Fjöruverðlaunin bjóða til Bókahátíðar laugardaginn 12. desember í Hannesarholti við Grundarstíg í Reykjavík milli klukkan 13 og 15.
Höfundar þeirra bóka sem tilnefndar eru til Fjöruverðlaunanna 2016 koma saman, kynna sig og lesa úr bókum sínum. Hver höfundur kynnir einnig stuttlega tilurð bókarinnar. Þetta verður notaleg bókastemning og svigrúm fyrir spurningar og spjall. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir, og aðgangur er ókeypis.
Við mælum sérstaklega með því að fólk fái sér göngutúr í miðbæ Reykjavíkur fyrir hátíðina sem skartar nú sínu fegursta í jólamánuðinum og er orðin fagurlega skreytt. Eftir Bókahátíðina er síðan tilvalið að setjast niður í veitingasal Hannesarholts, fá sér heitan kaffisopa og kökusneið, en Gestgjafinn valdi súkkulaðikökuna þar þá bestu í borginni í nóvemberheftinu.
Níu bækur eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna, í þremur flokkum, og var tilkynnt um tilnefningar við hátíðlega athöfn í Borgarbókarsafninu í Kvosinni þann 2. desember.
Tilnefndar bækur eru:
Barna- og unglingabókmenntir
- Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur
- Koparborgin eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur
- Randalín, Mundi og afturgöngurnar eftir Þórdísi Gísladóttur og Þórarin M. Baldursson
Fagurbókmenntir
- Humátt eftir Guðrúnu Hannesdóttur
- Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen
- Mörk eftir Þóru Karítas Árnadóttur
Fræðibækur og rit almenns eðlis
- Rof – Frásagnir kvenna af fóstureyðingum eftir Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunni Rögnvaldsdóttur
- Ástin, drekinn og dauðinn eftir Vilborgu Davíðsdóttur
- Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld eftir Þórunni Sigurðardóttur