Íslands
Gunnarshúsi – Dyngjuvegi 8, 104 Reykjavík
Opið 10:00 – 14:00

Aðeins bækur/handrit sem hafa borist fyrir 27. október koma til greina.

Hvaða bækur koma til greina?

Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:

  • skrifaðar af konu/konum, trans fólki, kynsegin fólki eða intersex fólki
  • frumútgáfa sé á íslensku
  • gefnar út af forlagi á Íslandi
  • koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
  • innihaldi texta af einhverju tagi
  • að kona/konur eða trans/kynsegin/intersex fólk eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur eða eða trans/kynsegin/intersex fólk séu helmingur höfunda (ef margir)
  • Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.

Nánari upplýsingar veitir stjórn Fjöruverðlaunanna í netfanginu bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com.

Kristín Svava Tómasdóttir tekur á móti Fjöruverðlaununum 2023

Kristín Svava Tómasdóttir tók á móti Fjöruverðlaununum 2023 fyrir bók sína Farsótt: Hundrað ár í Þingholtsstræti 25. Við verðlaunaafhendinguna hélt Kristín Svava eftirfarandi ræðu:

Borgarstjóri, dómnefnd, góðir gestir.

Það er mér mikil ánægja að taka á móti Fjöruverðlaununum í ráðhúsi Reykjavíkurborgar fyrir einmitt þessa bók. Fjöruverðlaunin eru femínísk verðlaun og hið femíníska sjónarhorn er mikilvægur þáttur í frásögninni í Farsótt, bók sem fjallar í grunninn ekki síst um sögu Reykjavíkur.

Þegar ég byrjaði að skrifa Farsótt vissi ég að ég vildi skrifa sögu sem má kannski kalla lýðræðislega. Ég vildi skrifa stóra sögu, um hundrað ár í lífi húss, um sögu borgar, velferðarsamfélags, heilbrigðiskerfis; en ég vildi líka skrifa litlar sögur, af hversdagslegum uppákomum og fólki, bæði þeim sem lifðu í samhljómi við samfélag sitt og þeim sem voru úti á jaðrinum. Þetta er saga af sigrum jafnt sem ósigrum; af metnaðarfullri viðleitni við að byggja upp betra samfélag en líka skammtímalausnum og reddingum sem minni reisn var yfir.

Hugmyndin að Farsótt kviknaði á Borgarskjalasafni Reykjavíkur, yfir skjölum um fátækrahjálp bæjarins frá fyrstu áratugum 20. aldar. Bókin varð síðan á endanum að stórum hluta byggð á umfangsmiklum frumheimildum frá Borgarskjalasafni og Þjóðskjalasafni Íslands, þangað sem ég sótti bæði stóru sögurnar og þær litlu. Hún hefði aldrei getað orðið til ef ekki væri fyrir þekkingu, fagmennsku og hjálpsemi fólksins sem þar starfar og vildi allt fyrir mig gera.

Gögnin sem geymd eru á skjalasöfnum eins og Borgarskjalasafninu og Þjóðskjalasafninu eru grunnurinn að sameiginlegri sögu okkar, hvort sem hún einkennist af samstöðu eða átökum, og varðveisla þeirra og aðgengi að þeim er lykilatriði jafnt fyrir fræðimenn, stjórnsýsluna og almenna borgara. Ákvarðanir um framtíð þeirra skyldu ekki teknar að illa ígrunduðu máli. Það er lítil reisn yfir þeim áformum sem nýlega hafa verið gerð opinber að leggja niður Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Það er vissulega ekki lögbundin skylda borgarinnar að halda úti skjalasafni en til eru ýmsar stofnanir sem við myndum ekki vilja missa þótt tilvist þeirra sé ekki bundin í lög, vegna þess að þær skipta máli fyrir samfélagið og söguna og lýðræðið.

Með þeim orðum langar mig, auk þess að þakka dómnefnd Fjöruverðlaunanna heiðurinn, að tileinka þessi verðlaun skjalavörðum landsins, með ást og þakklæti. Takk fyrir mig.

Hægt er að sjá upptöku af ræðunni á Facebook síðu Fjöruverðlaunanna.

Fjöruverðlaunin 2023: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi, voru afhent við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal Ráðhússins þann 8. mars 2023.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta: Urta eftir Gerði Kristnýju (Mál og menning)

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis: Farsótt: Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur (Sögufélagið)

Í flokki barna- og unglingabókmennta: Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur (Mál og menning)

Þetta í sautjánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í níunda sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.

Rökstuðningur dómnefnda

Urta eftir Gerði Kristnýju

Ljóðmælandi Urtu eftir Gerði Kristnýju er kona sem býr við nyrsta haf. Lífsbaráttan er hörð, vetur herja með hafís og kulda. Maðurinn deyr, barn deyr og önnur áföll fylgja en konan og börn hennar gefast aldrei upp. Þau þrauka. Konan hjálpar urtu að kæpa, mörk milli manns og dýrs, menningar og náttúru hverfa í þessari göldróttu bók. Textinn er meitlaður, ljóðin hefðbundin í formi með stuðlum og innrím sem minnir á forna bragarhætti. Það undirstrikar einnig tímaleysi og skírskotun verksins til þeirrar stöðugu lífsbaráttu sem er hlutskipti manna og dýra.

Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur

Á horni Þingholtsstrætis og Spítalastígs stendur yfir aldargamalt, tveggja hæða timburhús með viðburðaríka sögu; fyrsta sjúkrahús Reykvíkinga, farsóttarspítali, geðsjúkrahús og gistiskýli fyrir heimilislausa. Í dag er það mannautt og ber dulúðlegt nafn með rentu. Í Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 rekur Kristín Svava Tómasdóttir sögu þessa merka húss, sem umfram allt er litrík saga fólksins sem húsið hýsti og samfélagsins sem skóp það.

Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur

Í Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur er hinn ungi Álfur fimleikastrákur aðalsöguhetjan og sögumaðurinn. Eftir því sem frásögn hans vindur fram kemur í ljós að sjónarhorn Álfs er ekki mjög áreiðanlegt enda neitar hann að horfast í augu við að litli bróðir hans sé einhverfur, að frænka hans eigi við fíknivanda að etja og að besti vinur hans sé lesblindur. Höfundur leikur fimlega á allan tilfinningaskalann og teflir fram sögumanni sem eignast hugi og hjörtu lesenda á öllum aldri. Sagan er í senn áhrifamikil, skemmtileg og spennandi en fyrst og fremst full af hlýju og mennsku.

Í dómnefndum sátu:

Fagurbókmenntir:
Dagný Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur
Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur
Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sagnfræðingur
Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
Sigrún Helga Lund, tölfræðingur

Barna- og unglingabókmenntir:
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku
Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
Guðlaug Richter, íslenskufræðingur

Fjöruverðlaunin 2023: Tilnefningar

Mikið var um dýrðir á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur 5. desember 2022 þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

  • Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur: Kollhnís
  • Bronsharpan eftir Kristínu Björg Sigurvinsdóttur
  • Héragerði. Ævintýri um súkkulaði og kátínu eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur 

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

  • Á sporbaug. Nýyrði Jónasar Hallgrímssonar eftir Önnu Sigríði Þráinsdóttur og Elínu Elísabetu Einarsdóttur
  • Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur
  • Vegabréf: Íslenskt. Frá Afganistan til Bosníu og Búrkína Fasó eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur

Í flokki fagurbókmennta:

  • Eden eftir Auði Övu Ólafsdóttur
  • Urta eftir Gerði Kristnýju
  • Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur

Rökstuðningur dómnefnda

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur

Kollhnís – Forlagið bókabúðÍ Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur er hinn ungi Álfur fimleikastrákur aðalsöguhetjan og sögumaðurinn. Eftir því sem frásögn hans vindur fram kemur í ljós að sjónarhorn Álfs er ekki mjög áreiðanlegt enda neitar hann að horfast í augu við að litli bróðir hans sé einhverfur, að frænka hans eigi við fíknivanda að etja og að besti vinur hans sé lesblindur. Höfundur leikur fimlega á allan tilfinningaskalann og teflir fram sögumanni sem eignast hugi og hjörtu lesenda á öllum aldri. Sagan er í senn áhrifamikil, skemmtileg og spennandi en fyrst og fremst full af hlýju og mennsku.

Bronsharpan eftir Kristínu Björg Sigurvinsdóttur           

Dulstafir: Bronsharpan – Forlagið bókabúð

Bronsharpan er önnur bókin í bókaflokknum Dulstafir eftir Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur. Sagan gerist í ókunnum heimi þangað sem nokkur ungmenni hafa verið kölluð til að bjarga honum frá tortímingu. Þau eru gæslumenn grunnefna jarðarinnar og gædd sérstökum kröftum. Samvinna ungmennanna og samskipti kynjanna litast af því að í raunheimum lifa þau á ólíkum tímum og þau hafa ólíka hæfileika. Togstreitan sem verður til þegar þau þurfa að stilla saman strengi sína dýpkar persónulýsinguna og dregur fram ólíka skapgerð þeirra. Sagan er margræð og spennandi fantasía um baráttu góðs og ills en ekki síst um gildi vináttu og samstöðu.

Héragerði. Ævintýri um súkkulaði og kátínu eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur        

Héragerði – Forlagið bókabúðHéragerði eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur er sjálfstætt framhald Grísafjarðar sem kom út í fyrra og hefur undirtitilinn Ævintýri um súkkulaði og kátínu. Tvíburarnir Inga og Baldur kynnast móðurömmu sinni og eyða páskafríinu með henni í Héragerði. Þar gerast margvísleg ævintýri og þau eignast nýja vini. Höfundi tekst vel að draga upp mismunandi persónuleika tvíburanna sem gerir söguna dýpri og auðveldar mismunandi lesendum að samsama sig söguhetjunum. Sagan er bráðskemmtileg og fyndin og þar leika líflegar og litríkar myndir Lóu Hlínar stórt hlutverk.

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

Á sporbaug. Nýyrði Jónasar Hallgrímssonar eftir Önnu Sigríði Þráinsdóttur og Elínu Elísabetu Einarsdóttur     

Á sporbaug: nýyrði Jónasar Hallgrímssonar – Forlagið bókabúðÞær Anna Sigríður Þráinsdóttir og Elín Elísabet Einarsdóttir vinna sannkallað þrekvirki við kortlagningu nýyrða þjóðskáldsins og þýðandans Jónasar Hallgrímssonar. Í bókinni Á sporbaug. Nýyrði Jónasar Hallgrímssonar fá lesendur að kynnast uppruna orðanna og notkun þeirra í dag. Orðasveimur Jónasar fylgir okkur í daglegu máli, ræðu og riti án þess að við veitum því minnstu athygli enda hluti almenns orðaforða íslenskrar tungu. Bókin er einstaklega vel unnin, eiguleg og mikill fengur fyrir öll sem unna íslenskri tungu.

Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur       

Farsótt Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 | Penninn EymundssonÁ horni Þingholtsstrætis og Spítalastígs stendur yfir aldargamalt, tveggja hæða timburhús með viðburðaríka sögu; fyrsta sjúkrahús Reykvíkinga, farsóttarspítali, geðsjúkrahús og gistiskýli fyrir heimilislausa. Í dag er það mannautt og ber dulúðlegt nafn með rentu. Í Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 rekur Kristín Svava Tómasdóttir sögu þessa merka húss, sem umfram allt er litrík saga fólksins sem húsið hýsti og samfélagsins sem skóp það.

Vegabréf: Íslenskt. Frá Afganistan til Bosníu og Búrkína Fasó. eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur            

Vegabréf íslenskt. Frá Afganistan til Bosníu og Búrkína Fasó | Penninn EymundssonSigríður Víðis Jónsdóttir býður lesandanum að slást í för með sér vítt og breitt um heiminn. Vegabréf: Íslenskt. Frá Afganistan til Bosníu og Búrkína Fasó er einlæg og nærgætin frásögn frá ferðalögum hennar til svæða sem bera djúp ör einræðisstjórna og hernaðarátaka. Sögumaður leggur sig fram við að kynna og kanna hugarheim heimafólks og þannig fær lesandinn að kynnast heimssögunni fjarri söguskoðun innlendra valdhafa og vestrænna fréttamiðla.

Í flokki fagurbókmennta:

Eden eftir Auði Övu Ólafsdóttur            

Eden | Penninn EymundssonEden eftir Auði Övu Ólafsdóttur fjallar um málvísindakonu og háskólakennara sem kaupir sér sumarhús nálægt ótilgreindu þorpi til að búa sér persónulegt athvarf. Það reynist erfitt að einangra sig, ástsjúkt ungskáld herjar á hana og þorpsbúar vilja virkja krafta hennar á marga ólíka vegu. Og nú ber hún líka ábyrgð á jarðarskika. Bókin er full af hlýrri íroníu og gagnrýni á þá sem svæfa samvisku sína og ganga burt frá því sem þeim hefur verið trúað fyrir.

Urta eftir Gerði Kristnýju

Urta – Forlagið bókabúðUrta eftir Gerði Kristnýju er ljóðabálkur um líf konu á mörkum hins byggilega heims við norðurskaut. Ljóðin lýsa heimi þar sem eins dauði er annars brauð. Þrátt fyrir miskunnarleysið tengir þráður samkenndar og samstöðu mæður sem hunsa mörkin milli manns og dýrs, menningar og náttúru. Urta er ort af fágætri stílsnilld. Hún er fágað, lágmælt listaverk, ljóðabálkur sem rúmar bæði dýptir og víddir.

Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur   

Tól by Kristín EiríksdóttirTól eftir Kristínu Eiríksdóttir segir sögu kvikmyndagerðarkonu, sem vinnur að heimildarmynd um ógæfumann sem hún eitt sinn þekkti. Eftir því sem verkinu miðar fram verður saga hennar stríðari, nærgöngulli og margþættari. Hún er krafin um afstöðu til persónanna í myndinni en vitandi að„sögur eru vopn“ neitar hún að útdeila sekt og sakleysi og nota þau tól sem tiltæk eru gegn sínum minnsta bróður. Djúphugsað og margslungið skáldverk í samtali sínu við samvisku og samkennd.

Eftirfarandi konur sitja í dómnefnd Fjöruverðlaunanna 2023:

Barna- og unglingabókmenntir:
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku
Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
Guðlaug Richter, íslenskufræðingur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sagnfræðingur
Sigrún Helga Lund, tölfræðingur
Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari

Fagurbókmenntir:
Dagný Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur
Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur
Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur

Tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna 5. desember kl. 17:00

Velkomin á tilnefningahátíð Fjöruverðlauna – bókmenntaverðlauna kvenna mánudaginn 5. desember kl. 17. Hátíðin verður haldin í Borgarbókasafninu í Grófinni við Tryggvagötu.

Dómnefndir tilnefna bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis.

Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna (sís og trans), trans fólks, kynsegin fólks og intersex fólks.

Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár

Fjöruverðlaunin auglýsa eftir tilnefningum í ár.

Hægt er að leggja fram bækur eftir konur (sís og trans), trans fólk, kynsegin fólk og intersex fólk.

Þátttökukostnaður er ókeypis, en þremur eintökum þarf að skila inn fyrir dómnefnd.

Hægt er að tilnefna bækur í þremur flokkum:

  • fagurbókmenntir
  • fræðirit og bækur almenns eðlis
  • barna- og unglingabókmenntir

Dómnefndarbókum skal komið á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda í allra síðasta lagi föstudaginn 21. október 2022. Ef ekki er unnt að koma prentuðum bókum til skila fyrir þann tíma, er nauðsynlegt að senda rafrænt eintak á  bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir þann dag, svo að bókin komi til greina. Þá þurfa útgefendur að koma þremur prentuðum eintökum af sömu bók á skrifstofu FÍBÚT fyrir föstudaginn 18. nóvember 2022.

Aðeins bækur/handrit sem hafa borist fyrir 21. október koma til greina.

Þrjár bækur eru tilnefndar í hverjum flokki og verða tilnefningar kynntar í desember 2022. Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi, verða svo veitt 8. mars 2023.

Hvaða bækur koma til greina?

Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:

  • skrifaðar af konu/konum, trans fólki, kynsegin fólki eða intersex fólki
  • frumútgáfa sé á íslensku
  • gefnar út af forlagi á Íslandi
  • koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
  • innihaldi texta af einhverju tagi
  • að kona/konur eða trans/kynsegin/intersex fólk eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur eða eða trans/kynsegin/intersex fólk séu helmingur höfunda (ef margir)

Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 2022

Aðalfundur félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi er haldinn miðvikudaginn 5. október kl. 19:00. Fundurinn er haldinn á rafrænum vettvangi, í gegnum Zoom fjarfundarbúnaðinn.

Til þess að taka þátt í rafrænum aðalfundi er nauðsynlegt að skrá netfang sitt. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku, hér.  

Í vikunni barst félagsfólki krafa í heimabanka fyrir félagsgjöldum Fjöruverðlaunanna, 2.000 kr. Við hvetjum félagsfólk allt til að greiða árgjöldin og leggja þar með sitt af mörkum til að tryggja framgang Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi!

Dagskrá fundar

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 21. september) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. (Liður fellur niður þar sem kjörtímabil núverandi stjórnar stendur enn yfir)
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir taka á móti Fjöruverðlaununum 2022

Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir tóku á móti Fjöruverðlaununum 2022 fyrir bók sína Reykjavík barnanna. Við verðlaunaafhendinguna hélt Margrét eftirfarandi ræðu:

Kæri borgarstjóri (uppáhalds borgarinnar okkar), dómnefnd og gestir,

Við þökkum þann heiður að hljóta þessi verðlaun fyrir óskabarnið okkar, bókina Reykjavík barnanna.

Við trúum því að sögur skipti máli. Með þeim tökumst við á við tilveruna; hver við erum, hvaðan við komum og hvert við stefnum. Heimurinn er blessunarlega fullur af sögum og þær eru allavega. En það eru sögurnar okkar og sögurnar um okkur sem standa okkur næst. Ekki af því að þær séu betri en aðrar heldur einfaldlega vegna þess að þær eru um okkur.

Íslensk börn upplifa ótal sögur á hverjum degi. Þær koma til þeirra í formi brandara á skólalóðinni, slúðurs og skoðanaskipta, auglýsinga, texta amerískra rappara, myndbanda á tiktok og youtube, tölvuleikja, sjónvarpsefnis, frétta og auðvitað bóka. Aðeins brot af þessum sögum er á íslensku og enn minna hlutfall fjallar um lífið okkar hér á þessu skrítna skeri. Við munum aldrei geta fyllt youtube af íslensku efni eða framleitt endalausa tölvuleiki á íslensku en við getum búið til miklu fleiri góðar íslenskar barnabækur og það sem er ekki síður mikilvægt; Komið þeim til enn fleiri barna. Til þess þurfa höfundarnir stuðning, og ekki bara höfundar textans heldur höfundar myndanna líka. Þær eru síst minni frásögn en orðin og myndheimur ferðast með öðrum hætti á milli menningarheima en textinn. Það skiptir máli að sögurnar um okkur sýni ungum lesendum líka umhverfi sem þeir kannist við sem sitt eigið.

Þess vegna eru þessi verðlaun svo mikilvæg hvatning. Kærar þakkir fyrir okkur.

Fríða Ísberg tekur á móti Fjöruverðlaununum 2022

Fríða Ísberg hlaut Fjöruverðlaunin 2022 fyrir skáldsögu sína Merkingu. Við verðlaunaafhendinguna hélt hún eftirfarandi ræðu:

Kæri borgarstjóri, dómnefnd og góðir gestir,

þann 24. febrúar síðastliðinn, fyrir ellefu dögum, fæddi ég litla konu. Ég var í þrjá sólarhringa að komast upp í tíu í útvíkkun, þar af einn sólarhring uppi á spítala, þegar ég var komin upp í tíu bað ég um mænudeyfingu, sogklukku, tangir, mig langar í bjöllukeisara sagði ég, nei, það langar þig ekki, sagði ljósmóðirin, ég er búin að gefast upp, sagði ég, það er bannað að segja þetta, sagði ljósmóðirin, ég sofnaði milli hríða, dreymdi að ég væri í ikea, allt var rólegt og friðsælt í ikea, svo vaknaði ég á fæðingarstofunni, ekki meira glaðloft fyrir þig, sagði ljósmóðirin, sem hét Jóhanna, og hún kenndi mér að rembast og korter í eitt eftir miðnætti 24. febrúar fæddist litla konan.

Rúmlega tveimur klukkustundum síðar réðust Rússar inn í Úkraínu. Ég og maðurinn minn lágum í rúminu í sængurlegudeildinni, örmagna, ósofin, en átökin voru afstaðin, litla konan var lifandi við hliðina á okkur, annars staðar andaði þessi innrás ofan í hálsmál annarra nýbakaðra mæðra – þær voru líka uppgefnar, ósofnar, klofin á þeim líka klofin, blóðug og bólgin, á stærð við strigaskó, en átökin og óvissan og óöryggið voru rétt að byrja. Stríð og fæðing. Þessi tvö gríðarstóru hreyfiöfl, líf og dauði, uppbygging og eyðilegging, einstaklingar og þjóðir, hið smáa og hið stóra, hið eilífa og hið endanlega. Litla konan fór að kúgast og blánaði, hún gat ekki andað, ég ýtti á hnapp eftir aðstoð, hún gat ekki andað, ég hristi hana til, barnalæknirinn kom, hún gat ekki andað, og loksins, eftir heila eilífð tók hún andköf, loksins, eftir heila eilífð, hún hefur gleypt legvatn, sagði barnalæknirinn, ég skipti á henni í fyrsta skipti, klæddi hana í samfellu í fyrsta skipti, við fórum upp á vökudeild, ég sofnaði í lazy boy stól eftir að hún var komin í eftirlit, þremur klukkustundum síðar fékk ég tölvupóstinn, RE tvípunktur, Merking hlýtur Fjöruverðlaunin í ár. Í átökunum hafði ég gleymt því að ég skrifaði bókmenntir, í miðjum átökum skipta bókmenntir engu máli, ljósmæðrum er sama um bókmenntir, barninu er sama um bókmenntir, hermönnum og sprengjum og skriðdrekum er sama um bókmenntir. Þær verða til síðar. Þær skipta máli síðar, þegar það er andrými til að hugsa, tala um, skilja, setja í samhengi, setja í nýtt samhengi, vinna úr, greiða úr, og skapa úr.

Fyrir mér er Merking fyrst og fremst verk um upplýsingar: hvernig upplýsingar hafa áhrif á afstöðu okkar gagnvart bæði öðru fólki og samfélagslegum málefnum. Hvernig við flokkum, ályktum og fordæmum út frá stereótýpum, hvernig sami hluturinn hefur ólíka merkingu fyrir mismunandi manneskjum eftir því hvaða upplýsingum manneskjan hefur aðgengi að. Og hversu brothættar skoðanir okkar eru. Oft þarf bara eina manneskju með ný rök til þess að okkur snúist hugur, bara einn svip til þess að við hættum að hræðast manneskju og höfum samkennd með henni í staðinn. Síðustu dagar hafa sýnt okkur að til þess að hefja stríð þarf bara einn lítinn karl og bara einn lítinn karl til þess að enda stríð. Daginn eftir, 25. febrúar, fórum við heim með litlu konuna af spítalanum, og seinna um daginn birtist þessi klausa í fréttunum: Nýbakaðar mæður og nýfædd börn á vökudeild leita skjóls í bráðabirgða sprengjubyrgi í kjallara sjúkrahússins í Dnipro, suðausturhluta Úkraínu.

