Fjöruverðlaunin 2024: Tilnefningar

Mikið var um dýrðir á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur 5. desember 2023 þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna og kvára á Íslandi.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

  • Hrím eftir Hildi Knútsdóttur
  • Ég þori! Ég get! Ég vil! eftir Lindu Ólafsdóttur
  • Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina eftir Margréti Tryggvadóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

  • Kynlegt stríð, ástandið í nýju ljósi eftir Báru Baldursdóttur
  • Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson, ritstjóri Lilja Árnadóttir
  • Andlit til sýnis: Íslendingar og aðrir á Kanarísafninu eftir Kristínu Loftsdóttur

Í flokki fagurbókmennta:

  • Fegurðin í flæðinu eftir Ester Hilmarsdóttur
  • Móðurást: Oddný eftir Kristínu Ómarsdóttur
  • Ævintýrið eftir Vigdísi Grímsdóttur

Rökstuðningur dómnefnda

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

Hrím eftir Hildi Knútsdóttur

Hrím er fantasía sem gerist á kunnuglegu en þó framandi Íslandi og er saga um náttúruna, manneskjurnar, ástina og örlögin sem aldrei eru vís. Á hugvitsamlegan og næman hátt segir Hildur Knútsdóttir sögu Jófríðar, unglingsstúlku sem tekst á við áskoranir unglingsáranna ásamt því að þurfa að axla óbærilega þunga ábyrgð þegar framtíð fólksins hennar hvílir skyndilega á henni. Hrím er hörkuspennandi og stundum ógnvekjandi skáldsaga sem ómögulegt er að leggja frá sér.

Ég þori! Ég get! Ég vil! eftir Lindu Ólafsdóttur

Barátta íslenskra kvenna fyrir auknu jafnrétti hefur ratað á bók sem ætluð er börnum, Ég þori! Ég get! Ég vil! Höfundur mynda og texta er Linda Ólafsdóttir. Sagan er sögð með heillandi og merkingarþrungnum myndum og texta þar sem móðir rifjar upp og dóttir spyr spurninga. Frásögn af kvennafrídeginum 1975 kallast á við 24. október þessa árs og sýnir að enn þarf að berjast. Fallegt verk með skemmtilegum myndum og stuttum, hnitmiðuðum texta sem bæði uppfræðir og skemmtir.

Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina eftir Margréti Tryggvadóttur

Í bókinni Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina fjallar Margrét Tryggvadóttir um listafólkið sem lagði grunn að íslenskri listasögu. Að auki greinir hún í stuttu máli frá ýmsum aðferðum sem notaðar eru við listsköpun. Bókin er einstaklega vel unnin, umbrotið vandað, myndirnar vel valdar og textinn á fallegu máli. Hér er á ferðinni sannkallað listaverk sem er um leið mjög fróðlegt og vekur áhuga á listum.

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

Kynlegt stríð, ástandið í nýju ljósi eftir Báru Baldursdóttur

Það er draumur að vera með dáta var sungið í eina tíð en bókin Kynlegt stríð, ástandið í nýju ljósi eftir Báru Baldursdóttur dregur fram nöturlegar staðreyndir ástandsins svonefnda; persónunjósnir, niðurlægingu og ofbeldi gagnvart þeim konum sem talið var að væru í tygjum við hermenn. Stuðst er við áður ónýttar heimildir og tímabilið brotið til mergjar. Hér er drusluskömm skilað til föðurhúsa og gerð viðeigandi skil á afar aðgengilegan, skipulagðan og skýran hátt.

 

Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson, ritstjóri Lilja Árnadóttir

Hin merka saga íslenskra refilsaumsverka birtist loks lesendum í stórvirkinu Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson. Líkt og umfjöllunarefnið er bókin fögur, kaflarnir yfirgripsmiklir, aðgengilegir lesendum og vekja áhuga á rannsóknarefninu. Þá er framsetning ritstjóra bókarinnar áhrifamikil en greinum fræðimanna er ofið inn í heildartextann á hátt sem undirstrikar áhrif ævistarfs Elsu E. Guðjónsson á alþjóðlegan fræðaheim.

 

Andlit til sýnis: Íslendingar og aðrir á Kanarísafninu eftir Kristínu Loftsdóttur

Í bók sinni Andlit til sýnis: Íslendingar og aðrir í Kanarísafninu leiðir Kristín Loftsdóttir okkur um grimmilega sögu kynþáttahyggju á upplýsandi og áhugaverðan hátt. Sjónarhorn frásagnarinnar gefur lesandanum nýja sýn á aldagamalt valdakerfi og teflir fram raunverulegum persónum sem viðfangi vísinda. Hið persónulega verður pólitískt. Bókin sem byggir á umfangsmikilli rannsóknarvinnu, er afar vönduð, ríkulega myndskreytt og á erindi við alla fróðleiksfúsa.

Í flokki fagurbókmennta:

Fegurðin í flæðinu eftir Ester Hilmarsdóttur

Ljóðabók Esterar er hennar fyrsta verk en á því er enginn byrjendabragur. Ljóðin hverfast öll um blæðingar leghafa og nálgast þær á afar hugvitssamlegan hátt. Þau geyma gjarnan óvænt líkingamál og myndrænar lýsingar á þessari mánaðarlegu egglosun sem ýmist vekur skömm, létti eða sár vonbrigði. Auk þessa prýða bókina teikningar sem hæfa mjög efninu. Þar eru dregnar upp útlínur kvenlíkamans með einföldum en áhrifaríkum hætti þar sem eini liturinn er rautt, vatnslitað blóðið.

Móðurást: Oddný eftir Kristínu Ómarsdóttur

Kristín segir hér skáldaða sögu langömmu sinnar, Oddnýjar Þorleifsdóttur. Hún elst upp í stórum systkinahópi í uppsveitum Árnessýslu um miðja nítjándu öldina og segir söguna frá sjónarhóli barnsins. Lífið er sannarlega ekki auðvelt hjá fjölskyldunni en bókin er uppfull af húmor og gefur lesandanum nýja og ferska sýn á fortíðina. Sorgir og dauðinn eru eilíflega nærri en lífið er stærra og meira. Ákaflega fallegur og ljúfsár texti sem færir okkur nær formæðrum okkar.

Ævintýrið eftir Vigdísi Grímsdóttur 

Með aðferðum ævintýrisins segir Vigdís okkur sögu um vináttu drengs og fisks sem getur breytt sér í manneskju (fisklyktin leynir sér þó ekki). Drengirnir leiða okkur um samfélag fátæktar, kúgunar, ofbeldis og einræðis. Hér er ekki allt sem sýnist því sagan er hápólitísk í umfjöllun sinni um börn sem búa í ógnarsamfélagi. Hún kallast á við nútíma okkar þar sem þúsundir barna búa við hörmulegar aðstæður. Texti Vigdísar er heillandi um leið og hann spyr áleitinna spurninga.

 

Eftirfarandi konur sitja í dómnefnd Fjöruverðlaunanna 2024:

Barna- og unglingabókmenntir:
Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
Guðlaug Richter, íslenskufræðingur
Helga Birgisdóttir, lektor í íslensku

Fræðibækur og rit almenns eðlis:
Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisfræðingur
Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor í bókmenntafræði

Fagurbókmenntir:
Jóna Guðbjörg Torfadóttir, framhaldsskólakennari
Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur
Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur