Fjöruverðlaunin nú fyrir konur (sís og trans), trans fólk, kynsegin fólk og intersex fólk!

Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna var á Zoom í dag, 5. október 2020.

Á fundinum voru samþykktar breytingar á lögum félagsins, að Fjöruverðlaunin verði útvíkkuð svo að til verðlaunanna koma til greina bækur eftir konur (sís og trans), sem og allt trans, kynsegin og intersex fólk.

Er þessi útvíkkun í anda grasrótarinnar sem upphaflega stofnaði til Fjöruverðlaunanna, að vekja athygli á verkum rithöfunda sem verða útundan í karllægri uppbyggingu bókmenntaheimsins. Líkt og konur, hefur trans, kynsegin og intersex fólk þurft að finna á eigin skinni fordóma feðraveldisins og verið njörvað niður í fjötra kynjakerfisins.

Var þessi lagabreytingartillaga samþykkt einróma á aðalfundi og fagnað með lófataki. Útvíkkun Fjöruverðlaunanna svo að þau nái til fleiri kynja mun auka framgang verðlaunanna og styrkja fleiri rithöfunda til starfa.

Hér er hægt að lesa greinargerð stjórnar sem fylgdi lagabreytingartillögunni.