Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár

Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár.

Hægt er að leggja fram bækur eftir konur og kvára.

Þátttökukostnaður er ókeypis, en þremur eintökum þarf að skila inn fyrir dómnefnd.

Hægt er að tilnefna bækur í þremur flokkum:

  • fagurbókmenntir
  • fræðirit og bækur almenns eðlis
  • barna- og unglingabókmenntir

Dómnefndarbókum skal komið á skrifstofu Rithöfundasambands Íslands í allra síðasta lagi föstudaginn 25. október 2024. Ef ekki er unnt að koma prentuðum bókum til skila fyrir þann tíma, er nauðsynlegt að senda rafrænt eintak á  bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir þann dag, svo að bókin komi til greina. Þá þurfa útgefendur að koma þremur prentuðum eintökum af sömu bók á skrifstofu RSÍ fyrir föstudaginn 15. nóvember 2024.

Þrjár bækur eru tilnefndar í hverjum flokki og verða tilnefningar kynntar 3. desember 2024. Fjöruverðlaunin verða svo veitt 6. mars 2025.

Þremur eintökum af bókum skal skilað til:

Rithöfundasambands Íslands
Gunnarshúsi – Dyngjuvegi 8, 104 Reykjavík
Opið 10:00 – 14:00

Aðeins bækur/handrit sem hafa borist fyrir 25. október koma til greina.

Hvaða bækur koma til greina?

Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:

  • skrifaðar af konu/konum eða kvár
  • frumútgáfa sé á íslensku
  • gefnar út af forlagi á Íslandi
  • koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
  • innihaldi texta af einhverju tagi
  • að kona/konur eða kvár eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur eða kvár séu helmingur höfunda (ef margir)
  • Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.

Nánari upplýsingar veitir stjórn Fjöruverðlaunanna í netfanginu bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com.

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 2024

Aðalfundur félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna og kvára á Íslandi er haldinn þriðjudaginn 22. október kl. 19:00. Fundurinn er haldinn á rafrænum vettvangi, í gegnum Teams fjarfundarbúnaðinn.

Til þess að taka þátt í rafrænum aðalfundi er nauðsynlegt að skrá netfang sitt. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku, hér. 

Á næstu dögum mun félagsfólki berast krafa í heimabanka fyrir félagsgjöldum Fjöruverðlaunanna, 2.500 kr. Við hvetjum félagsfólk allt til að greiða árgjöldin og leggja þar með sitt af mörkum til að tryggja framgang Fjöruverðlaunanna!

Dagskrá fundar

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 8. október) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá. Liður fellur niður þar sem kosið var til tveggja ára í öll embætti á aðalfundi 2023.
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Fjöruverðlaunin 2024: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna og kvára, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða 7. mars 2024. Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta: Móðurást: Oddný eftir Kristínu Ómarsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis: Með verkum handanna. Íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson, Lilja Árnadóttir bjó til prentunar

Í flokki barna- og unglingabókmennta: Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina eftir Margréti Tryggvadóttur

Þetta í átjánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í níunda sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Einar Þorsteinsson gesti velkomna. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.

Rökstuðningur dómnefnda

Móðurást: Oddný eftir Kristínu Ómarsdóttur

Í Móðurást: Oddný segir Kristín skáldaða sögu langömmu sinnar, Oddnýjar Þorleifsdóttur. Hún elst upp í stórum systkinahópi í uppsveitum Árnessýslu á seinni hluta nítjándu aldar og er sagan sögð frá sjónarhóli barnsins. Lífið er sannarlega ekki auðvelt hjá fjölskyldunni en bókin er uppfull af húmor og gefur lesandanum nýja og ferska sýn á fortíðina. Sorgir og dauðinn eru eilíflega nærri en lífið snýst um svo margt stærra og meira. Textinn er ákaflega fallegur og ljúfsár og færir sagan okkur nær formæðrum okkar. Kristínu tekst afar vel upp á nýjum söguslóðum á ferli sínum.

Með verkum handanna. Íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson, Lilja Árnadóttir bjó til prentunar

Hin merka saga íslenskra refilsaumsverka birtist loks lesendum í stórvirkinu Með verkum handanna. Íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson. Líkt og umfjöllunarefnið er bókin fögur, kaflarnir yfirgripsmiklir, aðgengilegir lesendum og vekja áhuga á rannsóknarefninu. Þá er framsetning ritstjóra bókarinnar áhrifamikil en greinum fræðimanna er ofið inn í heildartextann á hátt sem undirstrikar áhrif ævistarfs Elsu E. Guðjónsson á alþjóðlegan fræðaheim.

Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina eftir Margréti Tryggvadóttur

Í bókinni Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina fjallar Margrét Tryggvadóttir um listafólkið sem lagði grunn að íslenskri listasögu. Að auki greinir hún í stuttu máli frá ýmsum aðferðum sem notaðar eru við listsköpun. Bókin er einstaklega vel unnin, umbrotið vandað, myndirnar vel valdar og textinn á fallegu máli. Hér er á ferðinni sannkallað listaverk sem er um leið mjög fróðlegt og vekur áhuga á listum.

 

Í dómnefndum sátu:

Fagurbókmenntir:

  • Jóna Guðbjörg Torfadóttir, framhaldsskólakennari
  • Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur
  • Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisfræðingur
  • Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
  • Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor í bókmenntafræði

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
  • Guðlaug Richter, íslenskufræðingur
  • Helga Birgisdóttir, lektor í íslensku

 

Fjöruverðlaunin 2024: Tilnefningar

Mikið var um dýrðir á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur 5. desember 2023 þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna og kvára á Íslandi.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

  • Hrím eftir Hildi Knútsdóttur
  • Ég þori! Ég get! Ég vil! eftir Lindu Ólafsdóttur
  • Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina eftir Margréti Tryggvadóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

  • Kynlegt stríð, ástandið í nýju ljósi eftir Báru Baldursdóttur
  • Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson, ritstjóri Lilja Árnadóttir
  • Andlit til sýnis: Íslendingar og aðrir á Kanarísafninu eftir Kristínu Loftsdóttur

Í flokki fagurbókmennta:

  • Fegurðin í flæðinu eftir Ester Hilmarsdóttur
  • Móðurást: Oddný eftir Kristínu Ómarsdóttur
  • Ævintýrið eftir Vigdísi Grímsdóttur

Rökstuðningur dómnefnda

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

Hrím eftir Hildi Knútsdóttur

Hrím er fantasía sem gerist á kunnuglegu en þó framandi Íslandi og er saga um náttúruna, manneskjurnar, ástina og örlögin sem aldrei eru vís. Á hugvitsamlegan og næman hátt segir Hildur Knútsdóttir sögu Jófríðar, unglingsstúlku sem tekst á við áskoranir unglingsáranna ásamt því að þurfa að axla óbærilega þunga ábyrgð þegar framtíð fólksins hennar hvílir skyndilega á henni. Hrím er hörkuspennandi og stundum ógnvekjandi skáldsaga sem ómögulegt er að leggja frá sér.

Ég þori! Ég get! Ég vil! eftir Lindu Ólafsdóttur

Barátta íslenskra kvenna fyrir auknu jafnrétti hefur ratað á bók sem ætluð er börnum, Ég þori! Ég get! Ég vil! Höfundur mynda og texta er Linda Ólafsdóttir. Sagan er sögð með heillandi og merkingarþrungnum myndum og texta þar sem móðir rifjar upp og dóttir spyr spurninga. Frásögn af kvennafrídeginum 1975 kallast á við 24. október þessa árs og sýnir að enn þarf að berjast. Fallegt verk með skemmtilegum myndum og stuttum, hnitmiðuðum texta sem bæði uppfræðir og skemmtir.

Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina eftir Margréti Tryggvadóttur

Í bókinni Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina fjallar Margrét Tryggvadóttir um listafólkið sem lagði grunn að íslenskri listasögu. Að auki greinir hún í stuttu máli frá ýmsum aðferðum sem notaðar eru við listsköpun. Bókin er einstaklega vel unnin, umbrotið vandað, myndirnar vel valdar og textinn á fallegu máli. Hér er á ferðinni sannkallað listaverk sem er um leið mjög fróðlegt og vekur áhuga á listum.

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

Kynlegt stríð, ástandið í nýju ljósi eftir Báru Baldursdóttur

Það er draumur að vera með dáta var sungið í eina tíð en bókin Kynlegt stríð, ástandið í nýju ljósi eftir Báru Baldursdóttur dregur fram nöturlegar staðreyndir ástandsins svonefnda; persónunjósnir, niðurlægingu og ofbeldi gagnvart þeim konum sem talið var að væru í tygjum við hermenn. Stuðst er við áður ónýttar heimildir og tímabilið brotið til mergjar. Hér er drusluskömm skilað til föðurhúsa og gerð viðeigandi skil á afar aðgengilegan, skipulagðan og skýran hátt.

 

Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson, ritstjóri Lilja Árnadóttir

Hin merka saga íslenskra refilsaumsverka birtist loks lesendum í stórvirkinu Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson. Líkt og umfjöllunarefnið er bókin fögur, kaflarnir yfirgripsmiklir, aðgengilegir lesendum og vekja áhuga á rannsóknarefninu. Þá er framsetning ritstjóra bókarinnar áhrifamikil en greinum fræðimanna er ofið inn í heildartextann á hátt sem undirstrikar áhrif ævistarfs Elsu E. Guðjónsson á alþjóðlegan fræðaheim.

 

Andlit til sýnis: Íslendingar og aðrir á Kanarísafninu eftir Kristínu Loftsdóttur

Í bók sinni Andlit til sýnis: Íslendingar og aðrir í Kanarísafninu leiðir Kristín Loftsdóttir okkur um grimmilega sögu kynþáttahyggju á upplýsandi og áhugaverðan hátt. Sjónarhorn frásagnarinnar gefur lesandanum nýja sýn á aldagamalt valdakerfi og teflir fram raunverulegum persónum sem viðfangi vísinda. Hið persónulega verður pólitískt. Bókin sem byggir á umfangsmikilli rannsóknarvinnu, er afar vönduð, ríkulega myndskreytt og á erindi við alla fróðleiksfúsa.

Í flokki fagurbókmennta:

Fegurðin í flæðinu eftir Ester Hilmarsdóttur

Ljóðabók Esterar er hennar fyrsta verk en á því er enginn byrjendabragur. Ljóðin hverfast öll um blæðingar leghafa og nálgast þær á afar hugvitssamlegan hátt. Þau geyma gjarnan óvænt líkingamál og myndrænar lýsingar á þessari mánaðarlegu egglosun sem ýmist vekur skömm, létti eða sár vonbrigði. Auk þessa prýða bókina teikningar sem hæfa mjög efninu. Þar eru dregnar upp útlínur kvenlíkamans með einföldum en áhrifaríkum hætti þar sem eini liturinn er rautt, vatnslitað blóðið.

Móðurást: Oddný eftir Kristínu Ómarsdóttur

Kristín segir hér skáldaða sögu langömmu sinnar, Oddnýjar Þorleifsdóttur. Hún elst upp í stórum systkinahópi í uppsveitum Árnessýslu um miðja nítjándu öldina og segir söguna frá sjónarhóli barnsins. Lífið er sannarlega ekki auðvelt hjá fjölskyldunni en bókin er uppfull af húmor og gefur lesandanum nýja og ferska sýn á fortíðina. Sorgir og dauðinn eru eilíflega nærri en lífið er stærra og meira. Ákaflega fallegur og ljúfsár texti sem færir okkur nær formæðrum okkar.

Ævintýrið eftir Vigdísi Grímsdóttur 

Með aðferðum ævintýrisins segir Vigdís okkur sögu um vináttu drengs og fisks sem getur breytt sér í manneskju (fisklyktin leynir sér þó ekki). Drengirnir leiða okkur um samfélag fátæktar, kúgunar, ofbeldis og einræðis. Hér er ekki allt sem sýnist því sagan er hápólitísk í umfjöllun sinni um börn sem búa í ógnarsamfélagi. Hún kallast á við nútíma okkar þar sem þúsundir barna búa við hörmulegar aðstæður. Texti Vigdísar er heillandi um leið og hann spyr áleitinna spurninga.

 

Eftirfarandi konur sitja í dómnefnd Fjöruverðlaunanna 2024:

Barna- og unglingabókmenntir:
Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
Guðlaug Richter, íslenskufræðingur
Helga Birgisdóttir, lektor í íslensku

Fræðibækur og rit almenns eðlis:
Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisfræðingur
Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor í bókmenntafræði

Fagurbókmenntir:
Jóna Guðbjörg Torfadóttir, framhaldsskólakennari
Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur
Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur

Tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna 5. desember kl. 17

Velkomin á tilnefningahátíð Fjöruverðlauna – bókmenntaverðlauna kvenna og kvára mánudaginn 5. desember kl. 17. Hátíðin verður haldin í Borgarbókasafninu í Grófinni við Tryggvagötu.

Dómnefndir tilnefna bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis.

Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna og kvára.

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 2023 afstaðinn

Aðalfundur félags um Fjöruverðlaunin var haldinn fimmtudaginn 19. október síðastliðinn.

Auk hefðbundinna aðalfundastarfa, sem gengu snurðulaust fyrir sig, var samþykkt eftirfarandi breyting á þriðju grein laga félagsins:

Tilgangur félagsins er að halda utan um skipulagningu og framkvæmd Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi, sem veitt skulu fyrir marslok á hverju ári.

