Kristín Svava Tómasdóttir tekur á móti Fjöruverðlaununum 2023

Kristín Svava Tómasdóttir tók á móti Fjöruverðlaununum 2023 fyrir bók sína Farsótt: Hundrað ár í Þingholtsstræti 25. Við verðlaunaafhendinguna hélt Kristín Svava eftirfarandi ræðu:

Borgarstjóri, dómnefnd, góðir gestir.

Það er mér mikil ánægja að taka á móti Fjöruverðlaununum í ráðhúsi Reykjavíkurborgar fyrir einmitt þessa bók. Fjöruverðlaunin eru femínísk verðlaun og hið femíníska sjónarhorn er mikilvægur þáttur í frásögninni í Farsótt, bók sem fjallar í grunninn ekki síst um sögu Reykjavíkur.

Þegar ég byrjaði að skrifa Farsótt vissi ég að ég vildi skrifa sögu sem má kannski kalla lýðræðislega. Ég vildi skrifa stóra sögu, um hundrað ár í lífi húss, um sögu borgar, velferðarsamfélags, heilbrigðiskerfis; en ég vildi líka skrifa litlar sögur, af hversdagslegum uppákomum og fólki, bæði þeim sem lifðu í samhljómi við samfélag sitt og þeim sem voru úti á jaðrinum. Þetta er saga af sigrum jafnt sem ósigrum; af metnaðarfullri viðleitni við að byggja upp betra samfélag en líka skammtímalausnum og reddingum sem minni reisn var yfir.

Hugmyndin að Farsótt kviknaði á Borgarskjalasafni Reykjavíkur, yfir skjölum um fátækrahjálp bæjarins frá fyrstu áratugum 20. aldar. Bókin varð síðan á endanum að stórum hluta byggð á umfangsmiklum frumheimildum frá Borgarskjalasafni og Þjóðskjalasafni Íslands, þangað sem ég sótti bæði stóru sögurnar og þær litlu. Hún hefði aldrei getað orðið til ef ekki væri fyrir þekkingu, fagmennsku og hjálpsemi fólksins sem þar starfar og vildi allt fyrir mig gera.

Gögnin sem geymd eru á skjalasöfnum eins og Borgarskjalasafninu og Þjóðskjalasafninu eru grunnurinn að sameiginlegri sögu okkar, hvort sem hún einkennist af samstöðu eða átökum, og varðveisla þeirra og aðgengi að þeim er lykilatriði jafnt fyrir fræðimenn, stjórnsýsluna og almenna borgara. Ákvarðanir um framtíð þeirra skyldu ekki teknar að illa ígrunduðu máli. Það er lítil reisn yfir þeim áformum sem nýlega hafa verið gerð opinber að leggja niður Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Það er vissulega ekki lögbundin skylda borgarinnar að halda úti skjalasafni en til eru ýmsar stofnanir sem við myndum ekki vilja missa þótt tilvist þeirra sé ekki bundin í lög, vegna þess að þær skipta máli fyrir samfélagið og söguna og lýðræðið.

Með þeim orðum langar mig, auk þess að þakka dómnefnd Fjöruverðlaunanna heiðurinn, að tileinka þessi verðlaun skjalavörðum landsins, með ást og þakklæti. Takk fyrir mig.

Hægt er að sjá upptöku af ræðunni á Facebook síðu Fjöruverðlaunanna.