Baileys-verðlaunin

Baileys-kvennabókmenntaverðlaunin eru systurverðlaun og fyrirmynd Fjöruverðlaunanna. Þau veitt árlega fyrir þá skáldsögu eftir konu sem þykir skara framúr á heimsvísu. Þjóðerni höfundar skiptir engu máli en skáldsagan þarf að vera skrifuð á ensku og koma út á prenti í Bretlandi. Þýðingar eru ekki gjaldgengar.

Ástæða þess að kvennabókmenntaverðlaununum var komið á legg í Bretlandi var sú að hópi blaðamanna, gagnrýnenda, útgefenda, starfsfólks bókasafna og bókabúða – af báðum kynjum – var misboðið þegar tilnefningar til Booker-bókmenntaverðlaunanna voru tilkynntar árið 1991 og á listanum var engin kona. Á þeim tíma voru hlutföll útgefinna bóka á ensku 60/40, konum í hag, en engu að síður virtust flest virtustu bókmenntaverðlaunin líta að mestu leyti framhjá kvenrithöfundum. Hópurinn ákvað að láta á það reyna hvort sérstök kvennabókmenntaverðlaun myndu hafa áhrif á bókmenntalandslagið og breyta viðhorfi til bókmennta eftir konur.

Árið 1995 náði hópurinn styrktarsamningi við Orange farsímafyrirtækið  og Orange-kvennabókmenntaverðlaunin voru veitt í fyrsta skipti árið 1996. Samstarfið við Orange var farsælt og hélst til ársins 2012. Árið 2013 voru verðlaunin veitt án fasts styrktaraðila en fjármögnuð með hjálp einstaklinga og fyrirtækja. Í júní 2013 náðust samningar við Baileys og árið 2014 verða verðlaunin í fyrsta skipti afhent undir nafni þeirra.

Kvennabókmenntaverðlaunin eru orðin ein virtustu bókmenntaverðlaun heimsins í dag og það þykir mikill heiður að fá tilnefningu, auk þess sem það hefur mikil jákvæð áhrif á sölu viðkomandi verka.