Fjöruverðlaunin 2026: Tilnefningar

Mikið var um dýrðir á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur 4. desember 2025 þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna og kvára.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

  • Hjartslátturinn hennar Lóu eftir Kristínu Cardew og Lilju Cardew
  • Silfurgengið eftir Brynhildi Þórarinsdóttur
  • Sólgos eftir Arndísi Þórarinsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

  • Drífa Viðar, ritstjórar Kristín Guðrún Jónsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir og Auður Aðalsteinsdóttir
  • Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, ritstjórar Elinóra Guðmundsdóttir, Chanel Björk Sturludóttur og Elínborg Kolbeinsdóttir
  • Piparmeyjar: Fröken Thora og saga einhleypra kvenna á Íslandi eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur

Í flokki fagurbókmennta:

  • Hvalbak eftir Maó Alheimsdóttur
  • Blái pardusinn, hljóðbók eftir Sigrúnu Pálsdóttur
  • Postulín eftir Sunnu Dís Másdóttur

Rökstuðningur dómnefnda

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

Hjartslátturinn hennar Lóu eftir Kristínu Cardew og Lilju Cardew (Bókabeitan)

Dýralæknirinn sagði að stundaglasið hennar Lóu væri að tæmast og þegar það gerist þá hættir hjartað hennar að slá. Litla stúlkan grætur lengi í feldinn á Lóu en ákveður síðan að Lóa fái heilan dag til þess að gera uppáhalds skammarstrikin sín. Hjartslátturinn hennar Lóu eftir Kristínu og Lilju Cardew segir í einlægum texta og fínlegum myndum hugljúfa og grípandi sögu um sorg og missi en líka gleði.

Silfurgengið eftir Brynhildi Þórarinsdóttur (Mál og menning)

Því fylgir ólga að vera fimmtán ára og í Silfurgenginu dregur Brynhildur Þórarinsdóttir upp hjartnæma mynd af táningnum Sirrylei. Hún tekst á við stóru málin í lífinu: partýhald, stráka- og vinkvennamál ásamt því að leggjast yfir ættfræði með nördunum. Kveikjan að því er nælan sem amma gaf henni í afmælisgjöf og segir sögu þriggja kynslóða Sigríða. Silfurgengið er einlæg og spennandi saga sem sýnir lesandanum það sem hefur breyst og það sem er alltaf eins.

Sólgos eftir Arndísi Þórarinsdóttur (Mál og menning)

Sólgos Arndísar Þórarinsdóttur er fantavel skrifuð bók um hvað gerist þegar heimurinn breytist á augabragði, ekkert er eins og það var og enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Með augum Unnar fylgjast lesendur með því hvernig er tekið á tækni- og samskiptahruni en líka því hvað verður um siðgæði og samkennd. Sólgos er næm saga um málefni sem snerta okkur öll og stóra spurningin er í raun: Hvað skiptir okkur mestu máli?

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

Drífa Viðar, ritstjórar Kristín Guðrún Jónsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir og Auður Aðalsteinsdóttir (Ástríki útgáfa)

„Heimurinn er stór starfandi heili. Við erum höndin í þessum heila og vinnum það sem heilinn sýnir okkur“, skrifaði listakonan fjölhæfa Drífa Viðar um mennskuna og skáldskapinn í bréfi frá París 1947. Saga Drífu og verk hennar á sviðum myndlistar og skáldskapar, heimspeki og samfélagsbaráttu eru loks aðgengileg í einstaklega fallegu og vönduðu verki, Drífa Viðar í ritstjórn Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur, Elísabetar Gunnarsdóttur og Auður Aðalsteinsdóttur. Bókin er rík af heimildum, bréfaskriftum og samtímarýni sem veitir innsýn í það samfélag sem Drífa Viðar tók þátt í að móta og það erindi sem verk hennar eiga enn í dag.

Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, ritstjórar Elinóra Guðmundsdóttir, Chanel Björk Sturludóttur og Elínborg Kolbeinsdóttir (Vía útgáfa)

Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi sem ritstýrt er af Elinóru Guðmundsdóttur, Chanel Björk Sturludóttur og Elínborgu Kolbeinsdóttur er áhrifaríkt verk sem heiðrar framlag 33 kvenna sem í persónulegum frásögnum lýsa áskorunum við að flytja til Íslands, læra tungumálið og finna sinn stað. Bókin opnar glugga inn í veruleika sem oft er ósýnilegur, dregur fram styrk og seiglu kvennanna í að skapa nýtt líf og mikilvægi inngildingar og fjölbreytileika. Bókin er bæði falleg heimild og eiguleg bók sem gefur sterkum röddum og dýrmætum frásögnum rými.

Piparmeyjar: Fröken Thora og saga einhleypra kvenna á Íslandi eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur (Mál og menning)

Hvaða augum leit fólk piparmeyjar á seinni hluta 19. aldar? Áttu þær raunverulegt val í lífinu? Svör við spurningum sem þessum má finna í Piparmeyjar eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur, vandaðri bók þar sem ævi Thoru Friðriksson er rakin í ítarlegum texta, sendibréfum og myndum. Höfundur lætur sér ekki nægja að horfa eingöngu á Thoru, hún gefur lesanda góða innsýn í stéttaskiptingu, réttindi kvenna, störf, gleði og vonbrigði. Fröken Thora er dæmi um bráðgreinda konu sem á sér drauma en fórnar sér fyrir fjölskylduna.

Í flokki fagurbókmennta:

Hvalbak eftir Maó Alheimsdóttur (Mál og menning)

Hvalbak eftir Maó Alheimsdóttur er ljóðrænn óður til lands og tungu. Ljóðin hverfast um tengsl ljóðmælanda við náttúruna og þá einkum jökulinn sem býr í senn yfir fegurð og hrikaleika. Dregnar eru upp áhrifaríkar myndir af síbreytilegu landslagi þar sem jökullinn þarf sífellt að hopa og eftir sitja sorfnar klappir, hvalbök. Þá einkennir óvænt orðanotkun ljóðin þar sem fræðilegum íðorðum er fléttað saman við ljóðræna orðkynngi á afar ferskan hátt. Þetta er listilega gert.

Blái pardusinn, hljóðbók eftir Sigrúnu Pálsdóttur (Mál og menning)

Nóvellan Blái pardusinn, hljóðbók eftir Sigrúnu Pálsdóttur lætur ekki mikið yfir sér en segir þeim mun stærri sögu. Sögusviðið er marglaga þar sem þrjár ólíkar persónur lesa á sama tíma sömu hljóðbókina Bláa pardusinn, örlagasögu ungrar konu. Frásögnin er lipurlega fléttuð, þar sem eftirsjá, ráðaleysi og ólokin verk eru þeir þræðir sem tengja persónurnar fjórar og vefa þeim ósagðan örlagavef. Fjörlegur, lifandi og knappur stíll Sigrúnar nýtur sín vel í þessari margslungnu og snörpu sögu.

Postulín eftir Sunnu Dís Másdóttur (Mál og menning)

Ljóðabókin Postulín eftir Sunnu Dís Másdóttur er jafn fallega brothætt og titillinn gefur til kynna. Sögusvið bókarinnar er safn í smábæ þar sem fjallið vakir yfir íbúum og draugar fortíðar eru alltumlykjandi. Kona og fjall renna að lokum saman í eitt þegar dregin er upp mynd af snjóflóði samhliða því þegar ljóðmælandi upplifir fósturmissi. Undurfagur texti um sorg, missi og grimmd dauðans sem lætur í ljós einstaka næmni höfundar.

 

 

Eftirfarandi konur og kvár sitja í dómnefnd Fjöruverðlaunanna 2026:

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Helga Birgisdóttir, lektor í íslensku
  • Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur
  • Sunna Skúladóttir, íslenskufræðingur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
  • Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisfræðingur
  • Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor í bókmenntafræði

Fagurbókmenntir:

  • Jóna Guðbjörg Torfadóttir, framhaldsskólakennari
  • Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
  • Unnur Steina Knarran Karls, bókmenntafræðingur

Tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna 3. desember kl. 17:00

Velkomin á tilnefningahátíð Fjöruverðlauna – bókmenntaverðlauna kvenna og kvára fimmtudaginn 4. desember kl. 17. Hátíðin verður haldin í Borgarbókasafninu í Grófinni við Tryggvagötu.

Dómnefndir tilnefna bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis.

Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna og kvára.

STUNDIN ER RUNNIN UPP: Kvennaverkfall allan daginn, söguleg ganga og kvennakraftur um allt land

Konur og kvár um allt land undirbúa sig nú fyrir Kvennaverkfall á morgun 24. október þegar 50 ár verða liðin frá því fyrsta 1975.

Kvennaverkfallið stendur yfir allan daginn og hafa fjölbreyttir viðburðir verið skipulagðir af aðstandendum verkfallsins frá morgni til kvölds.

Hápunktar dagsins verður söguganga kvennabaráttu og baráttufundir um allt land.

Sögugangan fer af stað frá horni Sóleyjargötu og Njarðargötu í Reykjavík frá kl. 13.30. Meðal annars stígur Sandra Barilli sem Bríet Bjarnhéðinsdóttir á stokk, hægt verður að hylla Vigdísi forseta og skrifa til hennar þakkir, heyra í kröftugum Kvennalistakonum, sjá gjörning íþróttakvenna, heimsækja baráttuheim gegn ofbeldi og horfa á spuna um þriðju vaktina svo eitthvað sé nefnt. Birna Rún Eiríksdóttir heldur uppistand um veruleika tveggja barna móður sem þarf að takast á við fæðingarorlofskerfið og leikskólamál. Göngufólki gefst kostur á að fríka út með Sísí, virða fyrir sér lengsta götulistaverk landsins sem gert var sérstaklega fyrir Kvennaverkfallið og kynnast baráttukonum og -hreyfingum í gegnum tíðina. Hér má finna kort og frekari upplýsingar um þessa sögulegu göngu.

Að göngu lokinni hefst kraftmikill baráttufundur á Arnarhóli kl. 15:00. Kynnar verða Margrét Erla Maack og Beta Skagfjörð auk þess sem Reykjavíkurdætur, Anya Shaddock og Mammaðín hrista upp í fjöldanum með tónlistaratriðum og fjöldasöng. Þá flytja Marta Ólöf Jónsdóttir og Anna Marta Marjonkowska ræður auk þess sem ungmenni horfa til framtíðar. Hér má finna dagskrána á Arnarhóli en fundurinn verður í beinni útsendingu.

Baráttufundir hafa einnig verið skipulagðir víða á landsbyggðinni. Í Hrísey og Fjallabyggð hefst baráttufundur kl. 11:00 og á Akureyri hefst baráttufundur á Ráðhústorgi kl 11:15. Í Reykjanesbæ í Aðalbókasafni bæjarins kl. 11:30 áður en haldið er til Reykjavíkur með rútum. Í Snæfellsbæ hefst baráttufundur kl. 13:30 og á Ísafirði, Höfn, Breiðamýri, Stykkishólmi, Bíldudal og Vík í Mýrdal kl. 14.00 og Patreksfirði kl. 14:45. Rútur fara frá Selfossi á Arnarhól kl 14:00. Þá eru fjöldamargir spennandi viðburðir skipulagðir um allt land frá því að fundinum lýkur á Arnarhóli fram á kvöld. Hér má finna yfirlit yfir alla helstu viðburði.

Helga Dögg nýr formaður Fjöruverðlaunanna

Aðalfundur félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna og kvára á Íslandi var haldinn fimmtudaginn 16. október.

Fámennt en góðmennt var á fundinum, sem haldinn var á Teams. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf og gekk fundurinn snurðulaust fyrir sig.

Helga Dögg Björgvinsdóttir var kjörinn nýr formaður Fjöruverðlaunanna, en hún með BA próf í almennri bókmenntafræði og MSc gráðu í viðskiptafræði. Helga hefur víðtæka reynslu af félagsstörfum, og hefur meðal annars setið í stjórn Kvenréttindafélags Íslands, þar af varaformaður í fimm ár, og í stjórn Menningar- og minningarsjóðs kvenna. Var Helgu mikið fagnað á fundinum.

Í stjórn voru einnig endurkjörnar Erla E. Völudóttir gjaldkeri og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir ritari. Ekki bárust framboð til varamanns stjórnar og fól fundurinn nýkjörinni stjórn að skipa í það embætti í vetur.

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 2025

Aðalfundur félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna og kvára er haldinn fimmtudaginn 16. október kl. 19:00. Fundurinn er haldinn á rafrænum vettvangi, í gegnum Teams fjarfundarbúnaðinn.

Til þess að taka þátt í rafrænum aðalfundi er nauðsynlegt að skrá netfang sitt. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku, hér. 

Á fundinum verður kosið um formann og þrjá fulltrúa í stjórn (tvo í aðalstjórn og einn í varastjórn). Kjörtímabil er til tveggja ára.

Vinsamlegast sendið framboð til formanns eða stjórnar á netfangið bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir 9. október næstkomandi.

Á næstu dögum mun félagsfólki berast krafa í heimabanka fyrir félagsgjöldum Fjöruverðlaunanna, 2.500 kr. Við hvetjum félagsfólk allt til að greiða árgjöldin og leggja þar með sitt af mörkum til að tryggja framgang Fjöruverðlaunanna!

Dagskrá fundar

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 9. október) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá.
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár

Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár.

Hægt er að leggja fram bækur eftir konur og kvár.

Þátttökukostnaður er ókeypis, en þremur eintökum þarf að skila inn fyrir dómnefnd.

Hægt er að tilnefna bækur í þremur flokkum:

  • fagurbókmenntir
  • fræðirit og bækur almenns eðlis
  • barna- og unglingabókmenntir

Dómnefndarbókum skal komið á skrifstofu Rithöfundasambands Íslands í allra síðasta lagi fimmtudaginn 30. október 2025, en gott er að fá bækur fyrr ef hægt er. Ef ekki er unnt að koma prentuðum bókum til skila fyrir þann tíma, er nauðsynlegt að senda rafrænt eintak á bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir þann dag, svo að bókin komi til greina. Þá þurfa útgefendur að koma þremur prentuðum eintökum af sömu bók á skrifstofu RSÍ fyrir fimmtudaginn 13. nóvember 2025.

Þrjár bækur eru tilnefndar í hverjum flokki og verða tilnefningar kynntar í desember 2024. Fjöruverðlaunin verða svo veitt 9. mars 2026.

Þremur eintökum af bókum skal skilað til:

Rithöfundasambands Íslands
Gunnarshúsi – Dyngjuvegi 8, 104 Reykjavík
Opið 10:00 – 14:00

Aðeins bækur/handrit sem hafa borist fyrir 30. október koma til greina.

Bókahappdrætti á menningarnótt

Viltu vinna bók á menningarnótt?

Velkomin í happdrætti Fjöruverðlaunanna og Skáldu, þar sem í vinning eru skáldverk eftir konur og kvár, úrval þeirra 155 bóka sem hafa verið tilnefndar til Fjöruverðlaunanna frá árinu 2007.

Dregið er í happdrættinu fimm sinnum yfir daginn, kl. 12:00, 14:00, 16:00, 18:00 og 20:00, í bókabúðinni Skáldu á Vesturgötu 10a og eiga þau kost á vinningi sem eru á staðnum.

Happdrættið er haldið í tilefni kvennaárs 2025.

Fjöruverðlaunin þakka útgáfufélögunum Benedikt, Bjarti, Bókabeitunni, Forlaginu og Sögufélagi sem gefa bækur til vinnings.

Fjöruverðlaunin 2025: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna og kvára, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða 6. mars 2025. Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta: Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis: Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi eftir Ingunni Ásdísardóttur

Í flokki barna- og unglingabókmennta: Tjörnin eftir Rán Flygenring

Þetta í nítjánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í tíunda sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Heiða Björg Hilmisdóttir gesti velkomna. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.

Rökstuðningur dómnefnda

Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur

Listir, náttúra og ólgandi tilfinningar takast á í bókinni Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur. Hrynjandi ljóðræns textans knýr framvindu áfram þar sem meginstef eru ást, missir og innri leit. Form texta og litanotkun ljær frásögninni dýpt og er lesanda gefið rými til að skynja og túlka atburðarás sem lýkst upp eftir því sem líður á og rís hæst í sólódansi aðalpersónunnar. Birgitta Björg slær hér nýjan og forvitnilegan bókmenntatón.

Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi eftir Ingunni Ásdísardóttur 

Screenshot

Í bók sinni Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi dregur Ingunn Ásdísardóttir upp áhugaverða mynd af jötnum og mögulega ólíku hlutverki þeirra en mótast hefur hingað til í vitund fólks. Með því að rannsaka sjálfstætt hlutverk jötna í öðrum heimildum en Eddu Snorra Sturlusonar virðist sem jötnar hafi gengt mikilvægara hlutverki; verið aldnir og fróðir (hundvísir) en ekki ófreskjur. Bókin dregur fram hve lifandi vísindi þjóðararfurinn er og færir bæði fróðleiksfúsum aðgengilegt efni og leggur til málanna í rannsóknarheimi norrænnar goðafræði.

Tjörnin eftir Rán Flygering

Tjörnin eftir Rán Flygenring fjallar meðal annars um leikgleði, vináttu og málamiðlanir. Garður einn er uppáhaldsleiksvæði tveggja vina og dag einn taka þau eftir dæld í grasinu og þá hefst ævintýrið. Myndirnar kallast vel á við textann en líka íslenskan nútíma og á afslappaðan hátt er ýmsum áhugaverðum orðum bætt við orðaforða ungra lesenda, til dæmis krapagildra og krokketbogi. Tjörnin er fallegt og fyndið listaverk en líka skemmtileg og fræðandi saga.

 

Í dómnefndum sátu:

Fagurbókmenntir:

  • Jóna Guðbjörg Torfadóttir, framhaldsskólakennari
  • Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur
  • Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
  • Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisfræðingur
  • Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor í bókmenntafræði

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Guðlaug Richter, íslenskufræðingur
  • Helga Birgisdóttir, lektor í íslensku
  • Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur

Tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna 3. desember kl. 17:00

Velkomin á tilnefningahátíð Fjöruverðlauna – bókmenntaverðlauna kvenna og kvára þriðjudaginn 3. desember kl. 17. Hátíðin verður haldin í Borgarbókasafninu í Grófinni við Tryggvagötu.

Dómnefndir tilnefna bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis.

Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna og kvára.

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 22. október 2024

Aðalfundur félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna og kvára Íslandi var haldinn þriðjudaginn 22. október október á Teams.

Fámennt en góðmennt var á fundinum, sem haldinn var á Teams. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf og gekk fundurinn snurðulaust fyrir  sig. Það gleymdist þó að taka ljósmynd af fundargestum, svo fallegt málverk af konum að skemmta sér skreytir þessa frétt.