Í miðjum átökum skipta bókmenntir engu máli, í miðjum átökum eru það upplýsingarnar sem skipta máli, það eru þær sem ráða samkennd heimsbyggðarinnar, ráða viðskiptabönnum, mótmælum, afstöðu. En eftir á munu bókmenntirnar skipta máli – við verðum að trúa því – að við munum muna eftir því að bókmenntir séu til og þær gefi okkur ekki hrein og bein svör, heldur spyrji spurninga, fari inn á gráa svæðið, geri hlutina loðna, óræða, geri fólki erfiðara fyrir að mynda sér afstöðu með eða á móti, geri fólki erfiðara fyrir að afskrifa eitthvað sem áróður, fake news, wokeisma eða blindan rétttrúnað, núna þegar mismunandi samfélagshópar, fjölskyldumeðlimir og þjóðir fá mismunandi upplýsingar og leggja mismunandi merkingar í sömu hlutina.

Kærar þakkir fyrir verðlaunin, takk fyrir mig.

Hægt er að sjá upptöku af ræðunni á Vísi.is.

Fjöruverðlaunin 2022: Verðlaunahafar

Verðlaunahafar Fjöruverðlauna 2022. Ljósmyndari: Róbert Reynisson.

Fjöruverðlaunin,  bókmenntaverðlaun kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi, voru afhent við hátíðlega athöfn þann 7. mars 2022.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta: Merking eftir Fríðu Ísberg (Mál og menning)

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis: Sigurður Þórarinsson, mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur (Náttúruminjasafn Íslands)

Í flokki barna- og unglingabókmennta: Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur (Iðunn)

Þetta í sextánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í áttunda sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.

Rökstuðningur dómnefnda

Merking eftir Fríðu Ísberg

Merking eftir Fríðu Ísberg kallast skýrt á við íslenskan samtíma þó að sagan sé vísindaskáldsaga sem gerist í framtíðinni. Ólíkum persónum er fylgt eftir þar sem sögur þeirra fléttast saman í frásögn sem gefur ekkert eftir í heimspekilegri skoðun sinni á samfélagi okkar. Sagan er frumleg og stíllinn nýskapandi og notkun tungumálsins einkar úthugsuð og áhrifarík og styður við heildstæða persónusköpun verksins.

Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur

Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur fjallar um ævi og starf eins merkasta vísindamanns Íslands á 20. öld. Saga Sigurðar er samofin sögu jarðfræðirannsókna, jöklaferða og náttúruverndar á Íslandi. Höfundur fer með lesandann í heillandi ferðalag upp á jökla, í gegnum öskulög og inn í kvikuhólf í fylgd með vísindamanninum, söngvaskáldinu og náttúruverndarsinnanum Sigurði. Bókina prýðir aragrúi mynda sem glæða frásögnina lífi og dýpka skilning á efninu.

Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur

Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur fjallar um sögu Reykjavíkur frá því fyrir landnám til vorra daga. Bókin er ríkulega myndskreytt og er hver opna afmörkuð innsýn í sögu borgarinnar. Höfundar draga fram fjölbreyttan fróðleik og gera skil á skemmtilegan hátt í góðu jafnvægi texta og mynda. Texti Margrétar er hnitmiðaður í auðlesnum efnisgreinum og myndir Lindu eru litríkar og bæta ýmsu við. Bókin vekur löngun til að fræðast meira um höfuðborgina.

 

Í dómnefndum sátu:

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku
  • Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
  • Hildur Ýr Ísberg, íslensku- og bókmenntafræðingur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sagnfræðingur
  • Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
  • Sigrún Helga Lund, tölfræðingur

Fagurbókmenntir:

  • Dagný Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur
  • Elín Björk Jóhannsdóttir, bókmenntafræðingur
  • Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur