Fjöruverðlaunin 2023: Tilnefningar

Mikið var um dýrðir á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur 5. desember 2022 þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

  • Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur: Kollhnís
  • Bronsharpan eftir Kristínu Björg Sigurvinsdóttur
  • Héragerði. Ævintýri um súkkulaði og kátínu eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur 

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

  • Á sporbaug. Nýyrði Jónasar Hallgrímssonar eftir Önnu Sigríði Þráinsdóttur og Elínu Elísabetu Einarsdóttur
  • Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur
  • Vegabréf: Íslenskt. Frá Afganistan til Bosníu og Búrkína Fasó eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur

Í flokki fagurbókmennta:

  • Eden eftir Auði Övu Ólafsdóttur
  • Urta eftir Gerði Kristnýju
  • Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur

Rökstuðningur dómnefnda

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur

Kollhnís – Forlagið bókabúðÍ Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur er hinn ungi Álfur fimleikastrákur aðalsöguhetjan og sögumaðurinn. Eftir því sem frásögn hans vindur fram kemur í ljós að sjónarhorn Álfs er ekki mjög áreiðanlegt enda neitar hann að horfast í augu við að litli bróðir hans sé einhverfur, að frænka hans eigi við fíknivanda að etja og að besti vinur hans sé lesblindur. Höfundur leikur fimlega á allan tilfinningaskalann og teflir fram sögumanni sem eignast hugi og hjörtu lesenda á öllum aldri. Sagan er í senn áhrifamikil, skemmtileg og spennandi en fyrst og fremst full af hlýju og mennsku.

Bronsharpan eftir Kristínu Björg Sigurvinsdóttur           

Dulstafir: Bronsharpan – Forlagið bókabúð

Bronsharpan er önnur bókin í bókaflokknum Dulstafir eftir Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur. Sagan gerist í ókunnum heimi þangað sem nokkur ungmenni hafa verið kölluð til að bjarga honum frá tortímingu. Þau eru gæslumenn grunnefna jarðarinnar og gædd sérstökum kröftum. Samvinna ungmennanna og samskipti kynjanna litast af því að í raunheimum lifa þau á ólíkum tímum og þau hafa ólíka hæfileika. Togstreitan sem verður til þegar þau þurfa að stilla saman strengi sína dýpkar persónulýsinguna og dregur fram ólíka skapgerð þeirra. Sagan er margræð og spennandi fantasía um baráttu góðs og ills en ekki síst um gildi vináttu og samstöðu.

Héragerði. Ævintýri um súkkulaði og kátínu eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur        

Héragerði – Forlagið bókabúðHéragerði eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur er sjálfstætt framhald Grísafjarðar sem kom út í fyrra og hefur undirtitilinn Ævintýri um súkkulaði og kátínu. Tvíburarnir Inga og Baldur kynnast móðurömmu sinni og eyða páskafríinu með henni í Héragerði. Þar gerast margvísleg ævintýri og þau eignast nýja vini. Höfundi tekst vel að draga upp mismunandi persónuleika tvíburanna sem gerir söguna dýpri og auðveldar mismunandi lesendum að samsama sig söguhetjunum. Sagan er bráðskemmtileg og fyndin og þar leika líflegar og litríkar myndir Lóu Hlínar stórt hlutverk.

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

Á sporbaug. Nýyrði Jónasar Hallgrímssonar eftir Önnu Sigríði Þráinsdóttur og Elínu Elísabetu Einarsdóttur     

Á sporbaug: nýyrði Jónasar Hallgrímssonar – Forlagið bókabúðÞær Anna Sigríður Þráinsdóttir og Elín Elísabet Einarsdóttir vinna sannkallað þrekvirki við kortlagningu nýyrða þjóðskáldsins og þýðandans Jónasar Hallgrímssonar. Í bókinni Á sporbaug. Nýyrði Jónasar Hallgrímssonar fá lesendur að kynnast uppruna orðanna og notkun þeirra í dag. Orðasveimur Jónasar fylgir okkur í daglegu máli, ræðu og riti án þess að við veitum því minnstu athygli enda hluti almenns orðaforða íslenskrar tungu. Bókin er einstaklega vel unnin, eiguleg og mikill fengur fyrir öll sem unna íslenskri tungu.

Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur       

Farsótt Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 | Penninn EymundssonÁ horni Þingholtsstrætis og Spítalastígs stendur yfir aldargamalt, tveggja hæða timburhús með viðburðaríka sögu; fyrsta sjúkrahús Reykvíkinga, farsóttarspítali, geðsjúkrahús og gistiskýli fyrir heimilislausa. Í dag er það mannautt og ber dulúðlegt nafn með rentu. Í Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 rekur Kristín Svava Tómasdóttir sögu þessa merka húss, sem umfram allt er litrík saga fólksins sem húsið hýsti og samfélagsins sem skóp það.

Vegabréf: Íslenskt. Frá Afganistan til Bosníu og Búrkína Fasó. eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur            

Vegabréf íslenskt. Frá Afganistan til Bosníu og Búrkína Fasó | Penninn EymundssonSigríður Víðis Jónsdóttir býður lesandanum að slást í för með sér vítt og breitt um heiminn. Vegabréf: Íslenskt. Frá Afganistan til Bosníu og Búrkína Fasó er einlæg og nærgætin frásögn frá ferðalögum hennar til svæða sem bera djúp ör einræðisstjórna og hernaðarátaka. Sögumaður leggur sig fram við að kynna og kanna hugarheim heimafólks og þannig fær lesandinn að kynnast heimssögunni fjarri söguskoðun innlendra valdhafa og vestrænna fréttamiðla.

Í flokki fagurbókmennta:

Eden eftir Auði Övu Ólafsdóttur            

Eden | Penninn EymundssonEden eftir Auði Övu Ólafsdóttur fjallar um málvísindakonu og háskólakennara sem kaupir sér sumarhús nálægt ótilgreindu þorpi til að búa sér persónulegt athvarf. Það reynist erfitt að einangra sig, ástsjúkt ungskáld herjar á hana og þorpsbúar vilja virkja krafta hennar á marga ólíka vegu. Og nú ber hún líka ábyrgð á jarðarskika. Bókin er full af hlýrri íroníu og gagnrýni á þá sem svæfa samvisku sína og ganga burt frá því sem þeim hefur verið trúað fyrir.

Urta eftir Gerði Kristnýju

Urta – Forlagið bókabúðUrta eftir Gerði Kristnýju er ljóðabálkur um líf konu á mörkum hins byggilega heims við norðurskaut. Ljóðin lýsa heimi þar sem eins dauði er annars brauð. Þrátt fyrir miskunnarleysið tengir þráður samkenndar og samstöðu mæður sem hunsa mörkin milli manns og dýrs, menningar og náttúru. Urta er ort af fágætri stílsnilld. Hún er fágað, lágmælt listaverk, ljóðabálkur sem rúmar bæði dýptir og víddir.

Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur   

Tól by Kristín EiríksdóttirTól eftir Kristínu Eiríksdóttir segir sögu kvikmyndagerðarkonu, sem vinnur að heimildarmynd um ógæfumann sem hún eitt sinn þekkti. Eftir því sem verkinu miðar fram verður saga hennar stríðari, nærgöngulli og margþættari. Hún er krafin um afstöðu til persónanna í myndinni en vitandi að„sögur eru vopn“ neitar hún að útdeila sekt og sakleysi og nota þau tól sem tiltæk eru gegn sínum minnsta bróður. Djúphugsað og margslungið skáldverk í samtali sínu við samvisku og samkennd.

Eftirfarandi konur sitja í dómnefnd Fjöruverðlaunanna 2023:

Barna- og unglingabókmenntir:
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku
Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
Guðlaug Richter, íslenskufræðingur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sagnfræðingur
Sigrún Helga Lund, tölfræðingur
Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari

Fagurbókmenntir:
Dagný Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur
Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur
Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur