Gleði ríkti á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur 2. desember 2021 þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi.
Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:
Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:
Í flokki barna- og unglingabókmennta
- Ótemjur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur
- Reykjavík barnana eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur
- Akam, ég og Annika eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur
Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis
- Kristín Þorkelsdóttir eftir Bryndísi Björgvinsdóttur og Birnu Geirfinnsdóttur
- Kvár, hvað er að vera kynsegin? eftir Elísabetu Rún
- Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur
Í flokki fagurbókmennta:
- Merking eftir Fríðu Ísberg
- Dyngja eftir Sigrúnu Pálsdóttur
- Tanntaka eftir Þórdísi Helgadóttur
Rökstuðningur dómnefnda:
Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Ótemjur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur
Í Ótemjum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur eru velferð barna og umgengni við náttúruna í brennidepli. Barn frá brotnu heimili þarf kærleiksríka og leiðandi hönd og náttúra í hættu þarfnast kjarkmikils baráttufólks. Glíman við ótemjurnar í sálarlífinu og í umhverfinu er upp á líf og dauða og því er ekki verra að njóta liðsinnis úr hulduheimum. Höfundur skapar úr þessu efni spennandi sögu með skemmtilegum persónum sem á brýnt erindi við lesendur.
Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur
Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur fjallar um sögu Reykjavíkur frá því fyrir landnám til vorra daga. Bókin er ríkulega myndskreytt og er hver opna afmörkuð innsýn í sögu borgarinnar. Höfundar draga fram fjölbreyttan fróðleik og gera skil á skemmtilegan hátt í góðu jafnvægi texta og mynda. Texti Margrétar er hnitmiðaður í auðlesnum efnisgreinum og myndir Lindu eru litríkar og bæta ýmsu við. Bókin vekur löngun til að fræðast meira um höfuðborgina.
Akam, ég og Annika eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur
Akam, ég og Annika eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur er ungmennabók sem tekur á fjölbreyttum málum sem eiga sinn stað í umræðu samtímans. Unglingsrödd sögumannsins er sannfærandi og augljóst að höfundur hefur unnið þrekvirki í því að setja sig í spor nútímaunglingsins. Frásögnin er margþætt og allir endar eru leiddir saman í lokin. Þetta er fyndin, krefjandi og spennandi saga sem á erindi við ungmenni.
Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Kristín Þorkelsdóttir eftir Bryndísi Björgvinsdóttur og Birnu Geirfinnsdóttur
Fáir hönnuðir hafa skipað jafn stóran sess í hversdagslífi Íslendinga og Kristín Þorkelsdóttir. Á yfir fimm áratuga ferli liggja eftir hana ótal rótgróin vörumerki, minnisstæðar umbúðir og bókakápur, að ógleymdum peningaseðlunum sjálfum. Hverjum þessara þátta eru gerð góð skil í bókinni Kristín Þorkelsdóttir eftir Bryndísi Björgvinsdóttur og Birnu Geirfinnsdóttur. Bókin er einstaklega fögur og vel hönnuð, allt frá uppsetningu mynda og texta til efnislegrar uppbyggingar. Hér er fjallað um lífshlaup og arfleifð eins okkar afkastamestu listamanna með miklum sóma.
Kvár, hvað er að vera kynsegin? eftir Elísabetu Rún
Í bókinni Kvár, hvað er að vera kynsegin? eftir Elísabetu Rún kynnumst við nokkrum persónum sem öll skilgreina sig utan kynjatvíhyggjunnar. Nýyrðið kvár er nafnorð í hvorugkyni og merkir ókyngreind manneskja. Bókinni, sem er sett upp í teiknimyndaform, tekst einstaklega vel að fræða lesendur um kvár og um leið um fjölbreytileikann sem býr undir regnboganum.
Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur
Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur fjallar um ævi og starf eins merkasta vísindamanns Íslands á 20. öld. Saga Sigurðar er samofin sögu jarðfræðirannsókna, jöklaferða og náttúruverndar á Íslandi. Höfundur fer með lesandann í heillandi ferðalag upp á jökla, í gegnum öskulög og inn í kvikuhólf í fylgd með vísindamanninum, söngvaskáldinu og náttúruverndarsinnanum Sigurði. Bókina prýðir aragrúi mynda sem glæða frásögnina lífi og dýpka skilning á efninu.
Í flokki fagurbókmennta:
Merking eftir Fríðu Ísberg
Merking eftir Fríðu Ísberg kallast skýrt á við íslenskan samtíma þó að sagan sé vísindaskáldsaga sem gerist í framtíðinni. Ólíkum persónum er fylgt eftir þar sem sögur þeirra fléttast saman í frásögn sem gefur ekkert eftir í heimspekilegri skoðun sinni á samfélagi okkar. Sagan er frumleg og stíllinn nýskapandi og notkun tungumálsins einkar úthugsuð og áhrifarík og styður við heildstæða persónusköpun verksins.
Dyngja eftir Sigrúnu Pálsdóttur
Dyngja eftir Sigrúnu Pálsdóttur segir sögu bóndadóttur sem fædd er um miðbik 20. aldar. Theodóra/Teddý er gædd óvenjulegri stærðfræðigáfu. Heimur tækni og vísinda er karlaheimur, þar og þá, og konur eru ekki velkomnar í hann. Greiningarhæfileiki Teddýjar gerir henni að lokum kleift að snúa vonlausri stöðu sér í hag og tefla til sigurs. Dyngja er lágmælt saga með magnaðan undirtexta sem höfðar sterkt til réttlætiskenndar lesenda.
Tanntaka eftir Þórdísi Helgadóttur
Tanntaka er fyrsta ljóðabók Þórdísar Helgadóttur. Ljóðmælandi leiðir lesanda gegnum foreldrahlutverk, einkum þátt móðurinnar og hins kvenlega. Ljóðin eru marglaga og djúp og slá á fínustu hjartastrengi lesenda. Börnin vaxa og kvíði fyrir framtíð þeirra og loftslagsváin er einnig sýnileg í ljóðunum. Þessi ljóðabók á erindi við samtímann af því að málefnin sem hún snertir hljóta að verða lesanda hugleikin. Þau ber að lesa oft því ný sýn fylgir hverjum lestri.
Í dómefndum sitja:
Barna- og unglingabókmenntir:
- Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku
- Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
- Hildur Ýr Ísberg, íslensku- og bókmenntafræðingur
Fræðibækur og rit almenns eðlis:
- Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sagnfræðingur
- Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
- Sigrún Helga Lund, tölfræðingur
Fagurbókmenntir:
- Dagný Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur
- Elín Björk Jóhannsdóttir, bókmenntafræðingur
- Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur