Helga Dögg nýr formaður Fjöruverðlaunanna

Aðalfundur félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna og kvára á Íslandi var haldinn fimmtudaginn 16. október.

Fámennt en góðmennt var á fundinum, sem haldinn var á Teams. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf og gekk fundurinn snurðulaust fyrir sig.

Helga Dögg Björgvinsdóttir var kjörinn nýr formaður Fjöruverðlaunanna, en hún með BA próf í almennri bókmenntafræði og MSc gráðu í viðskiptafræði. Helga hefur víðtæka reynslu af félagsstörfum, og hefur meðal annars setið í stjórn Kvenréttindafélags Íslands, þar af varaformaður í fimm ár, og í stjórn Menningar- og minningarsjóðs kvenna. Var Helgu mikið fagnað á fundinum.

Í stjórn voru einnig endurkjörnar Erla E. Völudóttir gjaldkeri og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir ritari. Ekki bárust framboð til varamanns stjórnar og fól fundurinn nýkjörinni stjórn að skipa í það embætti í vetur.

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 2025

Aðalfundur félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna og kvára er haldinn fimmtudaginn 16. október kl. 19:00. Fundurinn er haldinn á rafrænum vettvangi, í gegnum Teams fjarfundarbúnaðinn.

Til þess að taka þátt í rafrænum aðalfundi er nauðsynlegt að skrá netfang sitt. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku, hér. 

Á fundinum verður kosið um formann og þrjá fulltrúa í stjórn (tvo í aðalstjórn og einn í varastjórn). Kjörtímabil er til tveggja ára.

Vinsamlegast sendið framboð til formanns eða stjórnar á netfangið bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir 9. október næstkomandi.

Á næstu dögum mun félagsfólki berast krafa í heimabanka fyrir félagsgjöldum Fjöruverðlaunanna, 2.500 kr. Við hvetjum félagsfólk allt til að greiða árgjöldin og leggja þar með sitt af mörkum til að tryggja framgang Fjöruverðlaunanna!

Dagskrá fundar

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 9. október) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá.
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár

Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár.

Hægt er að leggja fram bækur eftir konur og kvár.

Þátttökukostnaður er ókeypis, en þremur eintökum þarf að skila inn fyrir dómnefnd.

Hægt er að tilnefna bækur í þremur flokkum:

  • fagurbókmenntir
  • fræðirit og bækur almenns eðlis
  • barna- og unglingabókmenntir

Dómnefndarbókum skal komið á skrifstofu Rithöfundasambands Íslands í allra síðasta lagi fimmtudaginn 30. október 2025, en gott er að fá bækur fyrr ef hægt er. Ef ekki er unnt að koma prentuðum bókum til skila fyrir þann tíma, er nauðsynlegt að senda rafrænt eintak á bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir þann dag, svo að bókin komi til greina. Þá þurfa útgefendur að koma þremur prentuðum eintökum af sömu bók á skrifstofu RSÍ fyrir fimmtudaginn 13. nóvember 2025.

Þrjár bækur eru tilnefndar í hverjum flokki og verða tilnefningar kynntar í desember 2024. Fjöruverðlaunin verða svo veitt 9. mars 2026.

Þremur eintökum af bókum skal skilað til:

Rithöfundasambands Íslands
Gunnarshúsi – Dyngjuvegi 8, 104 Reykjavík
Opið 10:00 – 14:00

Aðeins bækur/handrit sem hafa borist fyrir 30. október koma til greina.

Bókahappdrætti á menningarnótt

Viltu vinna bók á menningarnótt?

Velkomin í happdrætti Fjöruverðlaunanna og Skáldu, þar sem í vinning eru skáldverk eftir konur og kvár, úrval þeirra 155 bóka sem hafa verið tilnefndar til Fjöruverðlaunanna frá árinu 2007.

Dregið er í happdrættinu fimm sinnum yfir daginn, kl. 12:00, 14:00, 16:00, 18:00 og 20:00, í bókabúðinni Skáldu á Vesturgötu 10a og eiga þau kost á vinningi sem eru á staðnum.

Happdrættið er haldið í tilefni kvennaárs 2025.

Fjöruverðlaunin þakka útgáfufélögunum Benedikt, Bjarti, Bókabeitunni, Forlaginu og Sögufélagi sem gefa bækur til vinnings.

Fjöruverðlaunin 2025: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna og kvára, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða 6. mars 2025. Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta: Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis: Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi eftir Ingunni Ásdísardóttur

Í flokki barna- og unglingabókmennta: Tjörnin eftir Rán Flygenring

Þetta í nítjánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í tíunda sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Heiða Björg Hilmisdóttir gesti velkomna. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.

Rökstuðningur dómnefnda

Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur

Listir, náttúra og ólgandi tilfinningar takast á í bókinni Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur. Hrynjandi ljóðræns textans knýr framvindu áfram þar sem meginstef eru ást, missir og innri leit. Form texta og litanotkun ljær frásögninni dýpt og er lesanda gefið rými til að skynja og túlka atburðarás sem lýkst upp eftir því sem líður á og rís hæst í sólódansi aðalpersónunnar. Birgitta Björg slær hér nýjan og forvitnilegan bókmenntatón.

Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi eftir Ingunni Ásdísardóttur 

Screenshot

Í bók sinni Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi dregur Ingunn Ásdísardóttir upp áhugaverða mynd af jötnum og mögulega ólíku hlutverki þeirra en mótast hefur hingað til í vitund fólks. Með því að rannsaka sjálfstætt hlutverk jötna í öðrum heimildum en Eddu Snorra Sturlusonar virðist sem jötnar hafi gengt mikilvægara hlutverki; verið aldnir og fróðir (hundvísir) en ekki ófreskjur. Bókin dregur fram hve lifandi vísindi þjóðararfurinn er og færir bæði fróðleiksfúsum aðgengilegt efni og leggur til málanna í rannsóknarheimi norrænnar goðafræði.

Tjörnin eftir Rán Flygering

Tjörnin eftir Rán Flygenring fjallar meðal annars um leikgleði, vináttu og málamiðlanir. Garður einn er uppáhaldsleiksvæði tveggja vina og dag einn taka þau eftir dæld í grasinu og þá hefst ævintýrið. Myndirnar kallast vel á við textann en líka íslenskan nútíma og á afslappaðan hátt er ýmsum áhugaverðum orðum bætt við orðaforða ungra lesenda, til dæmis krapagildra og krokketbogi. Tjörnin er fallegt og fyndið listaverk en líka skemmtileg og fræðandi saga.

 

Í dómnefndum sátu:

Fagurbókmenntir:

  • Jóna Guðbjörg Torfadóttir, framhaldsskólakennari
  • Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur
  • Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
  • Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisfræðingur
  • Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor í bókmenntafræði

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Guðlaug Richter, íslenskufræðingur
  • Helga Birgisdóttir, lektor í íslensku
  • Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur

Fjöruverðlaunin 2025: Tilnefningar

Mikið var um dýrðir á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur 3. desember 2024 þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna og kvára.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

  • Fíasól í logandi vandræðum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur
  • Tjörnin eftir Rán Flygenring
  • Sigrún í safninu eftir Sigrúnu Eldjárn

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

  • Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur
  • Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi eftir Ingunni Ásdísardóttur
  • Duna. Saga kvikmyndagerðarkonu eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur og Guðrúnu Elsu Bragadóttur

Í flokki fagurbókmennta:

  • Rifsberjadalurinn eftir Ásdísi Óladóttur
  • Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur
  • Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttur

Rökstuðningur dómnefnda

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

Fíasól í logandi vandræðum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur (Bjartur)

„Að vera barnalegur er að vera klár, sniðugur, hugrakkur og duglegur!“ Fíasól í logandi vandræðum er áttunda bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur um stelpuskottið hana Fíusól. Hún er ákaflega upptekinn sveitarforingi í hjálparsveitinni sinni, hana langar að stofna dýrabjörgunardeild og Skólóvision er í fullum gangi. Í Vindavík leikur allt á reiðiskjálfi og Alla Malla kemur í skjálftafrí í bílskúrinn hjá Ingólfi Gauki. Bókin er skemmtilega myndskreytt og aðgengileg fyrir bókaorma á öllum aldri.

Tjörnin eftir Rán Flygering (Angústúra)

Tjörnin eftir Rán Flygenring fjallar meðal annars um leikgleði, vináttu og málamiðlanir. Garður einn er uppáhaldsleiksvæði tveggja vina og dag einn taka þau eftir dæld í grasinu og þá hefst ævintýrið. Myndirnar kallast vel á við textann en líka íslenskan nútíma og á afslappaðan hátt er ýmsum áhugaverðum orðum bætt við orðaforða ungra lesenda, til dæmis krapagildra og krokketbogi. Tjörnin er fallegt og fyndið listaverk en líka skemmtileg og fræðandi saga.

Sigrún í safninu eftir Sigrúnu Eldjárn (Mál og menning)

Í bókinni Sigrún í safninu fáum við innsýn í heim lítillar stúlku sem elst upp á Þjóðminjasafninu fyrir rúmlega hálfri öld. Sigrún Eldjárn segir hér frá fjölskyldu sinni, safnhúsinu, ýmsum safngripum og skemmtilegum atvikum sem allt birtist ljóslifandi í léttleikandi texta, myndum úr fjölskyldualbúminu og frábærum teikningum. Hlýleiki og húmor eru í fyrirrúmi en allskonar fróðleikur fær að fljóta með. Sannkallaður konfektmoli fyrir unga sem aldna fyrir heimsókn á Þjóðminjasafnið.

 

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur (Bjartur)

Í Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871 dregur Erla Hulda Halldórsdóttir upp lifandi mynd af íslensku samfélagi með greiningu og túlkun á sendibréfum nítjándu aldar. Í þessu vandaða verki fá lesendur að kynnast orðfæri kvenna, samfélagsgreiningum þeirra og aðferðum til að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi. Jafnframt miðlar Erla Hulda aðferðum sínum á upplýsandi hátt, setur rannsóknarspurningar í alþjóðlegt fræðasamhengi og hvetur þannig lesendur til að rannsaka bréfasöfn fyrri kynslóða og kynnast þeim „venjulegu“ röddum sem þar má finna.

Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi eftir Ingunni Ásdísardóttur (Hið íslenska bókmenntafélag)

Í bók sinni Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi dregur Ingunn Ásdísardóttir upp áhugaverða mynd af jötnum og mögulega ólíku hlutverki þeirra en mótast hefur hingað til í vitund fólks. Með því að rannsaka sjálfstætt hlutverk jötna í öðrum heimildum en Eddu Snorra Sturlusonar virðist sem jötnar hafi gengt mikilvægara hlutverki; verið aldnir og fróðir (hundvísir) en ekki ófreskjur. Bókin dregur fram hve lifandi vísindi þjóðararfurinn er og færir bæði fróðleiksfúsum aðgengilegt efni og leggur til málanna í rannsóknarheimi norrænnar goðafræði.

Duna. Saga kvikmyndagerðakonu eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur og Guðrúnu Elsu Bragadóttur (Mál og menning)

„Þetta var nú andskotans barningur allt saman,“ segir Duna, Guðný Halldórsdóttir, um baráttu sína við að koma íslenskri kvikmyndagerð á skrið. Saga Guðnýjar og viðburðaríkur ferill hennar í kvikmyndagerð er efni bókar Kristínar Svövu Tómasdóttur og Guðrúnar Elsu Bragadóttur sem nefna rit sitt Duna. Saga kvikmyndagerðarkonu. Efni bókarinnar er unnið af alúð og vandvirkni og víða glittir í óborganlegan húmor Guðnýjar þegar hún lýsir baráttu sinni við kerfið og aðstöðuleysi þeirra sem vildu veg íslenskrar kvikmyndagerðar sem mestan.

 

Í flokki fagurbókmennta:

Rifsberjadalurinn eftir Ásdísi Óladóttur (Veröld)

Ljóð Ásdísar Óladóttur í bókinni Rifsberjadalurinn láta lítið yfir sér en geyma ólgandi tilfinningar, nautnir og nístandi sársauka. Veitt er opinská og einlæg innsýn í heim geðveikinnar sem ljóðmælandi leitast við að sefa með lyfinu Risperdal, sem titill bókar vísar til. Í seinni hluta bókar bíður nýr veruleiki þar sem hvunndagurinn er sveipaður ljóðrænu og ástin er hvikul. Ljóðin eru meitluð, nærgöngul og einstaklega áhrifarík.

 

Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur (Drápa)

Listir, náttúra og ólgandi tilfinningar takast á í bókinni Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur. Hrynjandi ljóðræns textans knýr framvindu áfram þar sem meginstef eru ást, missir og innri leit. Form texta og litanotkun ljær frásögninni dýpt og er lesanda gefið rými til að skynja og túlka atburðarás sem lýkst upp eftir því sem líður á og rís hæst í sólódansi aðalpersónunnar. Birgitta Björg slær hér nýjan og forvitnilegan bókmenntatón.

 

Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttur (Benedikt)

Leit að ást og öryggi eru leiðarstef í bók Evu Rúnar Snorradóttur Eldri konur. Að baki býr þrá eftir umhyggju en undir yfirborðinu krauma erfiðar æskuminningar, tengslarof og rótleysi. Bygging frásagnar og form endurspegla innra líf aðalpersónu og dýpka frásögnina en fíkn og þráhyggja keyra framvindu sögunnar áfram um leið og aðstæður skýrast. Eva Rún skapar hér nýstárlegan sagnaheim um mikilvægt umfjöllunarefni af mikilli leikni.

 

 

Eftirfarandi konur sitja í dómnefnd Fjöruverðlaunanna 2025:

Barna- og unglingabókmenntir:
Guðlaug Richter, íslenskufræðingur
Helga Birgisdóttir, lektor í íslensku
Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:
Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisfræðingur
Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor í bókmenntafræði

Fagurbókmenntir:
Jóna Guðbjörg Torfadóttir, framhaldsskólakennari
Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur
Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari

Tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna 3. desember kl. 17:00

Velkomin á tilnefningahátíð Fjöruverðlauna – bókmenntaverðlauna kvenna og kvára þriðjudaginn 3. desember kl. 17. Hátíðin verður haldin í Borgarbókasafninu í Grófinni við Tryggvagötu.

Dómnefndir tilnefna bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis.

Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna og kvára.

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 22. október 2024

Aðalfundur félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna og kvár Íslandi var haldinn þriðjudaginn 22. október október á Teams.

Fámennt en góðmennt var á fundinum, sem haldinn var á Teams. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf og gekk fundurinn snurðulaust fyrir  sig. Það gleymdist þó að taka ljósmynd af fundargestum, svo fallegt málverk af konum að skemmta sér skreytir þessa frétt.

Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár

Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár.

Hægt er að leggja fram bækur eftir konur og kvára.

Þátttökukostnaður er ókeypis, en þremur eintökum þarf að skila inn fyrir dómnefnd.

Hægt er að tilnefna bækur í þremur flokkum:

  • fagurbókmenntir
  • fræðirit og bækur almenns eðlis
  • barna- og unglingabókmenntir

Dómnefndarbókum skal komið á skrifstofu Rithöfundasambands Íslands í allra síðasta lagi föstudaginn 25. október 2024. Ef ekki er unnt að koma prentuðum bókum til skila fyrir þann tíma, er nauðsynlegt að senda rafrænt eintak á  bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir þann dag, svo að bókin komi til greina. Þá þurfa útgefendur að koma þremur prentuðum eintökum af sömu bók á skrifstofu RSÍ fyrir föstudaginn 15. nóvember 2024.

Þrjár bækur eru tilnefndar í hverjum flokki og verða tilnefningar kynntar 3. desember 2024. Fjöruverðlaunin verða svo veitt 6. mars 2025.

Þremur eintökum af bókum skal skilað til:

Rithöfundasambands Íslands
Gunnarshúsi – Dyngjuvegi 8, 104 Reykjavík
Opið 10:00 – 14:00

Aðeins bækur/handrit sem hafa borist fyrir 25. október koma til greina.

Hvaða bækur koma til greina?

Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:

  • skrifaðar af konu/konum eða kvár
  • frumútgáfa sé á íslensku
  • gefnar út af forlagi á Íslandi
  • koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
  • innihaldi texta af einhverju tagi
  • að kona/konur eða kvár eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur eða kvár séu helmingur höfunda (ef margir)
  • Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.

Nánari upplýsingar veitir stjórn Fjöruverðlaunanna í netfanginu bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com.

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 2024

Aðalfundur félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna og kvára á Íslandi er haldinn þriðjudaginn 22. október kl. 19:00. Fundurinn er haldinn á rafrænum vettvangi, í gegnum Teams fjarfundarbúnaðinn.

Til þess að taka þátt í rafrænum aðalfundi er nauðsynlegt að skrá netfang sitt. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku, hér. 

Á næstu dögum mun félagsfólki berast krafa í heimabanka fyrir félagsgjöldum Fjöruverðlaunanna, 2.500 kr. Við hvetjum félagsfólk allt til að greiða árgjöldin og leggja þar með sitt af mörkum til að tryggja framgang Fjöruverðlaunanna!

Dagskrá fundar

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 8. október) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá. Liður fellur niður þar sem kosið var til tveggja ára í öll embætti á aðalfundi 2023.
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál