Ný stjórn Fjöruverðlaunanna

Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna var haldinn að Hallveigarstöðum í Reykjavík í dag, 20. september 2017.

Á fundinum var í kosið til nýrrar stjórnar. Úr stjórn véku Ingibjörg Valsdóttir og Lára Jónsdóttir. Þökkum við þeim vel unnin störf í þágu félagsins. Í stjórn voru kosnar Erla E. Völudóttir og Valgerður Þórsdóttir. Áfram sitja í stjórn formaður Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og meðstjórnendur Ásbjörg Una Björnsdóttir og Guðrún Birna Eiríksdóttir. Óskum við nýrri stjórn velfarnaðar í starfi.

Svo gaman var á aðalfundi félagsins, að konur gleymdu algjörlega að taka mynd af nýrri stjórn. Svo þessari frétt fylgir málverk af konum sem dansa frá árinu 1917 eftir Arthur F. Mathews (1860-1945) og Lucia K. Mathews (1870-1955). Myndin er viðeigandi, því mikil gleði ríkir ávallt í Félagi um Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi 🙂

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 20. september

Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi er haldinn miðvikudaginn 20. september kl. 17:00. Fundurinn er haldinn að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Tvær af fimm stjórnarkonum félagsins láta af störfum í ár, svo við auglýsum sérstaklega eftir framboðum til stjórnar. Stjórnarseta er 3 ár og er að sjálfsögðu stórskemmtileg!

Stjórn Fjöruverðlaunanna starfar samkvæmt siðareglum, og við vekjum sérstaka athygli að þær reglur segja til um að eigi stjórnarkona hlutdeild í bók sem lögð verður fram til Fjöruverðlaunanna ber henni að víkja úr stjórn á því starfsári. Hægt er að lesa siðareglurnar í heild sinni á vefsíðu félagsins: http://fjoruverdlaunin.is/fel…/starfs-og-sidareglur-stjornar.

Hafið samband við stjórn fyrir miðvikudaginn 13. september til að bjóða ykkur fram! Netfang: bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com.

Dagskrá fundar eru hefðbundin aðalfundarstörf:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 13. september) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá.
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Fjöruverðlaunin 2017: Verðlaunahafar

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru veitt við hátíðlega athöfn í Höfða 19. janúar 2017.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:
Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur

Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur

Þetta í ellefta sinn sem verðlaunin eru veitt og í þriðja sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna og afhenti verðlaunahöfum blóm. Venju samkvæmt fengu verðlaunahafar keramik-egg eftir listakonuna Koggu. Einnig fengu verðlaunahafar afhent gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði.

Rökstuðningur dómnefnda:

Frá dómnefnd í flokki fagurbókmennta

Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur
Útgefandi: JPV

Skáldverkið Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur geymir fjölradda sagnaheim um sérstakar en þó trúverðugar manneskjur sem reyna að mynda tengsl í oft einmanalegri tilveru. Hér skarast líf og farast á mis, fínlegir þræðir fléttast saman. Textinn er uppfullur af mennsku og ber vott um næmi fyrir margbreytileika sálarlífsins. Höfundur leikur sér með ólík sjónarhorn og hversdagsleikinn og fantasían mætast með óvæntum hætti. Með flæðandi, heillandi stíl fangar höfundurinn skáldskapinn í tilverunni. Frásagnirnar eru ýmist sorglegar, spaugilegar eða þrungnar undirliggjandi óhugnaði, en höfundur leikur áreynslulaust á alla þessa strengi. Verðlaunabókin er samspil radda úr fortíð, nútíð og framtíð sem snerta við lesandanum.

Frá dómnefnd í flokki barna- og unglingabókmennta

Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur
Útgefandi: Iðunn

Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur er falleg, vel skrifuð og fræðandi bók um Ísland þar sem fjallað er um birtuna, myrkrið, dýralíf, gróðurfar, mannlíf, íslenska tungu og ýmislegt fleira sem tengist lífi okkar og tilveru á þessari litlu eyju. Höfundar koma vel til skila mikilvægi þess að hugsa vel um landið og að Ísland sé land okkar allra. Uppsetning bókarinnar er afar aðgengileg og hægt að grípa niður í bókina hvar sem er, aftur og aftur, og finna eitthvað sem fangar athyglina. Ríkulegar myndskreytingar mynda heildstætt verk þar sem hver blaðsíðan af annarri er sannkallað listaverk.

Frá dómnefnd í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis

Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur
Útgefandi: Bjartur

Steinunn Sigurðardóttir skrifar í Heiðu, fjalldalabóndanum um unga konu sem er margslunginn persónuleiki, full af andstæðum og fer eigin leiðir í lífinu. Heiða er einyrki á afskekktu sauðfjárbúi sem hellir sér út í sveitarstjórnarstörf vegna andstöðu sinnar við hugmyndir um Búlandsvirkjun í Skaftárhreppi, enda ljóst að virkjun myndi gerbreyta náttúrufari héraðsins. Bókin sýnir bónda sem segist hafa tímabundin umráð yfir landinu og telur það skyldu sína að vernda það. Deilur um virkjunina valda úlfúð í samfélaginu en sagan dregur einnig upp mynd af tryggri fjölskyldu og góðum grönnum. Heiða er persóna sem vekur áhuga lesandans og Steinunn hefur gert meistaraleg skil.

Einnig voru tilnefndar:

Fagurbókmenntir:
Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur
Kompa eftir Sigrúnu Pálsdóttur

Barna- og unglingabókmenntir:
Doddi: Bók sannleikans! eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur; myndir og kápa Elín Elísabet Einarsdóttir.
Úlfur og Edda: Dýrgripurinn, höfundur texta og mynda er Kristín Ragna Gunnarsdóttir.

Fræðibækur og rit almenns eðlis:
Hugrekki – saga af kvíða eftir Hildi Eiri Bolladóttur
Barðastrandarhreppur – göngubók eftir Elvu Björgu Einarsdóttur

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2017 skipa:

Fagurbókmenntir:

  • Guðrún Lára Pétursdóttir, ritstjóri tímaritsins Börn og menning
  • Salka Guðmundsdóttir, leikskáld og þýðandi
  • Bergþóra Skarphéðinsdóttir, íslenskufræðingur

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Júlía Margrét Alexandersdóttir, blaðamaður
  • Þorbjörg Karlsdóttir, bókasafnsfræðingur
  • Arnþrúður Einarsdóttir, kennari

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Erla Elíasdóttir Völudóttir, þýðandi
  • Helga Haraldsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu
  • Sigurrós Erlingsdóttir, íslenskukennari

Bókahátíð Fjöruverðlaunanna – laugardaginn 10. desember kl. 13

Fjöruverðlaunin bjóða til Bókahátíðar laugardaginn 10. desember í Hannesarholti við Grundarstíg í Reykjavík klukkan 13.

Höfundar þeirra bóka sem tilnefndar eru til Fjöruverðlaunanna 2017 koma saman, kynna sig og lesa úr bókum sínum. Notaleg bókastemning og svigrúm fyrir spurningar og spjall. Öll velkomnin á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis.

Hægt er að panta jólaplatta á Hannesarholti í aðdraganda bókahátíðarinnar og eftir hana er tilvalið að setjast niður í veitingasal Hannesarholts og fá sér heitan kaffisopa og kökusneið. Við mælum sérstaklega með því að fólk fái sér göngutúr í miðbæ Reykjavíkur fyrir hátíðina sem skartar nú sínu fegursta í jólamánuðinum og er orðin fagurlega skreytt.

Níu bækur eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna, í þremur flokkum, og var tilkynnt um tilnefningar við hátíðlega athöfn í Borgarbókarsafninu í Kvosinni þann 6. desember.

Tilnefndar bækur eru:

Fagurbókmenntir

  • Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur
  • Kompa eftir Sigrúnu Pálsdóttur
  • Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur

Fræðibækur og rit almenns eðlis

  • Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur
  • Hugrekki – saga af kvíða eftir Hildi Eiri Bolladóttur
  • Barðastrandarhreppur – göngubók eftir Elvu Björgu Einarsdóttur

Barna- og unglingabókmenntir

  • Doddi: Bók sannleikans! eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur; myndir og kápa Elín Elísabet Einarsdóttir.
  • Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur
  • Úlfur og Edda: Dýrgripurinn eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur

Fjöruverðlaunin 2017: Tilnefningar

Gleðin var við völd á Borgarbókasafninu í miðbæ Reykjavíkur þegar níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna 6. desember 2016.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Fagurbókmenntir

  • Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur
  • Kompa eftir Sigrúnu Pálsdóttur
  • Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur

Fræðibækur og rit almenns eðlis

  • Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur
  • Hugrekki – saga af kvíða eftir Hildi Eiri Bolladóttur
  • Barðastrandarhreppur – göngubók eftir Elvu Björgu Einarsdóttur

Barna- og unglingabókmenntir

  • Doddi: Bók sannleikans! eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur; myndir og kápa Elín Elísabet Einarsdóttir.
  • Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur.
  • Úlfur og Edda: Dýrgripurinn, höfundur texta og mynda er Kristín Ragna Gunnarsdóttir

Rökstuðningur dómnefnda

Fagurbókmenntir

Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur.
Útgefandi Benedikt.

Í sinni fyrstu skáldsögu dregur Sigríður Hagalín Björnsdóttir lesandann inn í martraðarkennda framvindu með snarpri og hugvitssamlegri frásögn af Íslandi sem misst hefur allt samband við umheiminn. Hvað gerist þegar norræn eyja úti í ballarhafi einangrast algjörlega? Hvaða lögmál taka völdin í slíku ástandi? Sigríður heimfærir dystópíuformið á okkar eigið samfélag og setur þannig hið kunnuglega og hversdagslega í nýtt, ógnvekjandi og ónotalega trúverðugt samhengi. Mismunandi frásagnaraðferðum er beitt á áhrifaríkan hátt – sögum af afdrifum persóna er blandað saman við blaðagreinar, skýrslur og ljóðrænni kafla – og úr verður spennandi saga sem vekur lesandann óhjákvæmilega til umhugsunar um brýn málefni á borð við þjóðernishyggju, umhverfismál og fólk á flótta. Þótt Ísland sé í brennidepli skrifar Sigríður inn í mun stærri heimsmynd og stenst þá freistingu að gefa einhlít svör. Eyland er afar vel heppnuð frumraun höfundar sem fetar nýja slóð.

Kompa eftir Sigrúnu Pálsdóttur.
Útgefandi Smekkleysa.

Kompa eftir Sigrúnu Pálsdóttur er margslungin og áhrifarík skáldsaga þar sem hárnákvæmur stíl og hugvitsamleg uppbygging mætast. Þótt sagan sé sögð frá sjónarhóli ungrar fræðikonu og snúi að glímu hennar við sögulegar heimildir fjallar hún ekki síður um mörk raunveruleika og túlkunar. Undir yfirborðinu ólga spurningar um hversu áreiðanlegar heimildirnar um okkar eigin tilveru séu í raun, hvað af því sem við upplifum hafi raunverulega gerst og hvað sé einungis túlkun okkar sjálfra. Þannig varpar höfundur ljósi á sammannlegt eðli þar sem vonir og væntingar einstaklingsins og þörf hans fyrir að uppfylla tiltekna sjálfsmynd stýra því hvernig hann les í umhverfi sitt. Þrátt fyrir þennan alvarlega undirtón er frásögnin fyndin og írónísk sýn höfundar á allt frá fræðastörfum til samskipta mæðgna og vinkvenna leynir sér ekki. Kompa er auðug skáldsaga sem vex við hvern lestur.

Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur.
Útgefandi JPV.

Hinn langi og skemmtilegi titill Raddir úr húsi loftskeytamannsins er snjöll vísun í þann fjölradda sagnaheim sem skáldverkið geymir. Þar er að finna sögur um sérstakar en þó trúverðugar manneskjur sem reyna að mynda tengsl í oft einmanalegri tilveru. Persónurnar eiga ýmislegt sameiginlegt – líf sem skarast og farast á mis, fínlegir þræðir sem fléttast saman. Textinn er uppfullur af mennsku og ber vott um næmi fyrir margbreytileika sálarlífsins. Höfundur leikur sér með ólík sjónarhorn og hversdagsleikinn og fantasían mætast gjarnan með óvæntum hætti. Með hófstilltum lýsingum og flæðandi stíl nær höfundurinn sterkum hughrifum og fangar skáldskapinn í tilverunni. Sögurnar eru allt í senn sorglegar, spaugilegar eða þrungnar undirliggjandi óhugnaði. Allt þetta hefur Steinunn G. Helgadóttir á valdi sínu, að því er virðist áreynslulaust og léttilega. Raddir úr húsi loftskeytamannsins er samspil fjölmargra radda úr fortíð, nútíð og framtíð sem snerta við lesandanum.

Fræðibækur og rit almenns eðlis

Barðastrandarhreppur göngubók eftir Elvu Björgu Einarsdóttur.
Útgefandi Elva Björg Einarsdóttir (bagellabauk)
Það er löngun til að vökva ræturnar sem rekur Elvu Björgu Einarsdóttur af stað í göngu um æskuslóðirnar í Barðastrandarhreppi. Áratug síðar er orðin til bók með fjölmörgum gönguleiðum inn til fjalla eftir hreppnum endilöngum og auk þess lýsingum á göngu eftir allri strandlengjunni og sérhverjum bæ sveitarinnar. Elva Björg gengur gamlar þjóðleiðir og kryddar gönguna með áhugaverðum frásögnum úr nútíð og fortíð. Í gegnum frásögnina skín ást Elvu Bjargar á landinu. Lesendur fá innsýn í mannlífið á uppvaxtarárum höfundar en einnig í fornminjar, vegagerð, sjósókn og draugasögur af svæðinu. Einnig bendir hún á hentugar gönguleiðir fyrir börn. Allir geta því fundið eitthvað við sitt hæfi. Bókinni fylgir fallegt kort sem Kristbjörg Olsen myndlistarkona teiknaði og undirstrikar það vel lengd Barðastrandarhrepps, en tólf gönguleiðir eru merktar inn á kortið. Bókin er full af skemmtilegum fróðleik og nýtist eflaust vel við undirbúning gönguferða í Barðastrandarhreppi. Auk þess er um sjálfsútgáfu að ræða og þó að fjölmargir hafi komið að tilurð og útgáfu bókarinnar má kalla hana einnar konu framtak.

Hugrekki. Saga af kvíða eftir Hildi Eiri Bolladóttur.
Útgefandi Vaka Helgafell.

Í bókinni Hugrekki – sögu af kvíða segir Hildur Eir Bolladóttir frá þráhyggju og kvíða sem hún hefur glímt við frá unglingsaldri. Frásögnin er persónuleg en hefur jafnframt almenna skírskotun sem margir geta eflaust tengt við eigin reynsluheim. Í bókinni lýsir höfundur ýmsum birtingarmyndum kvíða, áráttuhegðunar og þráhyggju og þeim áhrifum sem þetta hefur haft á líf hennar og líðan. Hún lýsir því hve erfitt getur reynst að átta sig á einkennunum sem fylgja andlegum kvillum en leggur áherslu á að smám saman sé hægt að læra að halda þeim niðri. Það er síður en svo óalgengt að fólk glími við lamandi kvíða eða konur finni fyrir fæðingarþunglyndi og þurfi jafnvel að leita á geðdeild, en margvísleg tabú og ranghugmyndir eru tengd þessum sjúkdómum. Styrkur bókarinnar felst ekki síst í að Hildur Eir ræðir opinskátt um þessi tabú og og beitir húmor þótt hún fjalli um alvarleg málefni. Hildur Eir er vel menntuð kona sem þjónar sem prestur í stórri sókn. Saga hennar sýnir hvernig hægt er að takast á við vandann og nýta hann til að hjálpa öðrum.

Heiða, fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur.
Útgefandi Bjartur.

Heiða, fjalldalabóndinn er saga ungrar konu sem fer eigin leiðir í lífi og störfum. Heiða er einyrki á afskekktu sauðfjárbúi og sem vitundarmiðja og sögumaður frásagnarinnar lýsir hún daglegum og árstíðabundnum störfum á búinu, en einnig því hvernig hún leiðist út í sveitarstjórnarstörf vegna andstöðu sinnar við áform fyrirtækisins Suðurorku um Búlandsvirkjun í Skaftárhreppi, enda ljóst að slík virkjun myndi gerbreyta náttúrufari héraðsins. Bústörfin og lífsbaráttan í afskekktu byggðarlagi eru þungamiðja frásagnarinnar, en einnig er náttúran og mikilvægi þess að standa vörð um hana gegnumgangandi þema. Sú varðstaða getur þó reynst dýrkeypt, bæði í lögfræðikostnaði og dýrmætum vinnustundum á búinu, og einnig er hætt við sundrungu í litlum samfélögum þegar orkufyrirtæki og önnur utanaðkomandi öfl mæta á svæðið og gera íbúunum gylliboð. Þessu lýsir sagan en jafnframt góðum grönnum og sterkri fjölskyldu. Steinunn Sigurðardóttir hefur skrifað magnaða og einlæga bók um athyglisverða og sterka persónu sem ögrar ýmsum staðalímyndum samfélagsins.

Barna- og unglingabókmenntir

Doddi: Bók sannleikans! eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur, myndir og kápa Elín Elísabet Einarsdóttir.
Útgefandi Bókabeitan.

Söguhetjan í Dodda: Bók sannleikans ákveður að skrifa þunna bók um sannleikann, eða eigið líf. Honum finnst bækurnar sem fullorðnir vilja að hann lesi, flestar vera hnausþykkar, verulega barnalegar eða yfirþyrmandi ævintýralegar og fjalla um eitthvað sem gerðist í fornöld. Doddi: Bók sannleikans er einmitt ekki þannig. Hún er í dagbókarformi, gerist í íslensku, fjölmenningarlegu umhverfi og fjallar um venjulega krakka í efri bekkjum grunnskólans. Líf Dodda hverfist aðallega um Hönnu Rós, sem hann er ástfanginn af, og söfnun á skordýrum. Lífið er gott þrátt fyrir smávægileg vandamál eins og ástarsorg, vandamálin eru yfirstíganleg og tilvera krakkanna skemmtileg. – Öfugt við foreldrana, sem eiga sér leiðinleg áhugamál eins og hollustufæði, makaleit á netinu og Framsóknarflokkinn. Krakkar í síðustu bekkjum grunnskólans þekkja þennan strák í sjálfum sér eða bekkjarfélögum sínum. En þessi kunnuglegi veruleiki verður mjög fyndinn í meðförum Dodda, sem hefur einstaka sýn á veröldina, og það gerir bókina mjög áhugaverða og skemmtilega.

Úlfur og Edda: Dýrgripurinn. Höfundur texta og mynda Kristín Ragna Gunnarsdóttir.
Útgefandi Bókabeitan.

