Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunanna var haldinn 19. september 2018.
Farið var yfir starfið framundan. Á árinu stendur til að afhenda öll gögn Fjöruverðlaunanna til Kvennasögusafns Íslands og vinna betur í vefsíðu félagsins, birta þar t.d. upplýsingar um allar bækur sem tilnefndar hafa verið til Fjöruverðlaunanna til að auka sýnileika rithöfundanna og gefa út sérstaka útgáfu vefsíðunnar á ensku.
Nýtt merki Fjöruverðlaunanna sem hannað var af Erlu Gerði Viðarsdóttur var kynnt fundargestum og sagt frá veglegri gjöf listakonunnar Koggu sem hefur ákveðið að styrkja verðlaunin árlega með því að gefa vinnu sína og efniskostnað við gerð verðlaunagripa.
Fákvennt en góðkvennt var á fundinum og spruttu upp fjörugar umræður um sýnileika verðlaunanna, nýja löggjöf um persónuvernd og hvað hún þýðir fyrir starfsemi félagsins, framtíðarfjármögnun og gildi verðlaunanna fyrir konur á Íslandi og íslenskar bókmenntir.
Einnig komu til umræðu nýstofnuð bókmenntaverðlaun kvenna í Ástralíu, Stella Prize, sem bætast við flóru bókmenntaverðlauna kvenna í heiminum, en svo best við vitum eru aðeins fyrir Fjöruverðlaunin á Íslandi og Women’s Prize for Fiction í Bretlandi.
Sjálfa var tekin af fundargestum, en hún hvarf í svarthol hins stafræna heims, þ.e. formaður strokaði hana óvart út! Svo í staðinn birtum við með þessari frétt glæsilegt málverk franska málarans Jean-Baptiste-Camille Corot af ungri stúlku að lesa frá árinu 1868. Konur redda sér 😉