Mikið var um dýrðir á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur 4. desember 2025 þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna og kvára.
Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:
Í flokki barna- og unglingabókmennta:
- Hjartslátturinn hennar Lóu eftir Kristínu Cardew og Lilju Cardew
- Silfurgengið eftir Brynhildi Þórarinsdóttur
- Sólgos eftir Arndísi Þórarinsdóttur
Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
- Drífa Viðar, ritstjórar Kristín Guðrún Jónsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir og Auður Aðalsteinsdóttir
- Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, ritstjórar Elinóra Guðmundsdóttir, Chanel Björk Sturludóttur og Elínborg Kolbeinsdóttir
- Piparmeyjar: Fröken Thora og saga einhleypra kvenna á Íslandi eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur
Í flokki fagurbókmennta:
- Hvalbak eftir Maó Alheimsdóttur
- Blái pardusinn, hljóðbók eftir Sigrúnu Pálsdóttur
- Postulín eftir Sunnu Dís Másdóttur
Rökstuðningur dómnefnda
Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Hjartslátturinn hennar Lóu eftir Kristínu Cardew og Lilju Cardew (Bókabeitan)
Dýralæknirinn sagði að stundaglasið hennar Lóu væri að tæmast og þegar það gerist þá hættir hjartað hennar að slá. Litla stúlkan grætur lengi í feldinn á Lóu en ákveður síðan að Lóa fái heilan dag til þess að gera uppáhalds skammarstrikin sín. Hjartslátturinn hennar Lóu eftir Kristínu og Lilju Cardew segir í einlægum texta og fínlegum myndum hugljúfa og grípandi sögu um sorg og missi en líka gleði.
Silfurgengið eftir Brynhildi Þórarinsdóttur (Mál og menning)
Því fylgir ólga að vera fimmtán ára og í Silfurgenginu dregur Brynhildur Þórarinsdóttir upp hjartnæma mynd af táningnum Sirrylei. Hún tekst á við stóru málin í lífinu: partýhald, stráka- og vinkvennamál ásamt því að leggjast yfir ættfræði með nördunum. Kveikjan að því er nælan sem amma gaf henni í afmælisgjöf og segir sögu þriggja kynslóða Sigríða. Silfurgengið er einlæg og spennandi saga sem sýnir lesandanum það sem hefur breyst og það sem er alltaf eins.
Sólgos eftir Arndísi Þórarinsdóttur (Mál og menning)
Sólgos Arndísar Þórarinsdóttur er fantavel skrifuð bók um hvað gerist þegar heimurinn breytist á augabragði, ekkert er eins og það var og enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Með augum Unnar fylgjast lesendur með því hvernig er tekið á tækni- og samskiptahruni en líka því hvað verður um siðgæði og samkennd. Sólgos er næm saga um málefni sem snerta okkur öll og stóra spurningin er í raun: Hvað skiptir okkur mestu máli?
Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Drífa Viðar, ritstjórar Kristín Guðrún Jónsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir og Auður Aðalsteinsdóttir (Ástríki útgáfa)
„Heimurinn er stór starfandi heili. Við erum höndin í þessum heila og vinnum það sem heilinn sýnir okkur“, skrifaði listakonan fjölhæfa Drífa Viðar um mennskuna og skáldskapinn í bréfi frá París 1947. Saga Drífu og verk hennar á sviðum myndlistar og skáldskapar, heimspeki og samfélagsbaráttu eru loks aðgengileg í einstaklega fallegu og vönduðu verki, Drífa Viðar í ritstjórn Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur, Elísabetar Gunnarsdóttur og Auður Aðalsteinsdóttur. Bókin er rík af heimildum, bréfaskriftum og samtímarýni sem veitir innsýn í það samfélag sem Drífa Viðar tók þátt í að móta og það erindi sem verk hennar eiga enn í dag.
Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, ritstjórar Elinóra Guðmundsdóttir, Chanel Björk Sturludóttur og Elínborg Kolbeinsdóttir (Vía útgáfa)
Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi sem ritstýrt er af Elinóru Guðmundsdóttur, Chanel Björk Sturludóttur og Elínborgu Kolbeinsdóttur er áhrifaríkt verk sem heiðrar framlag 33 kvenna sem í persónulegum frásögnum lýsa áskorunum við að flytja til Íslands, læra tungumálið og finna sinn stað. Bókin opnar glugga inn í veruleika sem oft er ósýnilegur, dregur fram styrk og seiglu kvennanna í að skapa nýtt líf og mikilvægi inngildingar og fjölbreytileika. Bókin er bæði falleg heimild og eiguleg bók sem gefur sterkum röddum og dýrmætum frásögnum rými.
Piparmeyjar: Fröken Thora og saga einhleypra kvenna á Íslandi eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur (Mál og menning)
Hvaða augum leit fólk piparmeyjar á seinni hluta 19. aldar? Áttu þær raunverulegt val í lífinu? Svör við spurningum sem þessum má finna í Piparmeyjar eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur, vandaðri bók þar sem ævi Thoru Friðriksson er rakin í ítarlegum texta, sendibréfum og myndum. Höfundur lætur sér ekki nægja að horfa eingöngu á Thoru, hún gefur lesanda góða innsýn í stéttaskiptingu, réttindi kvenna, störf, gleði og vonbrigði. Fröken Thora er dæmi um bráðgreinda konu sem á sér drauma en fórnar sér fyrir fjölskylduna.
Í flokki fagurbókmennta:
Hvalbak eftir Maó Alheimsdóttur (Mál og menning)
Hvalbak eftir Maó Alheimsdóttur er ljóðrænn óður til lands og tungu. Ljóðin hverfast um tengsl ljóðmælanda við náttúruna og þá einkum jökulinn sem býr í senn yfir fegurð og hrikaleika. Dregnar eru upp áhrifaríkar myndir af síbreytilegu landslagi þar sem jökullinn þarf sífellt að hopa og eftir sitja sorfnar klappir, hvalbök. Þá einkennir óvænt orðanotkun ljóðin þar sem fræðilegum íðorðum er fléttað saman við ljóðræna orðkynngi á afar ferskan hátt. Þetta er listilega gert.
Blái pardusinn, hljóðbók eftir Sigrúnu Pálsdóttur (Mál og menning)
Nóvellan Blái pardusinn, hljóðbók eftir Sigrúnu Pálsdóttur lætur ekki mikið yfir sér en segir þeim mun stærri sögu. Sögusviðið er marglaga þar sem þrjár ólíkar persónur lesa á sama tíma sömu hljóðbókina Bláa pardusinn, örlagasögu ungrar konu. Frásögnin er lipurlega fléttuð, þar sem eftirsjá, ráðaleysi og ólokin verk eru þeir þræðir sem tengja persónurnar fjórar og vefa þeim ósagðan örlagavef. Fjörlegur, lifandi og knappur stíll Sigrúnar nýtur sín vel í þessari margslungnu og snörpu sögu.
Postulín eftir Sunnu Dís Másdóttur (Mál og menning)
Ljóðabókin Postulín eftir Sunnu Dís Másdóttur er jafn fallega brothætt og titillinn gefur til kynna. Sögusvið bókarinnar er safn í smábæ þar sem fjallið vakir yfir íbúum og draugar fortíðar eru alltumlykjandi. Kona og fjall renna að lokum saman í eitt þegar dregin er upp mynd af snjóflóði samhliða því þegar ljóðmælandi upplifir fósturmissi. Undurfagur texti um sorg, missi og grimmd dauðans sem lætur í ljós einstaka næmni höfundar.
Eftirfarandi konur og kvár sitja í dómnefnd Fjöruverðlaunanna 2026:
Barna- og unglingabókmenntir:
- Helga Birgisdóttir, lektor í íslensku
- Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur
- Sunna Skúladóttir, íslenskufræðingur
Fræðibækur og rit almenns eðlis:
- Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
- Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisfræðingur
- Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor í bókmenntafræði
Fagurbókmenntir:
- Jóna Guðbjörg Torfadóttir, framhaldsskólakennari
- Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
- Unnur Steina Knarran Karls, bókmenntafræðingur

Listir, náttúra og ólgandi tilfinningar takast á í bókinni Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur. Hrynjandi ljóðræns textans knýr framvindu áfram þar sem meginstef eru ást, missir og innri leit. Form texta og litanotkun ljær frásögninni dýpt og er lesanda gefið rými til að skynja og túlka atburðarás sem lýkst upp eftir því sem líður á og rís hæst í sólódansi aðalpersónunnar. Birgitta Björg slær hér nýjan og forvitnilegan bókmenntatón.