Sagan af Úlfi og Eddu fer með lesendur í æsispennandi ævintýri þar sem skemmtilegum hversdagsheimi barna er blandað saman við ævintýraheim norrænnar goðafræði á nýstárlegan og frumlegan hátt. Um leið eru þekktir atburðir úr íslenskri menningu gerðir afar aðgengilegir og forvitnilegir án þess að það sé nokkur afsláttur gefinn af skemmtanagildi bókarinnar. Höfundur gefur lesendum glænýja sýn á margar þekktar persónur goðheima og færir þær nær okkar hversdagslegu tilveru og samtíma. Bókin tekur að auki á ýmsum þeim málum sem börn nútímans þekkja vel, til dæmis hvað það er að eiga stjúpsystkini, tilheyra mismunandi fjölskyldugerð, hlutverk afa og ömmu og börnum sem tilfinninga- og vitsmunaverum er gert hátt undir höfði. Bókin sameinar því það að vera fræðandi, skemmtileg og fyndin, skrifuð á auðskiljanlegu máli sem mun þó án efa styrkja orðaforða barnanna.
Myndskreytingar bókarinnar eru þá sérlega vel útfærðar og bæta miklu við.

Íslandsbók barnanna. Texti Margrét Tryggvadóttir, myndir Linda Ólafsdóttir.
Útgefandi Iðunn.

Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur er mjög falleg og fræðandi bók um Ísland. Í formála tala höfundar um að landið sé dýrmætt og benda meðal annars á að það þurfi að passa landið vel og að nóg pláss sé fyrir alla. Texti bókarinnar er vel skrifaður, fræðandi og kaflarnir hæfilega langir. Fjallað er meðal annars um náttúruna, birtuna og myrkrið, dýralíf, gróðurfar og mannlíf. Í bókinni er farið í gegnum árstíðirnar og skiptist hún í vor, sumar, haust og vetur. Efnisyfirlit er fremst og hægt er að grípa niður í bókina hvar sem er og finna eitthvað áhugvert. Bókin er ríkulega myndskreytt og eru myndirnar stór hluti bókarinnar. Þær eru hver annarri fallegri, sannkölluð listaverk. Útlit og uppsetning bókarinnar er mjög skemmtileg, góður pappír og hentug leturgerð. Þetta er mjög fín fjölskyldubók sem hentar í raun öllum aldri.

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2017 skipa:

Fagurbókmenntir
Bergþóra Skarphéðinsdóttir, íslenskufræðingur
Guðrún Lára Pétursdóttir, ritstjóri tímaritsins Börn og menning
Salka Guðmundsdóttir, leikskáld og þýðandi

Fræðibækur og rit almenns eðlis
Erla Elíasdóttir Völudóttir, þýðandi
Helga Haraldsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
Sigurrós Erlingsdóttir, íslenskukennari

Barna- og unglingabókmenntir
Arnþrúður Einarsdóttir, kennari
Júlía Margrét Alexandersdóttir, blaðamaður
Þorbjörg Karlsdóttir, bókasafnsfræðingur

Tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna 2017, þriðjudaginn 6. desember kl. 17

Velkomin á tilnefningahátíð Fjöruverðlauna – bókmenntaverðlauna kvenna þriðjudaginn 6. desember kl. 17. Hátíðin verður haldin í Borgarbókasafninu í Tryggvagötu.

Dómnefndir tilnefna bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis.

Léttar veitingar í boði.

Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna.

Fjöruverðlaunin 2017: Auglýst eftir bókum

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, tilnefna bækur eftir konur til verðlauna í þremur flokkum:

  • fagurbókmenntir
  • fræðibækur og rit almenns eðlis
  • barna og unglingabækur

Skorað er á útgefendur að leggja fram útgáfubækur ársins 2016 í þessa flokka. Þrjú eintök af framlagðri bók þurfa að berast á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda sem fyrst.

Hvaða bækur koma til greina?

Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:

  • skrifaðar af konu/konum
  • frumútgáfa sé á íslensku
  • gefnar út af forlagi á Íslandi
  • koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
  • innihaldi texta af einhverju tagi
    að kona/konur eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur séu helmingur höfunda (ef margir)

Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.

Hvernig er bók skráð til þátttöku?

Á hverju hausti auglýsa Fjöruverðlaunin eftir skráningum í verðlaunapottinn. Auglýst er á heimasíðu Fjöruverðlaunanna og Fésbókarsíðu þeirra, og hvatning er send til útgefenda á póstlista Félags íslenskra bókaútgefenda.

Útgefendur skrá bækur til þátttöku og ákveða í hvaða flokki þær taka þátt. Það er útgefendum að kostnaðarlausu að setja bækur sínar í pottinn en útgefendur þurfa að gera eftirfarandi:

a) Senda lista yfir allar bækur útgefanda eftir konur, flokk og áætlaðan útgáfutíma þeirra til stjórnar Fjöruverðlaunanna fyrir 31. október 2016, á bokmenntaverdlaunkvenna[hjá]gmail.com.

b) Afhenda þrjú eintök af hverri bók Félagi íslenskra bókaútgefenda sem sér um að dreifa bókunum til dómnefnda.

Ný stjórn Fjöruverðlaunanna

Védís Skarphéðinsdóttir fráfarandi formaður, Lára Jónsdóttir, Ingibjörg Valsdóttir, Ásbjörg Una Björnsdóttir og Halldóra Sigurdórsdóttir fráfarandi gjaldkeri, á aðalfundi 2016.

Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna var haldinn að Hallveigarstöðum í Reykjavík 29. september síðastliðinn.

Á fundinum var í fyrsta skipti kosið til nýrrar stjórnar frá stofnun félagsins 2013.

Úr stjórn véku Védís Skarphéðinsdóttir formaður, Halldóra Sigurdórsdóttir gjaldkeri, Erla Hlynsdóttir og Unnur Jökulsdóttir. Þökkum við þeim vel unnin störf síðustu tvö árin, við að koma þessu nýja félagi á laggirnar.

Á fundinum var kosinn formaður Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir. Í stjórn voru kosnar Ásbjörg Una Björnsdóttir, Guðrún Birna Eiríksdóttir, Ingibjörg Valsdóttir og Lára Jónsdóttir. Óskum við nýrri stjórn velfarnaðar í starfi.

Einnig samþykkti aðalfundur breytingar á lögum félagsins. Ný grein 7 í samþykktum félagsins er nú „Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum, formanni og 4 meðstjórnendum,  kjörnum á aðalfundi til þriggja ára í senn.  Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn starfar samkvæmt starfsreglum sem hún setur sjálfri sér. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda.  Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.“

Aðalfundur Fjöruverðlaunanna 29. september 2016

Aðalfundur Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi er haldinn 29. september kl. 17:30. Fundurinn er haldinn að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Fjórar af fimm stjórnarkonum félagsins láta af störfum í ár, svo við auglýsum sérstaklega eftir framboðum til stjórnar. Stjórnarseta er 2 ár og er að sjálfsögðu stórskemmtileg!

Hafið samband við stjórn fyrir fimmtudaginn 22. september til að bjóða ykkur fram! Netfang: bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com.

Dagskrá fundar eru hefðbundin aðalfundarstörf: 

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar. Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund (þ.e. 22. september) og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna. 
  5. Ákvörðun félagsgjalds næsta árs.
  6. Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá.
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga 
  8. Önnur mál

Fjöruverðlaunahafi tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016

Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir, Elísabet Jökulsdóttir og Dagur B. Eggertsson í Höfða 21. janúar 2015. Mynd: Reykjavíkurborg.

Elísabet Jökulsdóttir er tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016 af Íslands hálfu, ásamt Guðbergi Bergssyni, fyrir bók sína Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett. Elísabet vann Fjöruverðlaunin 2015 og við óskum henni innilega til hamingju með tilnefninguna!

Hér er mynd af Elísabetu á verðlaunaafhendingunni í Höfða 21. janúar 2015. Með henni á myndinni er Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir sem vann Fjöruverðlaunin 2014 og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.