VERÐUR

Tilgangur félagsins er að halda utan um skipulagningu og framkvæmd Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna og kvára á Íslandi, sem veitt skulu fyrir marslok á hverju ári.

 

 

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 2023

  1. Aðalfundur félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi er haldinn fimmtudaginn 19. október kl. 19:00. Fundurinn er haldinn á rafrænum vettvangi, í gegnum Teams fjarfundarbúnaðinn.

Til þess að taka þátt í rafrænum aðalfundi er nauðsynlegt að skrá netfang sitt. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku, hér. 

Á fundinum verður kosið um formann og þrjá fulltrúa í stjórn (tvo í aðalstjórn og einn í varastjórn). Kjörtímabil er til tveggja ára.

Vinsamlegast sendið framboð til formanns eða stjórnar á netfangið bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir 10. október næstkomandi.

Á næstu dögum mun félagsfólki berast krafa í heimabanka fyrir félagsgjöldum Fjöruverðlaunanna, 2.500 kr. Við hvetjum félagsfólk allt til að greiða árgjöldin og leggja þar með sitt af mörkum til að tryggja framgang Fjöruverðlaunanna!

Dagskrá fundar

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 10. október) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá.
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár

Fjöruverðlaunin óska eftir tilnefningum í ár.

Hægt er að leggja fram bækur eftir konur (sís og trans), trans fólk, kynsegin fólk og intersex fólk.

Þátttökukostnaður er ókeypis, en þremur eintökum þarf að skila inn fyrir dómnefnd.

Hægt er að tilnefna bækur í þremur flokkum:

  • fagurbókmenntir
  • fræðirit og bækur almenns eðlis
  • barna- og unglingabókmenntir

Dómnefndarbókum skal komið á skrifstofu Rithöfundasambands Íslands í allra síðasta lagi föstudaginn 27. október 2023. Ef ekki er unnt að koma prentuðum bókum til skila fyrir þann tíma, er nauðsynlegt að senda rafrænt eintak á  bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir þann dag, svo að bókin komi til greina. Þá þurfa útgefendur að koma þremur prentuðum eintökum af sömu bók á skrifstofu RSÍ fyrir föstudaginn 17. nóvember 2023.

Þrjár bækur eru tilnefndar í hverjum flokki og verða tilnefningar kynntar í desember 2023. Fjöruverðlaunin verða svo veitt 8. mars 2024.

Þremur eintökum af bókum skal skilað til:

Rithöfundasambands Íslands
Gunnarshúsi – Dyngjuvegi 8, 104 Reykjavík
Opið 10:00 – 14:00

Aðeins bækur/handrit sem hafa borist fyrir 27. október koma til greina.

Hvaða bækur koma til greina?

Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:

  • skrifaðar af konu/konum, trans fólki, kynsegin fólki eða intersex fólki
  • frumútgáfa sé á íslensku
  • gefnar út af forlagi á Íslandi
  • koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
  • innihaldi texta af einhverju tagi
  • að kona/konur eða trans/kynsegin/intersex fólk eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur eða eða trans/kynsegin/intersex fólk séu helmingur höfunda (ef margir)
  • Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.

Nánari upplýsingar veitir stjórn Fjöruverðlaunanna í netfanginu bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com.

Kristín Svava Tómasdóttir tekur á móti Fjöruverðlaununum 2023

Kristín Svava Tómasdóttir tók á móti Fjöruverðlaununum 2023 fyrir bók sína Farsótt: Hundrað ár í Þingholtsstræti 25. Við verðlaunaafhendinguna hélt Kristín Svava eftirfarandi ræðu:

Borgarstjóri, dómnefnd, góðir gestir.

Það er mér mikil ánægja að taka á móti Fjöruverðlaununum í ráðhúsi Reykjavíkurborgar fyrir einmitt þessa bók. Fjöruverðlaunin eru femínísk verðlaun og hið femíníska sjónarhorn er mikilvægur þáttur í frásögninni í Farsótt, bók sem fjallar í grunninn ekki síst um sögu Reykjavíkur.

Þegar ég byrjaði að skrifa Farsótt vissi ég að ég vildi skrifa sögu sem má kannski kalla lýðræðislega. Ég vildi skrifa stóra sögu, um hundrað ár í lífi húss, um sögu borgar, velferðarsamfélags, heilbrigðiskerfis; en ég vildi líka skrifa litlar sögur, af hversdagslegum uppákomum og fólki, bæði þeim sem lifðu í samhljómi við samfélag sitt og þeim sem voru úti á jaðrinum. Þetta er saga af sigrum jafnt sem ósigrum; af metnaðarfullri viðleitni við að byggja upp betra samfélag en líka skammtímalausnum og reddingum sem minni reisn var yfir.

Hugmyndin að Farsótt kviknaði á Borgarskjalasafni Reykjavíkur, yfir skjölum um fátækrahjálp bæjarins frá fyrstu áratugum 20. aldar. Bókin varð síðan á endanum að stórum hluta byggð á umfangsmiklum frumheimildum frá Borgarskjalasafni og Þjóðskjalasafni Íslands, þangað sem ég sótti bæði stóru sögurnar og þær litlu. Hún hefði aldrei getað orðið til ef ekki væri fyrir þekkingu, fagmennsku og hjálpsemi fólksins sem þar starfar og vildi allt fyrir mig gera.

Gögnin sem geymd eru á skjalasöfnum eins og Borgarskjalasafninu og Þjóðskjalasafninu eru grunnurinn að sameiginlegri sögu okkar, hvort sem hún einkennist af samstöðu eða átökum, og varðveisla þeirra og aðgengi að þeim er lykilatriði jafnt fyrir fræðimenn, stjórnsýsluna og almenna borgara. Ákvarðanir um framtíð þeirra skyldu ekki teknar að illa ígrunduðu máli. Það er lítil reisn yfir þeim áformum sem nýlega hafa verið gerð opinber að leggja niður Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Það er vissulega ekki lögbundin skylda borgarinnar að halda úti skjalasafni en til eru ýmsar stofnanir sem við myndum ekki vilja missa þótt tilvist þeirra sé ekki bundin í lög, vegna þess að þær skipta máli fyrir samfélagið og söguna og lýðræðið.

Með þeim orðum langar mig, auk þess að þakka dómnefnd Fjöruverðlaunanna heiðurinn, að tileinka þessi verðlaun skjalavörðum landsins, með ást og þakklæti. Takk fyrir mig.

Hægt er að sjá upptöku af ræðunni á Facebook síðu Fjöruverðlaunanna.

Fjöruverðlaunin 2023: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi, voru afhent við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal Ráðhússins þann 8. mars 2023.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta: Urta eftir Gerði Kristnýju (Mál og menning)

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis: Farsótt: Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur (Sögufélagið)

Í flokki barna- og unglingabókmennta: Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur (Mál og menning)

Þetta í sautjánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í níunda sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.

Rökstuðningur dómnefnda

Urta eftir Gerði Kristnýju

Ljóðmælandi Urtu eftir Gerði Kristnýju er kona sem býr við nyrsta haf. Lífsbaráttan er hörð, vetur herja með hafís og kulda. Maðurinn deyr, barn deyr og önnur áföll fylgja en konan og börn hennar gefast aldrei upp. Þau þrauka. Konan hjálpar urtu að kæpa, mörk milli manns og dýrs, menningar og náttúru hverfa í þessari göldróttu bók. Textinn er meitlaður, ljóðin hefðbundin í formi með stuðlum og innrím sem minnir á forna bragarhætti. Það undirstrikar einnig tímaleysi og skírskotun verksins til þeirrar stöðugu lífsbaráttu sem er hlutskipti manna og dýra.

Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur

Á horni Þingholtsstrætis og Spítalastígs stendur yfir aldargamalt, tveggja hæða timburhús með viðburðaríka sögu; fyrsta sjúkrahús Reykvíkinga, farsóttarspítali, geðsjúkrahús og gistiskýli fyrir heimilislausa. Í dag er það mannautt og ber dulúðlegt nafn með rentu. Í Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 rekur Kristín Svava Tómasdóttir sögu þessa merka húss, sem umfram allt er litrík saga fólksins sem húsið hýsti og samfélagsins sem skóp það.

Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur

Í Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur er hinn ungi Álfur fimleikastrákur aðalsöguhetjan og sögumaðurinn. Eftir því sem frásögn hans vindur fram kemur í ljós að sjónarhorn Álfs er ekki mjög áreiðanlegt enda neitar hann að horfast í augu við að litli bróðir hans sé einhverfur, að frænka hans eigi við fíknivanda að etja og að besti vinur hans sé lesblindur. Höfundur leikur fimlega á allan tilfinningaskalann og teflir fram sögumanni sem eignast hugi og hjörtu lesenda á öllum aldri. Sagan er í senn áhrifamikil, skemmtileg og spennandi en fyrst og fremst full af hlýju og mennsku.

Í dómnefndum sátu:

Fagurbókmenntir:
Dagný Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur
Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur
Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sagnfræðingur
Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
Sigrún Helga Lund, tölfræðingur

Barna- og unglingabókmenntir:
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku
Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
Guðlaug Richter, íslenskufræðingur