Fjöruverðlaunin 2017: Auglýst eftir bókum

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, tilnefna bækur eftir konur til verðlauna í þremur flokkum:

  • fagurbókmenntir
  • fræðibækur og rit almenns eðlis
  • barna og unglingabækur

Skorað er á útgefendur að leggja fram útgáfubækur ársins 2016 í þessa flokka. Þrjú eintök af framlagðri bók þurfa að berast á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda sem fyrst.

Hvaða bækur koma til greina?

Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:

  • skrifaðar af konu/konum
  • frumútgáfa sé á íslensku
  • gefnar út af forlagi á Íslandi
  • koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
  • innihaldi texta af einhverju tagi
    að kona/konur eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur séu helmingur höfunda (ef margir)

Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.

Hvernig er bók skráð til þátttöku?

Á hverju hausti auglýsa Fjöruverðlaunin eftir skráningum í verðlaunapottinn. Auglýst er á heimasíðu Fjöruverðlaunanna og Fésbókarsíðu þeirra, og hvatning er send til útgefenda á póstlista Félags íslenskra bókaútgefenda.

Útgefendur skrá bækur til þátttöku og ákveða í hvaða flokki þær taka þátt. Það er útgefendum að kostnaðarlausu að setja bækur sínar í pottinn en útgefendur þurfa að gera eftirfarandi:

a) Senda lista yfir allar bækur útgefanda eftir konur, flokk og áætlaðan útgáfutíma þeirra til stjórnar Fjöruverðlaunanna fyrir 31. október 2016, á bokmenntaverdlaunkvenna[hjá]gmail.com.

b) Afhenda þrjú eintök af hverri bók Félagi íslenskra bókaútgefenda sem sér um að dreifa bókunum til dómnefnda.