Tjörnin eftir Rán Flygenring fjallar meðal annars um leikgleði, vináttu og málamiðlanir. Garður einn er uppáhaldsleiksvæði tveggja vina og dag einn taka þau eftir dæld í grasinu og þá hefst ævintýrið. Myndirnar kallast vel á við textann en líka íslenskan nútíma og á afslappaðan hátt er ýmsum áhugaverðum orðum bætt við orðaforða ungra lesenda, til dæmis krapagildra og krokketbogi. Tjörnin er fallegt og fyndið listaverk en líka skemmtileg og fræðandi saga.
„Að vera barnalegur er að vera klár, sniðugur, hugrakkur og duglegur!“ Fíasól í logandi vandræðum er áttunda bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur um stelpuskottið hana Fíusól. Hún er ákaflega upptekinn sveitarforingi í hjálparsveitinni sinni, hana langar að stofna dýrabjörgunardeild og Skólóvision er í fullum gangi. Í Vindavík leikur allt á reiðiskjálfi og Alla Malla kemur í skjálftafrí í bílskúrinn hjá Ingólfi Gauki. Bókin er skemmtilega myndskreytt og aðgengileg fyrir bókaorma á öllum aldri.
Í bókinni Sigrún í safninu fáum við innsýn í heim lítillar stúlku sem elst upp á Þjóðminjasafninu fyrir rúmlega hálfri öld. Sigrún Eldjárn segir hér frá fjölskyldu sinni, safnhúsinu, ýmsum safngripum og skemmtilegum atvikum sem allt birtist ljóslifandi í léttleikandi texta, myndum úr fjölskyldualbúminu og frábærum teikningum. Hlýleiki og húmor eru í fyrirrúmi en allskonar fróðleikur fær að fljóta með. Sannkallaður konfektmoli fyrir unga sem aldna fyrir heimsókn á Þjóðminjasafnið.
Í Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871 dregur Erla Hulda Halldórsdóttir upp lifandi mynd af íslensku samfélagi með greiningu og túlkun á sendibréfum nítjándu aldar. Í þessu vandaða verki fá lesendur að kynnast orðfæri kvenna, samfélagsgreiningum þeirra og aðferðum til að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi. Jafnframt miðlar Erla Hulda aðferðum sínum á upplýsandi hátt, setur rannsóknarspurningar í alþjóðlegt fræðasamhengi og hvetur þannig lesendur til að rannsaka bréfasöfn fyrri kynslóða og kynnast þeim „venjulegu“ röddum sem þar má finna.
„Þetta var nú andskotans barningur allt saman,“ segir Duna, Guðný Halldórsdóttir, um baráttu sína við að koma íslenskri kvikmyndagerð á skrið. Saga Guðnýjar og viðburðaríkur ferill hennar í kvikmyndagerð er efni bókar Kristínar Svövu Tómasdóttur og Guðrúnar Elsu Bragadóttur sem nefna rit sitt Duna. Saga kvikmyndagerðarkonu. Efni bókarinnar er unnið af alúð og vandvirkni og víða glittir í óborganlegan húmor Guðnýjar þegar hún lýsir baráttu sinni við kerfið og aðstöðuleysi þeirra sem vildu veg íslenskrar kvikmyndagerðar sem mestan.
Ljóð Ásdísar Óladóttur í bókinni Rifsberjadalurinn láta lítið yfir sér en geyma ólgandi tilfinningar, nautnir og nístandi sársauka. Veitt er opinská og einlæg innsýn í heim geðveikinnar sem ljóðmælandi leitast við að sefa með lyfinu Risperdal, sem titill bókar vísar til. Í seinni hluta bókar bíður nýr veruleiki þar sem hvunndagurinn er sveipaður ljóðrænu og ástin er hvikul. Ljóðin eru meitluð, nærgöngul og einstaklega áhrifarík.
Leit að ást og öryggi eru leiðarstef í bók Evu Rúnar Snorradóttur Eldri konur. Að baki býr þrá eftir umhyggju en undir yfirborðinu krauma erfiðar æskuminningar, tengslarof og rótleysi. Bygging frásagnar og form endurspegla innra líf aðalpersónu og dýpka frásögnina en fíkn og þráhyggja keyra framvindu sögunnar áfram um leið og aðstæður skýrast. Eva Rún skapar hér nýstárlegan sagnaheim um mikilvægt umfjöllunarefni af mikilli leikni.