Fjöruverðlaunin 2020: Tilnefningar

Gleði ríkti á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur 3. desember 2019 þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Fagurbókmenntir

  • Svanafólkið eftir Kristínu Ómarsdóttur
  • Okfruman eftir Brynju Hjálmsdóttur
  • Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur

Dómnefnd skipuðu Elín Björk Jóhannsdóttir, Jóna Guðbjörg Torfadóttir og Kristín Ástgeirsdóttir.

Fræðibækur og rit almenns eðlis

  • Öræfahjörðin: Saga hreindýra á Íslandi eftir Unni Birnu Karlsdóttur
  • Jakobína: Saga skálds og konu eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur
  • Listin að vefa eftir Ragnheiði Björk Þórsdóttur

Dómnefnd skipuðu Dalrún J. Eygerðardóttir, Sóley Björk Guðmundsdóttir og Þórunn Blöndal

Barna- og unglingabókmenntir

  • Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir eftir Margréti Tryggvadóttur
  • Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur
  • Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur

Dómnefnd skipuðu Guðrún Jóhannsdóttir, Hildur Ýr Ísberg og Sigrún Birna Björnsdóttir.

Rökstuðningur dómnefnda

Fagurbókmenntir

Svanafólkið eftir Kristínu Ómarsdóttur (Partus)

Svanafólkið eftir Kristínu Ómarsdóttur er margslungin skáldsaga sem grípur lesandann strax heljartökum og situr lengi í honum á eftir. Sagan er í senn hrollvekjandi og grátbrosleg í lýsingum sínum á samskiptum embættismanns sem býr í eftirlitsríki við hálfmennskar verur sem lifa utangarðs. Þannig rennur kaldranalegur veruleikinn saman við furður sem ættaðar eru úr heimi ævintýra og goðsagna. Sagan vekur mjög til umhugsunar um mennskuna og þau landamörk sem manneskjan setur til að greina sig frá öðrum og loka sig af. Þá geymir áhrifamikill textinn gnótt myndmáls og ljóðrænu sem fangar vel frumlegt viðfangsefnið. Kristín gerir þetta listavel.

Okfruman eftir Brynju Hjálmsdóttur (Una útgáfuhús)

Okfruman verður til við samruna en margfaldast svo endalaust eins og orðin sem streyma. Hún er tákn um líf en hvað verður um þetta líf? Í ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur fylgjumst við með stúlku frá fæðingu og fram á óræðan aldur. Barnið er að uppgötva lífið en upplifir líka dauða nákominna, þar á meðal barna. Það eru víða ógnir; stúlkan sér það sem aðrir sjá ekki, eins og slönguna sem hringar sig um flugvöllinn og minnir því um margt á völvu. Ljóðaheimur Brynju er mjög myndrænn, ljóðmálið margrætt og þrungið kvenlegri reynslu. Hér er vel að verki staðið í spennandi ljóðabók.

Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur (Benedikt bókaútgáfa)

Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur er ljómandi vel skrifuð og margþætt skáldsaga. Þar fléttast saman sögur ólíkra persóna; eldri manns sem elst upp við Breiðafjörð, húsmóður í Kópavogi og ungs innflytjanda frá Kína. Öll eiga þau það sameiginlegt að vera jaðarsett og einangruð, hvert á sinn hátt. Heimurinn sem Bergþóra dregur upp er grimmur en persónur hennar eru heilsteyptar og þótt lýsingar séu oft gróteskar eru þær skapaðar af stakri næmni fyrir breyskleika mannfólksins. Bergþóra dregur fram áhrifaríkar myndir sem sitja lengi í lesandanum og vald hennar á tungumálinu er slíkt að unun er að lesa Svínshöfuð.

Fræðibækur og rit almenns eðlis

Öræfahjörðin: Saga hreindýra á Íslandi eftir Unni Birnu Karlsdóttur (Sögufélag)

Bókin Öræfahjörðin: Saga hreindýra á Íslandi, eftir Unni Birnu Karlsdóttur, er ítarleg umhverfissagnfræðileg rannsókn á sögu sambýlis Íslendinga og tignarlegra hreindýra runnum frá Finnmörku; huldudýrum hálendisins. Lífshættir íslenskra hreindýra hafa verið sveipaðir ákveðinni dulúð, enda megin búsvæði þeirra fjarri mannabyggðum. Bókin gerir lesandanum fært að fylgja hreindýrunum frá komu þeirra til landsins og áfram í gegnum aldirnar, fram á okkar tíma. Á þeirri söguslóð er farið yfir hreindýraveiðar, lífshætti og útbreiðslu hreindýra, sem og rannsóknir og vöktun á hreindýrum. Höfundur gerir lesandanum kleift að upplifa sögu hreindýranna, með lýsandi texta og ljósmyndum, sem í senn dýpka frásögnina og færa okkur nær heimi hreindýranna.

