Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir taka á móti Fjöruverðlaununum 2022

Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir tóku á móti Fjöruverðlaununum 2022 fyrir bók sína Reykjavík barnanna. Við verðlaunaafhendinguna hélt Margrét eftirfarandi ræðu:

Kæri borgarstjóri (uppáhalds borgarinnar okkar), dómnefnd og gestir,

Við þökkum þann heiður að hljóta þessi verðlaun fyrir óskabarnið okkar, bókina Reykjavík barnanna.

Við trúum því að sögur skipti máli. Með þeim tökumst við á við tilveruna; hver við erum, hvaðan við komum og hvert við stefnum. Heimurinn er blessunarlega fullur af sögum og þær eru allavega. En það eru sögurnar okkar og sögurnar um okkur sem standa okkur næst. Ekki af því að þær séu betri en aðrar heldur einfaldlega vegna þess að þær eru um okkur.

Íslensk börn upplifa ótal sögur á hverjum degi. Þær koma til þeirra í formi brandara á skólalóðinni, slúðurs og skoðanaskipta, auglýsinga, texta amerískra rappara, myndbanda á tiktok og youtube, tölvuleikja, sjónvarpsefnis, frétta og auðvitað bóka. Aðeins brot af þessum sögum er á íslensku og enn minna hlutfall fjallar um lífið okkar hér á þessu skrítna skeri. Við munum aldrei geta fyllt youtube af íslensku efni eða framleitt endalausa tölvuleiki á íslensku en við getum búið til miklu fleiri góðar íslenskar barnabækur og það sem er ekki síður mikilvægt; Komið þeim til enn fleiri barna. Til þess þurfa höfundarnir stuðning, og ekki bara höfundar textans heldur höfundar myndanna líka. Þær eru síst minni frásögn en orðin og myndheimur ferðast með öðrum hætti á milli menningarheima en textinn. Það skiptir máli að sögurnar um okkur sýni ungum lesendum líka umhverfi sem þeir kannist við sem sitt eigið.

Þess vegna eru þessi verðlaun svo mikilvæg hvatning. Kærar þakkir fyrir okkur.