Starfs- og siðareglur dómnefnda

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi, eru veitt í þremur flokkum, fagurbókmennta, fræðibóka og rita almenns eðlis, og barna- og unglingabókmennta.

Trúverðugleiki Fjöruverðlaunanna hvílir á sérfræðiþekkingu, innsæi og skynsemi dómnefndarkvenna og -kvára og því að störf þeirra séu hafin yfir allan vafa. Ætlast er til að dómnefndir kynni sér og fari eftir þessum starfs- og siðareglum.

  1. Stjórn Fjöruverðlauna skipar í dómnefndir að hausti. Til að varðveita verklagskunnáttu er æskilegt að í hverri dómnefnd sitji minnst einn meðlimur sem einnig var í dómnefnd árið áður. Reynt er að tryggja að bakgrunnur dómnefndarmeðlima sé fjölbreyttur.
  1. Stjórn skipar tengilið úr sínum röðum sem sér um samskipti við dómnefndir. Ef upp koma vafaatriði er varða störf dómnefnda skulu þær hafa samband við tengilið sem ber málið undir stjórn.
  1. Nöfn dómnefndarkvenna og -kvára eru gerð heyrinkunn og varðveitt á heimasíðu verðlaunanna.
  1. Í dómnefnd skulu ekki sitja höfundar bóka sem gefnar eru út á starfsárinu, óháð verðlaunaflokki.
  1. Dómnefndarkonur og -kvár skulu ekki vera starfsmenn bókaforlaga eða annarra hagsmunaaðila. Þau mega ekki fjalla í fjölmiðlum um bækur sem kæmu til greina til Fjöruverðlaunanna, í þeim flokkum sem þau eiga að dæma, á meðan dómnefndin situr að störfum.
  1. Störf dómnefnda eru ólaunuð, en hver dómnefndarmeðlimur fær eitt eintak af hverri bók í sínum flokki til eignar.
  1. Hver dómnefnd hittist að lágmarki einu sinni til að komast að niðurstöðu og skila henni ásamt greinargerð fyrir þann skiladag sem stjórn tilgreinir hverju sinni. Að öðru leyti er hverri nefnd frjálst að skipuleggja sitt starf að eigin geðþótta.
  1. Dómnefndir skuldbinda sig til þess að gæta hlutleysis í hvívetna og láta hvorki kunningsskap né önnur tengsl hafa áhrif á dómgreind sína.
  1. Trúnaðarskylda er um starf dómnefnda og dómnefndarkonur og -kvár skuldbinda sig til að dreifa ekki áfram rafrænum eintökum af bókum sem þau hafa fengið send til umfjöllunar.

Október 2020