Jakobína: Saga skálds og konu eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur (Mál og menning)

Jakobína, saga skálds og konu, segir frá lífi og starfi Jakobínu Sigurðardóttur rithöfundar. Jakobína er án efa með merkilegri skáldum síns tíma á Íslandi, en ferlið var oft flókið. Bókin segir frá löngun í menntun, togstreitu gagnvart hjónabandi og síðar húsmóðurhlutverkinu, og skáldastarfinu sem hún brann fyrir alla ævi.  Bókin er skrifuð af dóttur Jakobínu, Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur, sem tvinnar einstaklega vel saman sögu þessarar áhugaverðu konu, bréfaskrif milli Jakobínu og hennar nánustu, og ljóð eftir hana og aðra. Útkoman er forvitnileg saga sem gefur ómetanlega innsýn inn í líf og hugarheim þessa áhrifamikla skálds.

Listin að vefa eftir Ragnheiði Björk Þórsdóttur (Vaka Helgafell)

Bók Ragnheiðar Bjarkar Þórsdóttur, Listin að vefa, er metnaðarfullt verk um veflistina, eitt elsta listrænt handverk sem enn er stundað í veröldinni. Vaðmál og röggvarfeldir voru mikilvæg útflutningsvara á þjóðveldisöld og vefnaður skipti því verulegu máli fyrir afkomu Íslendinga fyrr á öldum. Í bók Ragnheiðar kynnast lesendur ýmsu því sem getur vakið og viðhaldið áhuga á þessari ævagömlu handmennt. Textinn er einkar skýr og læsilegur og ljósmyndir og teikningar styðja vel við textann og sýna það sem erfitt er að lýsa með orðum. Listin að vefa er metnaðarfullt verk og stuðlar að samfellu í verk- og listmenningu á Íslandi og mun vafalaust verða uppspretta hugmynda og aðferða íslenskra vefara um ókomin ár.

Barna- og unglingabókmenntir

Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir eftir Margréti Tryggvadóttur (Iðunn)

Kjarval, málarinn sem fór sínar eigin leiðir eftir Margréti Tryggvadóttur er bók handa börnum um okkar ástsælasta myndlistamann, Jóhannes Kjarval. Hér er um að ræða einstaklega vandaða bók, fallegan grip sem unun er að skoða og lesa. Í bókinni er ævi Kjarvals og listamannsferill rakinn í máli og myndum. Texti bókarinnar segir áhugaverða þroskasögu sveitadrengs sem vex upp og verður stórkostlegur listamaður og mikill persónuleiki. Frásögnin er uppfull af skemmtilegum smáatriðum úr ævi Kjarvals. Þetta er bók sem ung börn geta notið með fullorðnum og fyrir eldri börn er hún fengur hvort sem er til yndislestrar eða sem heimildarit í listasögu. Það er til mikillar fyrirmyndar að vanda bókagerð fyrir börn á þann hátt sem hér hefur verið gert. Okkur er því sönn ánægja að veita Margréti Tryggvadóttur tilnefningu til Fjöruverðlaunanna 2020.

Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur (Bókabeitan)

Bergrún Íris Sævarsdóttir er fjölkunnug mjög enda bæði afbragðs listakona og rithöfundur. Bók hennar, Kennarinn sem hvarf er fimlega byggð spennusaga sem heldur lesendum á aldrinum 9-12 ára föngnum til enda. Spennusagnaformið keyrir söguna áfram en sagan er allt í senn, hröð og skemmtileg og byggð samkvæmt lögmálum hefðbundinnar frásagnar. Söguna segir 12 ára gömul stúlka sem ásamt bekkjarfélögum sínum leita horfins kennara og leysa um leið flóknar þrautir. Persónurnar virðast við fyrstu sýn fremur einfaldar og staðlaðar en þegar á reynir eru þær ekki byggðar upp af staðalímyndum heldur verða þær lifandi og margræðar þegar á frásögnina líður rétt eins og frásögnin sjálf. Bygging bókarinnar ásamt persónusköpun fleytir þessari heildstæðu sögu hátt og færir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur tilnefningu til Fjöruverðlaunanna 2020.

Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur (Björt)

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir sló í gegn með frumraun sinni, Koparborginni. Villueyjar gerist í sama heimi og Koparborgin, en hefur aðrar persónur í aðalhlutverki. Bókin er lengri en frumraunin og fléttan flóknari, en höfundur heldur þó þétt í alla tauma og byggingin er listavel gerð. Ragnhildur skrifar gott og vandað mál og býr til sannfærandi fantasíuheim sem inniheldur vísanir og skírskotanir til samtíma og raunheima. Persónusköpun er sannfærandi og lesendur fá einlæga samúð með örlögum sögupersónanna. Villueyjar er sannarlega gott innlegg í sístækkandi fantasíuhefð íslenskra ungmenna. Þetta er hörkuspennandi verk og á sannarlega skilið tilnefningu til Fjöruverðlauna 2020.